27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3610)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Eysteinn Jónsson:

Ég þarf í sjálfu sér ekki að vera langorður, því að hv. þm. V.-Sk. hefur tekið mest af því fram, sem ég ætlaði mér að minnast á. Ég geri nú ráð fyrir því, að þessi þáltill. fari til n. til athugunar. Og mér virðist — satt að segja —, að þessi þáltill. sé með öllu óþörf og óviðeigandi, eins og hún er fram sett. Það verður þó að segja hv. flm. til hróss, að þeir virðast í raun og veru vera fallnir frá því, að þáltill. geti orðið samþ., a. m. k. eins og hún liggur fyrir, því að eins og hún liggur fyrir óbreytt, þá fer hún fram á að banna alveg sölu á mjólk til setuliðsins, á meðan ekki er að fullu hægt að fullnægja eftirspurn eftir þessari vöru í Reykjavík. En eins og hér hefur verið mjög greinilega tekið fram í umr., væri það fullkomin óhæfa að framkvæma það, að Íslendingar neituðu að afgreiða til setuliðsins mjólk handa sjúklingum í setuliðinu og yfirleitt til afnota fyrir þá menn þar, sem sérstaklega þurfa á mjólk að halda. Þegar við athugum það, hversu margt við þurfum að sækja af vörum og öðru til þeirrar þjóðar, sem hefur hér setulið í landinu, þá yrði það að kallast beinlínis fjandsamlegt og með öllu óviðeigandi framkvæmd í þeirrar þjóðar garð að fara eftir því, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, og það væri í fullu ósamræmi við sambúð manna hér við setuliðið, eins og hún er nú og hefur verið.

Mér þykir það einnig einkennilegt, að þessi þáltill. skuli koma fram frá þeim hv. þm., sem að henni standa, þar sem vitað er, að þeir hafa ásamt ýmsum fleirum lagt hina mestu áherzlu á það, að menn hefðu sem mest frjálsar hendur í viðskiptum sínum við setuliðið hér í landinu. M. a. hefur því verið haldið mjög fram af þessum hv. flm. þáltill. utan þings og innan, að verkamenn ættu að vera sem allra frjálsastir og helzt alveg frjálsir að því að ganga í þjónustu setuliðsins — og það alveg án tillits til þess, hvort sérstök þörf væri fyrir hendi fyrir vinnu þeirra við framkvæmdir í landinu sjálfu, sem hafa mikla almenna þýðingu. Þannig hefur það t. d. verið undanfarin ár sums staðar, að stórfelldur skortur hefur verið á verkafólki til heyöflunar fyrir búfé landsmanna, m. a. fyrir mjólkurkýr. En samt sem áður, þó að þetta hafi legið fyrir, hefur því verið haldið fram, þegar mestur skortur var á vinnuaflinu til landbúnaðarframleiðslu, að það væri rangt að takmarka vinnuaflið til hernaðarframkvæmda. Þau rök hafa verið færð fyrir þessu, að mjög hagkvæmt væri fyrir verkamenn í landinu að vinna hjá setuliðinu. Nú er ég að mestu leyti á því, að það hafi oft og tíðum verið gengið full skammt í því að tryggja það, að vinnuafl væri til staðar fyrir nauðsynlegustu framleiðslu í landinu, m. a. landbúnaðarframleiðslu, og af því súpum við vafalaust seyðið nú, þegar skortur er á þessum vörum. En þó að þessu hafi að mínum dómi verið til að dreifa, þá réttlætir það ekki hitt, að við förum að hefjast handa nú, þannig að tekin verði upp allt önnur stefna, og það á þennan gersamlega óviðeigandi hátt, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Það er náttúrlega rétt, að reynt sé að draga úr kaupum setuliðsins á mjólk þann tíma, sem minnst er af þeirri vöru, — enda eru allir sjálfsagt fullkomlega sammála um það, — til þess að tryggja landsmönnum sjálfum sem mest af mjólk. En hitt er fullkomin fjarstæða, að hægt sje að taka alveg fyrir þau viðskipti, bæði vegna þess, að setuliðið þarf að fá mjólk handa sjúklingum, og einnig vegna þess, að það er hagkvæmt fyrir bændastéttina og landsmenn alla, að þessi viðskipti geti haldizt, sérstaklega á öðrum tímum, þegar of mikið er framleitt af mjólk fyrir íslenzkan markað. Mér finnst því, að það sé ekki aðeins ástæðulaust, heldur fullkomlega rangt að samþ. þáltill. þessa eins og hún liggur fyrir óbreytt, af þeim ástæðum, sem ég hef greint.