16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

41. mál, nýbýlamyndun

Sveinbjörn Högnason:

Ég vildi aðeins leyfa mér að þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Við flm. getum vel fellt okkur við breyt. þá, er hún vill gera. Það er aðeins formsatriði um það, í samráði við hvaða aðila sé unnið að rannsókninni, og erum við því samþykkir, að þeir aðilar komi til samvinnu í þessu efni, sem meiri hl. allshn. leggur til.

Viðvíkjandi hinni rökst. dagskrá hv. minni hl. allshn. á þskj. 533, þar sem talið er, að ekki sé þörf á þeirri athugun, sem þessi till. gerir ráð fyrir, af því að búið sé að gera um þetta samþykkt áður, þá er það eins og menn sjái ekki nema að litlu leyti, sem efni þessara tillagna fellur saman. Það er ekki nema á einum stað. Það er helmingurinn af fyrsta atriði þál. frá 9. febr., sem sé að gera rannsókn á heppilegum skilyrðum með stofnun byggðahverfa fyrir augum. En jafnframt er í þessari till. gert ráð fyrir, að rannsóknin nái til stofnunar einstakra býla, sem hljóta að rísa upp, og er eðlilegt, að þetta fylgi rannsókn hverfanna, svo að einstöku býlin verði einnig sett á hentugum stöðum. Annað er þessum tillögum ekki sameiginlegt en ég hef nú drepið á. Það er ekkert tekið fram í fyrri till. að mínum dómi, að Alþ. feli Búnaðarfélaginu eða nýbýlastjórn að láta rannsaka, hvernig eignar- og umráðarétti þess lands er varið, sem hagkvæmast þykir til nýbýlamyndunar, og er þetta þó undirstöðuatriði. Það er því náttúrlega ekki heldur tekið fram, að skýrslur um þetta skuli sendar Alþ., Búnaðarfélaginu og ríkisstj. til athugunar, áður en hafizt sé handa. Það er því aðeins einn snertipunktur milli þessara tillagna. Ég sé ekki, að ýtarlegri rannsókn spilli fyrir málinu, þar sem allir þeir aðilar eru kvaddir til starfa, sem forustu geta haft um framkvæmdir í þessum efnum.