24.11.1943
Efri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að svara hér ummælum hv. 1. þm. Eyf., því að þeim var svarað fyrir fram, og skal ekki fara að rekja þær óréttmætu deilur, sem hann átti upptök að.

Það voru ummæli hv. þm. Str., sem gáfu mér ástæðu til nokkurra aths. Á honum var að heyra, að hjá Alþ. hefðu átt sér stað ósæmileg sinnaskipti, og virtist í orðum hans felast, að hann teldi, að af hálfu þeirra flokka, sem stóðu að veitingu þessa embættis, hefði illa verið fylgt fram þeim loforðum, sem manni þeim, er við embættinu tók, voru veitt. Ég veit ekki, við hvað hv. þm. á með þessu, og ekki kom það heldur fram í ræðu hans, hver afstaða hans er til þessa frv., er hér liggur fyrir. Það kom ekki fram, hvort hann er með frv., eins og það liggur nú óbreytt fyrir. En ef hann er því fylgjandi í þeirri mynd, sem það nú er í, þá virðist mér hann ekki geta borið öðrum á brýn, að þeir hafi skipt um skoðun. Það er því aðeins, að hann verði með brtt. þeirri, er ég hef borið fram við frv., að mér finnst hv. þm. hafi ástæðu til þess að kvarta undan sinnaskiptum hjá öðrum. Auk þess vil ég taka það skýrt fram, þó að ég óski ekki eftir að fara að leiða umræður hér inn á þær brautir að ræða um embættisferil núv. lögreglustjóra, þá markar það afstöðu mína til málsins, að mér finnst ómögulegt að skilja frv. og þær breyt., sem gerðar hafa verið á skilyrðum til lögreglustjóra, á annan veg en þann, að reynslan hafi leitt í ljós, að meiri hluti þm. álitu, að mjög óheppilegt hafi verið að skipa ólöglærðan mann í þetta embætti, og fram hjá þessari staðreynd verður ekki komizt. Það virðist einnig hafa komið áður í ljós við þessar umr., að verði frv. samþ. hér óbreytt, gerir meiri hluti þm. það í fullu trausti þess, að núv. lögreglustjóri verði fluttur milli embætta. Hæstv. dómsmrh. hefur fengið fulla vitneskju um það, að samþ. þm. sé því skilyrði bundið, að núverandi lögreglustjóri verði ekki í embætti venjulegan starfstíma. Mér virðist því um slík óheilindi að ræða, að varhugavert sé að láta frv. ganga fram á þessum grundvelli, og því á d. að ganga til atkvæða um þetta. Og í vitund þess, að það skilyrði verði látið haldast fyrir embættisgengi lögreglustjóra, að hann hafi lögfræðiþekkingu, þá merkir það það, að núv. lögreglustjóri verður að víkja úr stöðu sinni. Meiri hluti allshn. mælti með frv. á þessum grundvelli, og hæstv. dómsmrh. lét þau orð falla, sem við dm. skildum á þann veg, að hið sama vekti fyrir honum einnig. Þess vegna kemst hv. þm. Str. ekki hjá því, ef hann ætlar sér að sjá til þess, að ekki verði skipt um embættismann í þessu starfi, að vera með minni brtt., sem kveður á um, að fella niður skilyrðið um, að lögfræðimenntun sé nauðsynleg í þetta embætti. Mín afstaða er sú, þrátt fyrir það að störf lögreglustjóra eru umdeilanleg, en það eru sjálfsagt störf margra annarra manna, þá finnst mér ekki komin fram næg ástæða á þeim reynslutíma, sem síðan er fenginn, til þess að setja þessi skilyrði, sem óhjákvæmilega hljóta að gera núv. lögreglustjóra ómögulegt að gegna starfi sínu áfram. Sinnaskiptin, sem hv. þm. Str. talar um í sinni óljósu ræðu, hljóta því að byggjast á því, að meiri hluti alþm. þykist geta dæmt það af reynslunni, að þetta skilyrði væri heppilegt og nauðsynlegt, að lögreglustjóri sé lögfræðingur. Ég hef á þessu máli aðra skoðun, og þeir, sem hafa þá skoðun eða svipaða og hv. þm. Str. hafði hér 1939, þeir verða nú að segja til um það með atkvæði sínu, hvort þeir vilja setja þetta skilyrði inn í 1. að nýju eða fallast á mína till. Fram hjá þessu verður ekki komizt.