19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2878)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. 1. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Það vill nú svo til, að fjvn. er klofin um þetta mál, þannig að fjórir nm. leggja til, að þáltill. verði samþ. með nokkrum breyt., en fjórir aðrir nm. leggja til, að till. verði felld. Sú breyt., sem sá hluti fjvn., sem ég er frsm. fyrir, leggur til, er í því fólgin, að þar sem ákveðið var í upprunalegu till., að bréfin yrðu keypt fyrir matsverð, þá verði ákveðið, að þau verði keypt fyrir nafnverð, meður því að það hefur sýnt sig eftir mati, sem farið hefur fram á bréfunum, að n. sú, sem hefur haft þetta mál með höndum, telur, að hlutabréfin standi í nafnverði. — Önnur breyt., sem við viljum gera á till., er sú, að hlutabréfin greiðist eigendum með ríkisskuldabréfum til 10 ára með 4% ársvöxtum.

Þáltill. þessari fylgir mjög ýtarleg grg., og sé ég ekki ástæðu til að rekja efni hennar, þar sem hún mun vera hv. þm. mjög kunn, enda hefur málið verið a. m. k. tvisvar áður hér fyrir Alþ. En þeir, sem vilja láta samþ. þessa till., færa fram aðallega sínu máli til stuðnings, hygg ég, að ríkissjóður hafi í hendi sér að gera hlutabréf Útvegsbankans svo úr garði, að þau gangi ekki kaupum og sölum. Og ríkissjóður hefur notað sér þetta, a. m. k. á síðasta aðalfundi bankans, þar sem sýnt var, að hagur bankans hefur verið þannig, að vel hefði mátt gera ráð fyrir arði af hlutabréfunum. En mér er tjáð, að fulltrúi ríkissjóðs á fundinum hafi lagt til, að arður yrði ekki greiddur af bréfunum. Og það mun verða til þess, að þessi bréf ganga ekki kaupum og sölum. Á þennan hátt heldur ríkissjóður enn þá fyrir þeim, sem áttu fé inni í Íslandsbanka, þegar hann var lagður niður, fé þeirra. Virðist þetta mjög óréttlátt. Ef till. sú verður samþ., sem ég og þrír aðrir hv. nefndarmenn standa hér að, þá mundi koma sú breyt. á, að hlutabréf bankans færu að ganga kaupum og sölum, a. m. k. þessi hlutabréf, sem eru eins til komin og getið er um í till.

Eftir athugun á þessu máli, tel ég þetta réttlætismál. Og ég legg eindregið til, að tillgr. verði samþ. eins og segir á þskj. 358. Það verður ekki séð, að það sé á neinn hátt réttlætanlegt, að ríkissjóður haldi þessu fé fyrir hluthöfum bankans, eins og þessi hlutabréf eru til komin, arðlausu ár eftir ár, eins og ástæður eru hjá ríkissjóði og bankanum.