15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

181. mál, tilraunastöð og skólasetur á Reykhólum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það er svo áliðið þess tíma, sem d. hefur til umráða nú í dag, að ég skal vera fáorður um þessa till. okkar. Eins og grg. ber með sér, var málinu vísað til landbn. til afgreiðslu hér frá d. N. leit svo á, að það væri ekki tímabært og málið yfirleitt ekki svo undirbúið, að rétt væri að samþ. frv. allt, en að sá hluti af frv., sem væri um tilraunastöð á jörðinni, þyldi minnsta bið. Okkur virtist æskilegast að byrja sem fyrst á því starfi, og var n. sammála um að reyna að flýta fyrir því eins og unnt væri.

Um hitt atriðið, sjálfan vinnuskólann, virtist okkur ekki hægt að afgr. þann hluta frv. strax á þessu þingi. Undirbúningur þess máls er ekki nægilegur, og þótti okkur rétt að ganga eins rækilega frá því frv. og kostur væri, áður en það yrði samþ. endanlega. Þess vegna er frv. í tvennu lagi. Einnig var það, að n. vildi líka spyrna fótum við því, að nokkuð yrði gert á þessari jörð, sem gæti orðið til tafar fyrir vinnuskólann, heldur miða allt við, að undirbúningur yrði gerður að honum, um leið og tilraunastöðin yrði stofnuð. Sem sagt þá vill n. leggja það til við hv. d., að hún ýti á eftir málinu eins og hægt er og l. standa til. Það er til fé til að koma stöðinni upp, og er æskilegt, að það verði gert sem fyrst. Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.