21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

36. mál, kjötmat o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Brtt. á þskj. 55 frá hv. 2. þm. N.-M. (PZ) er þannig vaxin, að ef hún verður samþ., þá munu flestir neyðast til þess að brjóta l. Og ég held, að það sé ekki vert að samþ. till., sem þannig eru vaxnar, að það er helzt ekki hægt að framkvæma þær. Um það, sem þessi hv. þm. talaði um hér áðan, að nauðsyn væri á því að gera eðlilegan mun á kjöti, þannig að þeir, sem framleiða góða vöru, fái meira en þeir, sem framleiða hana lélegri, er það að segja, að það er verið að stuðla að því með því að flokka kjötið og m. a. með því að koma á gæðamati á öllu kjöti. Og við slíka flokkun kemur það fram, að þeir, sem framleiða góða kjötið, fá hærra verð fyrir það en hinir fá fyrir sitt kjöt, sem hafa það lakara. Hv. þm. N.-M. sagði, að í Englandi væri ströng kjötflokkun. En þeir, sem þar hafa verið, segja, að þegar komið sé í kjötbúðirnar yfirleitt og beðið um 1. flokks kjöt, þá segi kaupmaðurinn, að allt kjötið sé 1. flokks kjöt, hvort sem það nú er 1., 2. eða 3. flokks kjöt. Mundu þá neytendur hér fremur en neytendurnir í Englandi njóta góðs af kjötflokkuninni? Ég efast um það. Ég held, að ef frv., eins og það er, nær fram að ganga, en brtt. hv. 2. þm. N.-M. felld, þá nái l. tilgangi sínum með því, að þeir, sem framleiða góða vöru, fái tiltölulega hærra verð en hinir, sem lakari vöru framleiða, og að neytendur séu tryggðir eins og unnt er með þeirri flokkun, sem á kjötinu er, ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég legg því eindregið til, að brtt. hv. 2. þm. N.-M. (PZ) verði felld. Og ég get viðurkennt það, sem sá hv. þm. sagði hér áðan, að erfitt yrði að framkvæma ákvæði þau, sem í brtt. felast. Þetta er hv. flm. brtt. vel ljóst, því að hann var að tala um það í sinni ræðu, að það mætti kannske víkja frá þessu, og hafa þess vegna ákvæði til vara í sambandi við ákvæði þessarar brtt. á þá leið, að framan við brtt. hans kæmi: „Eftir því, sem við verður komið“ o. s. frv. Þarna yrði, ef þessu væri bætt við, opnaðar dyr, sem yrðu til þess að brtt. yrði gagnslaus. Legg ég því sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, en brtt. felld.