16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3419)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér þegar við þessa umr. að óska frekari skýringa frá flm. till. um einstök atriði.

Í fyrri málsgr. till. er talað um fyrningu fiskiskipa, fasteigna og véla í sambandi við fiskveiðar og fiskiðnað, og er til þess ætlazt, að fyrningafrádráttur verði mjög aukinn frá því, sem nú er í gildandi reglugerð. Ég vil leyfa mér að spyrja flm. að því, hvort þeir telji ekki, ef það verður samþ., sem þeir fara hér fram á, að þá muni óhjákvæmilegt að láta þetta ná til fleiri manna og fleiri fyrirtækja en þeirra, sem fást við fiskveiðar og fiskiðnað. Mér virðist, að það standi svipað á um ýmsa aðra, sem hafa annan atvinnurekstur með höndum, hvort sem það er við landbúnað eða iðnað, og hafa lagt í að koma upp nýjum mannvirkjum nú á þessum stríðstímum.

Mér þætti vænt um að heyra álit flm. um það, hvort fleiri þyrftu ekki að fá svipuð hlunnindi, ef þessi till. yrði samþ.

Þá óska ég eftir skýringum við 2. mgr. Þar segir, að þessi aukafyrningarfrádráttur komi til greina við framtaldar tekjur árið 1942. Er til þess ætlazt, að skattur og útsvör yrðu þá endurgreidd, ef tili. yrði samþ., eða hluti af sköttum og útsvörum öllu heldur, sem eiga að vera greidd og eru lögð á eftir framtöldum tekjum 1941? Þetta grípur þannig inn í fortíðina. Er til þess ætlazt, að skattur verði umreiknaður hjá þeim fyrirtækjum, sem hefðu borgað of háan skatt, miðað við, að þessi till. verði samþ., og þeim síðan endurgreitt?

Það eru sérstaklega þessi tvö atriði, sem ég óska eftir að fá skýringu á.