02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (3176)

173. mál, skipulag Reykjavíkurbæjar

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það þarf í raun og veru ekki að svara ummælum hv. þm. S.-Þ. ákaflega miklu. Mönnum dylst nú ekki sá skyldleiki, sem er með honum og hv. 5. þm. Reykv. (BrB), því að það var hér frv. á ferðinni á dögunum um nefnd, og þá hótaði hv. 5. þm. Reykv., að nefndin mundi segja af sér, ef Alþ. yrði svo djarft að samþ. það frv. En nú segir hv. þm. S.-Þ., að skipulagsn. muni segja af sér, ef þetta frv. verði samþ. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að þessi rök hv. þm. S.-Þ. hafi ákaflega mikla þýðingu og verki ekki til styrktar fyrir þann málstað, sem þau eru flutt fram fyrir. Hitt skal ég játa, að það má deila um mörg atriði í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir. Það var þó rangt, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að með þessu móti væri ætlunin að undanþiggja Reykjavík landslögum, vegna þess að samþykkt þessa frv. væri að setja sérstök lagaákvæði um Reykjavík, sem sagt að breyta landsl. um ákveðið efni, en Reykjavík mundi fara eftir landslögum eftir sem áður.

Aðalástæðan fyrir því, að frv. þetta er fram borið, er, að þeir ágætu menn í skipulagsn. ríkisins hafa mjög stórum og veigamiklum embættum að gegna, og engin af þeim embættum eru þess eðlis, að þeir menn, sem eru í skipulagsn. ríkisins, hafi neina sérstaka aðstöðu til að hafa þekkingu á þörfum Reykjavíkur í skipulagsmálefnum, nema þá helzt húsameistari ríkisins, því að hvorki vegamálastjóri né vitamálastjóri hafa neina slíka sérþekkingu. Þeirra embættisstörf fjalla um allt önnur og þessu óskyld málefni. Og þar sem t. d. vegamálastjórastarfið er með allra stærstu embættum landsins, þá er ljóst, að mönnum eins og honum er vorkunn, þó að þeir hafi ekki getað gefið sig að þessum skipulagsmálum Reykjavíkur svo sem þörf hefði verið. Og ég vil fræða hv. þm. S.-Þ. um það, að skipulagsn. ríkisins hefur ekki enn þá treyst sér til þess að leggja fram uppdrátt um skipulag Reykjavíkur í heild. Aðferð hennar hefur verið að koma með uppdrætti af litlum svæðum, sem svo stangast oft á tíðum hver við annan. Og oft og tíðum er það þannig, að einhver megintill., sem borin er fram í dag, er alveg kastað fyrir borð nokkrum dögum síðar. Og vinnubrögðin hafa verið þannig í þessu efni, að tekin hafa verið smá stykki og stykki og þau skipulögð, í stað þess að gera skipulagsuppdrátt fyrir allan bæinn. Og það er til þess að koma þessum málum betur áleiðis, sem við leggjum til, að sérstök stofnun verði sett á stofn til þess að starfa að skipulagningu Reykjavíkurbæjar. Hitt er annað mál, hvort hægt er að tengja þetta við núverandi skipulag. Ég skal ekki um það segja á þessu stigi málsins.

Ég er sammála um það, að málið eigi að ganga til n. og verði tekið til athugunar á næsta þingi. En ég mun ekki fara fram á, að frv. verði afgr. úr þessari hv. d. á þessu þingi.