16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Í síðustu viku var vísað til fjhn. frv. til l. um tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana eftir tilmælum stj. Haldinn var fundur af fjhn. beggja d., og kom þar í ljós, að n. þótti frv. fela í sér of litlar upplýsingar. Allir nm. að einum undanteknum féllust á að skrifa stj. bréf, þar sem óskað var eftir ýmsum upplýsingum í sambandi við frv. Í því var m. a. spurt um það, hvað áætlað væri, að uppbætur á innlendar afurðir á innlendum markaði yrðu miklar á næsta ári, og að því sama var spurt, hvað viðvíkur útfluttum landbúnaðarafurðum. Enn fremur var spurt um það, hvað vísitalan mundi lækka mikið, ef slíkar uppbætur yrðu greiddar á innlendum markaði, og hvaða áhrif þessi vísitölulækkun væri talin hafa á íslenzkan sjávarútveg, og spurt um það, hvaða áhrif þetta 2% gjald, sem minnzt er á í frv., mundi hafa á vísitöluna og íslenzkan sjávarútveg. N. ákvað að halda ekki fund aftur, fyrr en svar væri komið frá stj. við þessari fyrirspurn. Enn hefur ekkert svar komið til fjhn., en svo sér maður hér í dag till. frá fjórum fjhnm. í báðum d. Þessi till. hefur aldrei verið lögð fram í fjhn. og ekki óskað umsagnar hennar um till. eða óskað eftir, að hún yrði flutt af n. í sameiningu eða annarri hvorri n., og þar sem beðið var frekari skýringar á frv., þrátt fyrir það að grg. þess var þrjár línur, þá hefur nú grg. þornað upp, og er nú grg. í þessu frv. rúml. ½ lína, og hljóðar hún svo: „Tillaga þessi er flutt eftir tilmælum ríkisstjórnarinnar“.

Ég verð að segja það, að mér kemur þetta nokkuð á óvart. — Í vor var í fjhn. Nd. gerð málamiðlun í þessum dýrtíðarmálum, og voru menn samþykkir því í höfuðatriðum, að sex manna n. skyldi reyna að komast að niðurstöðu um framleiðsluvísitölu landbúnaðarafurða og um hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags, og ef n. yrði sammála, skyldi sá úrskurður gilda um afurðaverð á innlendum markaði. Þetta var það eina vald, sem þessari n. var fengið, og þegar svo n. hafði gefið upp úrskurð sinn um verðlag á afurðum á innlendum markaði, reyndist það verð á kjöt og mjólk vera hærra en áður hafði verið. Til þess að leysa úr þessum vandræðum vildi stj. borga afurðir niður á innlendum markaði. Svo þegar maður kemur á þing, fær maður þær fréttir, án þess að fyrir því væru fullar sönnur, þótt margt benti til, að rétt væri, að hér hefði verið safnað undirskriftum um það að greiða fullar uppbætur á allar landbúnaðarafurðir, sem fluttar væru út. Nú skal ég ekki neita því, að menn hafi vald til þess að gera slík samtök með sér, en það, sem gert var varðandi uppbætur á erlendum markaði, mun hafa verið áframhaldandi tilraun til samkomulags. En slíkt samkomulag var ekki farið fram á, heldur hafa þessir menn tekið sér vald í hendur, sem stj. hafði ein vald til, nema því sé þannig varið, að stj. sé fullkomlega sammála öllum þessum aðgerðum. Ég lít þannig á, að þar sem stj. telur það fjöregg sitt að halda niðri dýrtíðinni, að afleiðingarnar af þessum dýrtíðarráðstöfunum verði nokkuð dýrkeyptar og þegar að greiðslunum kemur, að 10–15 millj. muni ekki nægja, heldur verði stj. að greiða um 20–30 millj., þegar allt kemur til alls. Ég verð því að segja, að svona meiri hl. í stj. sé dýrkeyptur.

Svo er sagt í sambandi við þessa till., að tilgangur hennar sé sá að veita ekki dýrtíðarflóðinu yfir þjóðina. En þeir, sem svona tala, virðast ekki vera hræddir við annað í þessu sambandi, en það er skattaflóðið. Því er nú þannig farið í þessum dýrtíðarmálum, að það er ekki nóg fyrir ríkissjóð að taka á sig greiðslur, svo að tugum milljóna skiptir, og segja: „Hesturinn ber ekki það, sem ég ber“, því að hvaðan er hægt að taka þetta nema frá atvinnurekstrinum eða atvinnuvegunum? Fyrir hverja er verið að vinna? Í sumar var það svo, að Búnaðarfélagið og bændur töldu það mjög varhugaverðar ráðstafanir að borga niður afurðaverð fyrir neytendur, og ég veit, að neytendur eru sammála bændum um þetta, því að þeir eru vissulega á móti hækkuðum sköttum og alls konar viðbótarsköttum og að haldið sé niðri kaupi þeirra. Hverjum er verið að hjálpa? Ég hef heyrt því haldið fram, að verið væri að hjálpa sjávarútveginum. Þetta ætti að segja sjómönnum og útgerðarmönnum. Ég hef heyrt þá segja, að það yrði úti um þá, ef fjárframlögum verði haldið áfram á þennan veg og þeir vildu heldur borga hærra kaup en sagt sé, að allt sé gert þeirra vegna. Mér er fullkunnugt um það, að hin raunverulega dýrtíð kemur ekki 100% niður á sjávarútgerðinni, þó að sérstaklega verði að taka tillit til smáútgerðarmanna, sem mjög lítið láta vinna í landi, og ég skal ekki segja, nema það mætti með hækkun vísitölunnar í samræmi við hina raunverulegu dýrtíð, eins og hún nú er, gera sjávarútgerðinni og kannske frystihúsunum full skil, og mundi það kosta mjög litla fjárhæð.

Ég hef heyrt þess getið í þessum umr., að í samkomulaginu frá því í vor hefðu verið ákvæði um það, að stj. hefði heimild til þess að borga niður afurðir á innlendum markaði innan viss tímatakmarks. Öllum er kunnugt um, hvernig þetta var hugsað. Birtar voru tölur og yfirlýsing gefin um, að þetta væri gert í þeim tilgangi að borga niður dýrtíðina raunverulega, þannig að dýrtíðin yrði minni í haust en í vor, þegar þessi löggjöf var sett. Það heyrðist hér í d. af nokkrum ræðum Framsfl.-manna, að það væri hættuleg stefna að ætla sér að borga niður dýrtíðina á þennan hátt og yrði hún ekki fær nema um skamman tíma. Var ekki borið á móti þessu og sagt við umr., að ef þetta heppnaðist ekki, yrði þessu ekki haldið áfram. Um hvaða fjárhæðir er nú að ræða, hvað snertir afurðaverð, sem sex manna n. hefur sett? Við höfum ekki fengið neinar ýtarlegar skýrslur um þetta fé, en mér finnst þó, að í grg. fyrir þessari till. hefði átt að geta verið eitthvað um það, hvað hún mundi kosta eða hvort hún mundi kosta 10–12, 12–15 eða 15–18 millj. kr.

Hér er um að ræða annað viðfangsefni en í vor, sem enginn þm. hefði þá látið sér detta í hug að taka undir. En tímarnir breytast og till. smábreytast með.

Hér er um það að ræða, hvort skrá á dýrtíðina rétt eða rangt, og var því lýst yfir við umr. hér, að þessar niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum mundu ekki hafa nein áhrif á dýrtíðina, vegna þess að verðlagið mundi standa fast í þessum afurðum. Ég hefði haldið, að þegar svo er komið, að dýrtíðin stendur þannig föst, mundu menn hætta þessum sandburði, og nú er fyrirsjáanlegt, að taka verður til annarra ráða, sem betur duga.

Fyrir nokkrum dögum flutti ég í fjhn. till. um það, að haldið yrði áfram samningum um þessi mál. Fyrsta uppbótartill. kom fram í sambandi við fjárl., en fyrsta tekjuöflunarfrv. gengur aftur til samninga um þessi mál, og er stj. þar veitt heimild til niðurgreiðslna til 15. febr. n. k. Þessi till. var ekki borin fram í fjhn., heldur eftir tilmælum stj., og er því ómögulegt fyrir þá, sem standa fyrir utan, að mæla slíkri till. bót.