15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (3759)

175. mál, vöruvöndun á fiski

Gísli Jónsson:

Ég hafði ekki hugsuð, að það lægi það bak við þessa till., sem fram kom í ræðu hv. þm. S.-Þ. Ég hélt hún lyti að vöruvöndun yfirleitt. Það hefur t. d. komið fram sú till. í Fiskifélaginu að láta fara fram fiskimat á nýjum og frystum fiski. Fiskimatsstjóri hefur haft þetta til meðferðar, og mér er kunnugt um, að það er undirbúningur um að koma þessu í framkvæmd.

En nú heyrði ég á ræðu hv. þm. S.-Þ., að þetta á að gilda að kalla eingöngu um fisk, sem fluttur er út ísvarinn, og að bak við till. hans liggi blaðaskrif í erlendum blöðum. Það gaf mér tilefni til að ræða þetta mál.

Mér er persónulega kunnugt um, að þetta blað, sem hann mun eiga við, hefur sett sig út til þess að koma með árásir á íslenzka útgerðarmenn og sjómenn, þegar þess hefur verið kostur, og þetta sérstaka tilefni, sem blaðið fékk, var skemmdur fiskur, sem lá í fimm daga í skipinu, eftir að það kom til Englands, af því að þá var þar svo nefndur „bank holiday“ eða nokkrir frídagar í röð. Það er sama, hvernig búið hefði verið um fiskinn, hann hefði hlotið að skemmast. Það er ekki hægt að álasa skipstjóranum fyrir það. Mér er kunnugt um annan farm, — að vísu hafði það verið svo óheppið að skipa farminum um hér, og síðan fékk skipið ofan á það fimm daga legu úti.

En ég leyfi mér að mótmæla því, að nokkur brögð hafi verið að því, að tekin hafi verið niður skilrúm eða hafður of lítill ís til að spara kostnað. Ég veit, að sú staðhæfing er ekki á rökum reist. Ég veit, að útgerðarmenn hafa almennt gefið strangar skipanir um að ísa eins vel og hægt væri og hirða minna um fiskmagnið. Ég hef sjálfur séð tugi skeyta frá umboðsmönnum ytra til útgerðarmanna hér um, að fiskurinn væri framúrskarandi góð vara nema þar, sem eins var ástatt og ég sagði. Einmitt af þessu vil ég fara fram á, að þetta fari til sjútvn., til þess að hægt verði að rannsaka það og það tengt við það mál, sem þegar er hafið og verður sjálfsagt framkvæmt á næsta þingi, að framkvæma mat á nýjum fiski. Ég vil benda á, að það er ekki mögulegt að fá fyrsta flokks vöru með smáfiski. Þetta er ekki til að flytja út, og er nauðsynlegt, að við hvert farmskip sé fiskimatsmaður til að hafa eftirlit með öllum útsendingum, eins og var með saltfiskinn, og það er þetta, sem verið er að vinna að.