26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þessi þáltill. hefur verið flutt af þremur hv. þm., hv. þm. Ísaf., einum hv. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. Mig langar nú til að beina því til hv. þm. Ísaf., að í fyrra áttu íbúar Ísafjarðarkaupstaðar 754 kindur — eða eins og níu meðalbændur — og lögðu inn í verzlanir á Ísafirði 680 gærur og fá borgaðar uppbætur á þær. Þeir lögðu inn á sjöunda hundrað kg. af ull og fengu uppbætur borgaðar á það. Þetta eru kaupstaðarbúar á Ísafirði. Hvers vegna á ekki að láta þá fá uppbætur á afurðir sínar af þessu tagi eins og aðra framleiðendur? — Hér í Reykjavík eru 1585 kindur. Í fyrra lögðu fjáreigendur hjer inn fjórtán hundruð sextíu og nokkrar gærur. Hvers vegna mega þeir ekki fá uppbætur á þessar vörur? Hvers eiga þeir að gjalda? — Á Siglufirði var í fyrra 2081 kind. Þar voru lagðar inn í fyrra um 1900 gærur. Hvers eiga þeir að gjalda þar, ef þeir mega ekki fá uppbætur á þessar vörur? Hví mega þeir ekki vera með? Hvers vegna vilja þessir hv. flm. þáltill. setja kjósendur sína, sem eru sauðfjáreigendur, þannig að þeir séu verr settir að þessu leyti, þannig að þeir fái ekki uppbætur á afurðir sínar? Hvers vegna mega þeir ekki að þessu leyti hafa jafnrétti við bændur, sem framleiða sauðfjárafurðir, sem hv. þm. Siglf. kallar sauðbændur? Kannske það sé af því, að hann vilji koma á þá því nafni með tilliti til þess, að stundum er talað um, að menn séu sauðarlegir, eða kannske hann vilji kalla þá sauðnaut? Ég hef ekki heyrt þetta orð sauðbóndi fyrr. — 18% af öllu sauðfé í landinu í fyrra var í eigu annarra en bænda. Nú ætlast þessir menn, hv. flm. þessarar till., til þess eftir orðalagi till., að það sé bara heimilt að greiða bændum uppbætur á sauðfjárafurðir og aðrar landbúnaðarafurðir. Hinir eiga ekkert að fá. Hvort þeir ætlast til þess, að þær uppbætur, sem eftir innlögðum gærum, ull og kjöti þessara sauðfjáreigenda, sem eru ekki bændur, eiga að greiðast, skiptist á milli bænda, skal ég láta ósagt. Mér er það ekki ljóst. En ég tel alveg tvímælalaust, að þessar uppbætur eigi að fara til þeirra, sem framleiða vörurnar, hvort sem þeir eru bændur eða ekki og hvort sem þeir eiga heima á Ísafirði, Siglufirði eða í Reykjavík, og það sé í raun og veru meining þessara hv. flm., en hér sé bara um svona mikla fljótfærni og flumbruskap að ræða. Meining þeirra hefur verið að seilast til bænda eftir þessum leiðum eins og ýmsum öðrum hér í þinginu. Og þá hafa þeir í bráðlætinu, þessir hv. flm., gleymt því, að aðrir en bændur áttu hér líka hlut að máli, og þess vegna er það sennilega, sem þeim hefur sézt yfir þá. Ég hygg, að þetta sé nú þannig.

Hvað þetta að öðru leyti snertir, þá þarf náttúrlega ekki langt að fara til þess að finna, hvernig það skiptist á býli eða hreppa eða sýslur, sem greitt er í uppbætur. Það eru á hagstofunni framtöl, er sýna, hve margt sauðfé er á hverju býli, og einnig hve margt fé er í eigu annarra en bænda víðs vegar á landinu. Þar er hægt að sjá tölur, sem að nokkru leyti, en ekki að öllu leyti segja til um það, hvernig þetta fé hefur skipzt. En ég held nú, að þó að maður gæti útvegað þessum hv. þm., sem flytja þáltill., tölur, sem tækju til þrettán þúsund og nokkurra manna, en það er tala sauðfjáreigenda í landinu nú, og segði þeim, hvað hver um sig af þessum þrettán þúsund og nokkrum mönnum hefur haft mikið kjöt, gærur og ull, sem þeir hafa selt, og hvað þeir hafa fengið mikið inn fyrir það, þá mundi enginn af þessum flm. þáltill. nenna að lesa það. Það yrði því unnið fyrir gýg, þeir mundu ekki hafa gagn eða skemmtun af því. En ef þeir vildu fara niður á hagstofu og gá að, hverjir þessir þrettán þúsund og nokkrir framleiðendur eru, hvar þeir eiga heima o. s. frv., þá geta þeir gert sér grein fyrir því, hvernig þessar uppbætur skiptast milli þeirra í aðalatriðum, því að það er lagt inn yfir 99% af gærum af öllu sláturfé.

Það er miklu eðlilegra að taka uppbætur á útflutt kjöt þannig, að það komi jafnt yfir alla, heldur en þær komi til reiknings til þeirra einna, sem eiga það kjöt eða lagt hafa inn það kjöt, sem út er flutt, því að það er tilviljun, hvaðan það kjöt er, sem út er flutt. Það er ekki rétt að taka Ísafjörð, sem hefur ekki getað fryst skrokka í heilu lagi, út úr þannig, að ætlast til þess, að framleiðendur, sem þar leggja inn kjöt, komi undir þau ákvæði, sem gilda um útflutt kjöt í þessu tilliti, en ekki sé gerður jöfnuður á milli þeirra og hinna, sem hafa aðstöðu til að frysta kjöt í heilum skrokkum. — Annars er það tilviljun, hvaða staðir á landinu flytja út kjöt.