27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Haraldur Guðmundsson:

Ég verð að segja, að mig furðar ákaflega mikið á þeim umr., sem orðið hafa um þá till., er hér liggur fyrir, því að það er óvéfengjanlegt, að hér í bæ er nú tilfinnanlegur mjólkurskortur, og ég hef ekki heyrt bent á nema tvær leiðir til að bæta úr því í bili. Önnur er sú að taka upp almenna skömmtun á mjólk, hin er sú að fella niður sölu á mjólk til setuliðsins nema til sjúkrahúsa, — eða þá, ef ekki önnur leiðin, þá báðar. Nú er það ætlun flestra og mín líka miðað við rannsókn undanfarinna tíma, að þessi skortur muni ekki standa mjög lengi, og ætla ég, að það sé heldur farið að skána, þó að það sé ekki komið í gott horf. Hins vegar er býsna mikið umstang við að setja á fullkomna skömmtun fyrir þann tíma, sem maður býst við, að þetta standi, ef hægt er að ráða bót á þessu á annan hátt. Þess vegna hef ég ásamt fleiri hv. þm. borið fram þessa till. um, að hætt verði að selja mjólk til setuliðsins að öðru leyti en sjúkrahúsa, (SkG: Það er ekki tekið fram). Það var tekið fram í framsöguræðu. Ég vil benda á, að í þeirri brtt., sem hv. þm. V.-Sk. flytur, er alveg sama orðalag, svo að þessi hv. þm. getur deilt um það við hann, ef honum sýnist.

Mér skilst, að það, sem menn þurfa að gera upp við sig, sé það, hvor af þessum leiðum er betri. Nú er því margyfirlýst hér af hæstv. atvmrh., sem jafnframt er utanrh. og því allra manna kunnugastur þessu máli, að setuliðið hafi ekki óskað og óski ekki eftir að kaupa aðra mjólk en þá, sem afgangs er, þegar neyzlumjólkurþörf bæjarbúa er fullnægt. Og mér dettur ekki annað í hug en hann hafi þar fullkomlega rétt að mæla og hafi gengið úr skugga um, að svo sé sem hann hefur skýrt hjer frá, bæði í þingræðu og í viðtali. Ég veit, að formaður mjólkursölun. hefur öðru hverju verið að bera brigður á þetta, en það, sem hann hefur fram fært um þessi efni, stangast gersamlega við yfirlýsingar hæstv. atvmrh. hér, sem einnig fer með utanríkismál og sér um viðskipti við setuliðið og hefur einnig sem landbrh. þessi gögn í sínum höndum. Eftir það, sem fram hefur komið, verð ég að halda mig við þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh., þannig að það sé tvímælalaust, að setuliðið óski ekki eftir annarri mjólk en afgangs er, þegar neyzluþörf landsmanna sjálfra er fullnægt, og eins og hann bætti við, að setuliðið sé fúst til þess að semja um aukin mjólkurkaup á ný, þegar meiri mjólk fellur til.

Allt tal hv. þm. um, að hér sé verið að ráðast á bændur með flutningi og meðferð mjólkurmálanna á þingi, er vitanlega gersamlega tilhæfulaust. Hér er aðeins verið að tala um, hvort mjólkursalan í Reykjavík og Hafnarfirði sé rekin með því fyrirkomulagi, sem æskilegt er eða ekki. Það er aðeins verið að deila um það, hvort það er rétt ráðstöfun af hálfu stjórnar mjólkursamsölunnar að selja mjólk, svo að þúsundum lítra skiptir á dag, til setuliðsins, þegar mjólkurskortur er í þessum bæjum. Það er deilt á gerðir þeirra, sem með þessi mjólkursölumál fara, og með fullum rétti, verð ég að segja.

Ég heyri, að hér er gerður samanburður á því, að úr því að við teljum, að skylda hvíli á samsölunni að sjá bæjarbúum fyrir nægri og góðri mjólk, þá sé það, að mér skilst, skylda allra verkamanna, að spyrja alla atvinnurekendur, hvort þeir hafi nokkur not fyrir vinnuafl þeirra. Mér er óskiljanlegt, hvernig menn geta komið með slíka endileysu. Og hvað sem þessum samanburði líður, þá held ég, að setuliðsvinnan sé svo nú, að innan skamms verði jafnvel óskað, að hún væri rífari, frekar en því verði þá haldið fram, að hún sé of mikil. En ég get ekki stillt mig um í sambandi við þær hugleiðingar hv. þm., sem hér hafa komið fram, að lesa upp úr 7. gr. mjólkurl. frá 1935. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er mjólkurbúum, sem fengið hafa einkaleyfi til að starfrækja mjólkurbúðir, að sjá um, að ætíð sé nóg neyzlumjólk til sölu á þeim stöðum“. Hér er tvímælalaust að orði kveðið. Fyrir að fá þá aðstöðu, sem með mjólkurl. er veitt þeim lögskipuðu samtökum bænda, sem þarna er gert ráð fyrir, er líka sú skylda lögð þeim á herðar, — ekki hverjum einstökum bónda, heldur þeim stofnunum, sem við þessi mál fást, — að sjá um, að ætíð sé nóg neyzlumjólk til sölu á þessum stöðum, sem samtökin ná til. Nú hef ég ekki verið svo kröfuharður til mjólkursölun., að hún uppfyllti þetta bókstaflega, því að það getur komið fyrir, að slíkt sé torvelt. En það verður að krefjast þess, að allt sé gert af hálfu mjólkursölun., sem í valdi þessarar stofnunar stendur, til þess að uppfylla þær skyldur, sem l. leggja henni á herðar. Og meðan ekki er gert það, sem lagt er til í þessari þáltill., er ekki gert allt, sem hægt er, til að uppfylla þessar skyldur.

Það er háttur ýmissa hv. þm., þegar komið er með mál, sem þeim eru meira eða minna óþægileg, að fara að tala um annað, og í þessu tilfelli talar slíkir hv. þm. um vatnsskort, rafmagnsskort og ólagið á fisksölunni. Ég held, að það sé mjög fjarri sanni, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði hér, að aldrei væri neitt fundið að rafmagnsleysinu eða vatnsleysinu eða fisksölunni í bænum. Ég hygg, að að öllu samanlögðu sé ekki ýkjamikill munur á því, hvað fundið hefur verið að mjólkursölunni hér í bænum, og hinum öðrum málum. Hitt get ég vel skilið, að þegar vígstaðan til að verja vondan málstað er örðug, þá kjósi þessir menn, sem tala á móti þessu máli, að tala um eitthvað annað, til þess að snúa umr. frá þessu máli, sem hér liggur fyrir. Ég veit, að fisksalan er í hinu megnasta ólagi. En hver hefur fengið einkarétt til þess að selja fisk í bænum? Enginn. Það er engum aðila hægt að ganga að, sem tekið hafi á sig skuldbindingu um að sjá bænum fyrir nægum og góðum fiski. Hér er því gersamlega ólíku saman að jafna. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að það lægi nærri bænum að taka fisksöluna í sínar hendur og skipuleggja fisksöluna. Ég er honum sammála um það. En ég vildi þá bara benda þeim hv. þm. á það viðvíkjandi mjólkurmálinu, að fyrir liggja till. um, að bærinn taki að sér dreifingu og sölu mjólkur, og vildi ég þá mega vænta stuðnings þessa hv. þm. til þess líka eins og hins, að bærinn taki að sér fisksöluna.

Úr því að minnzt er á rafmagn í þessu sambandi, sem ég játa, að sé í mjög slæmu lagi, get ég ekki stillt mig um að benda á, hvernig aðfinnslum er tekið af þeim, sem taka á móti ásökunum fyrir, að rafmagn vantar. Ég veit ekki betur en að þeir aðilar hafi sent áskoranir til bæjarbúa um skynsamlega notkun rafmagnsins og að þessir aðilar hafi enn frekar lofað að bæta úr þessu ólagi, þó að efndirnar séu kannske ekki eftir því — enn sem komið er. Það er reynt af viðkomandi aðilum að bæta úr rafmagnsskortinum á skynsamlegan og skaplegan hátt, þó að efndirnar séu mjög misjafnar. En slíku er ekki til að dreifa hjá stjórn mjólkursamsölunnar, að það sé reynt eða lagt sé á sig mikið til þess að mæta mjólkurskortinum á sama hátt, sem líka sjást afleiðingarnar af, þar sem verður að standa lögregluvörður við mjólkurbúðirnar dag eftir dag, til þess að hægt sé að afgreiða í þeim, án þess að hætta sé því samfara. Það er raunalegt að þurfa að segja frá þessu, en það raunalegasta er, að það skuli vera rétt.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi, að það hlyti að vaka eitthvað annað fyrir flm. þessarar þáltill. en það, að hún væri borin fram af umhyggju fyrir velferð bæjarbúa. Ég hlýddi svo með mestu gaumgæfni á ræðu hans til þess að komast að því, hvað það væri annað en þetta, sem hann teldi, að vekti fyrir flm. með till., og komst að þeirri niðurstöðu, að hann teldi, að tilgangurinn væri að skamma bændur, gera árás á þá og gera þeim bölvun. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hvort það sé meining hans í alvöru, — hvort hann sé þeirrar skoðunar, að þessi þáltill. sé flutt af mér og meðflm. mínum, ekki til þess að bæta úr ástandinu, heldur til þess að skamma bændur, spilla fyrir þeim og reyna að láta þá hafa aðra og verri stöðu í þjóðfélaginu en aðra menn. Það er enginn, sem hefur sömu aðstöðu í þjóðfélaginu og mjólkursamsalan sem stofnun. En ég veit, að bændur eru ekki spurðir um það, hvað hún skuli gera í hverju tilfelli. Mér dettur ekki í hug, að bændur séu um það spurðir, hvort það eigi að selja setuliðinu 4000–5000 lítra af mjólk á dag, þegar skortur er á henni hér í bænum.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um, að það væri að vísu ekki um að ræða, að hagur bænda batnaði við það, þó að brtt. hv. þm. V.-Sk. um að banna sölu á öðrum nauðsynjum til setuliðsins en mjólk, yrði samþ., en það væri sjálfsagt réttlætismál, því að annars væri brotinn réttur á mönnum. Mér er gersamlega óskiljanlegt, þegar jafnmætur maður og hv. þm. V.-Húnv. (SkG) tekur sér slík orð í munn, þegar upplýst er af hæstv. ráðh., að setuliðið óski ekki eftir að kaupa nema afgangsmjólk. Allar hugleiðingar hans um tilhneigingu til misréttis eru því aðeins hans eigin hugarburður. En ég fæ ekki séð, hvað bændur væru betur settir, þó að hætt væri að selja rafmagn til setuliðsins, — og að banna því að nota vatn, það er svo fáfengilegt, — nema það sé af því, að það sé að hans dómi betra að þola augnmissi, ef annar fær sár á sitt auga líka, sem ég tel hæpna röksemdafærslu í þessu tilliti.

Það er vitað, að það vantar neyzlumjólk í bæinn. Það er vitað, að þúsundir lítra af mjólk eru seldir setuliðinu umfram það, sem sjúklingar þar þurfa að fá. Það er vitað samkv. yfirlýsingu hæstv. landbrh., að setuliðið óskar ekki að kaupa nema þá mjólk, sem afgangs er neyzlumjólkurþörf landsmanna —, og það er til með að kaupa mjólk aftur eins og áður, þegar framboðið eykst á henni aftur. — Þetta liggur fyrir í málinu, og á þeim grundvelli vænti ég, að hv. þm. greiði atkv. með þessari þáltill.