05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

27. mál, fjárlög 1944

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. telur, að mikil bjartsýni komi fram hjá fjvn. í tekjuáætlun þeirri, er hún hefur lagt fram. Ég held þó, að tæplega verði hægt að telja áætlun nefndarinnar óvarlega. Má í því sambandi minna á, að fjvn. hefur áætlað stríðsgróðaskattinn 2 millj. kr. lægri en ríkisstjórnin. Stjórnin er þar bjartsýnni en n. Hæstv. fjmrh. fann að því, að risnufé biskups hefði verið fellt niður í till. n. Sama kom fram hjá hv. 10. landsk., hæstv. forseta. Sé það rétt, að laun biskups séu óeðlilega lág í samanburði við laun annarra embættismanna, þá gæti komið til mála að bæta honum það upp til bráðabirgða, unz ný launalög verða samin. En nefndin telur hæpið að fara inn á þá braut að bæta upp laun embættismanna á þann hátt að veita þeim risnufé.

Hv. frsm. minni hl. (ÞG) og aðrir þm. Sósfl., sem talað hafa við þessar urm., reyna af fremsta megni að telja mönnum trú um það, að um mikinn ágreining hafi verið að ræða í fjvn. og að allt önnur stefna komi fram í till. þeirra en í þeim till., sem n. í heild flytur á þskj. 296. Í nál. minni hl. kemur þessi tilhneiging þeirra einnig glöggt fram, þar sem skrifað stendur, að með till. sínum sé minni hl. að marka nýja stefnu í fjármálunum.

Ég get þó búizt við, að fleiri mönnum en mér, sem athuga þetta mál, veitist erfitt að koma auga á nýju stefnuna í till. minni hl. Hv. minni hl. flytur engar till. um nýja tekjuöflun fyrir ríkissjóð, heldur hið gagnstæða. Hann gerir aðeins till. um að áætla nokkru hærri tekjur á næsta ári af þeim tekjustofnum, sem ríkið nú hefur, heldur en meiri hl. Ég tel of óvarlega farið í þeim till. minni hl. T. d. má benda á það, að tekjur af verðtolli reyndust allmiklu lægri í sept.-mán. á þessu ári en í sama mánuði í fyrra, og hætt er við, að þannig verði einnig á næstu mánuðum, vegna minnkandi innflutnings á sumum hátt tolluðum vörum.

Með þessu er ekki sagt, að tekjurnar geti ekki orðið eitthvað hærri á næsta ári en meiri hl. leggur til að áætla þær. Ég vona, að svo fari. En í því sambandi má benda á það, að margar tölur á gjaldahlið frv. eru áætlunarupphæðir, og reynslan hefur sýnt, að aldrei hefur tekizt að áætla þær nákvæmlega. Gjöldin hafa ætíð farið fram úr áætlun, að vísu misjafnlega mikið, og má búast við, að svo fari enn á næsta ári, jafnvel þótt hæstv. stj. reyni að takmarka umframgreiðslur svo sem unnt er. En þar sem greiðslujöfnuður er tiltölulega fremur lítill á frv., er skammt yfir í greiðsluhalla, ef tekjurnar fara ekkert fram úr áætlun.

Ég tel mikla hættu á því, ef farið verður eftir till. minni hl., að ríkissjóð skorti fé á næsta ári til að inna af höndum greiðslur samkv. fjárlögum.

Fari hins vegar svo, að tekjurnar á næsta ári fari meira fram úr áætlun erf gjöldin, þannig að tekjuafgangur verði, þá er engin sérstök hætta fólgin í því. Það mætti t. d. láta þetta fé í framkvæmdasjóð ríkisins, en hlutverk hans er að styðja framkvæmdir í atvinnumálum eftir styrjöldina. Sjálfsagt verða einhver ráð með að ráðstafa tekjuafgangi, ef einhver verður. Ég get jafnvel búizt við, að hv. minni hl. fjvn. muni fáanlegur til að gera einhverjar till. um ráðstöfun fjárins, ef einhverju verður að ráðstafa, þegar þar að kemur.

Ef hv. minni hl. hefði borið fram till. um nýja tekjustofna til að bera uppi aukin útgjöld, en meiri hl. hefði ekki viljað á þær fallast, þá hefði verið hægt að tala um stefnumun. En þessu er alls ekki til að dreifa.

Tekjur ríkissjóðs og útgjaldamöguleikar vaxa ekki um einn einasta eyri, þótt tillögur minni hl. verði samþykktar.

Þetta er aðalatriði málsins.

Hv. minni hl. telur sig hafa áhuga fyrir því, að fé verði veitt úr ríkissjóði til smíða á fiskiskipum og framfara í landbúnaðinum. En ég vil benda á það, að möguleikar ríkissjóðs til að leggja fram fé til þeirra nauðsynlegu framkvæmda verða minni, ef till. minni hl. verða samþ., heldur en ef fylgt verður till. meiri hl. Þetta stafar af því, að hv. minni hl. gerir einnig tillögur um auknar fjárgreiðslur til annarra hluta, sem nema samtals milljónum króna, en engar tillögur um nýja tekjustofna.

Það eru því fullkomnar blekkingar, þegar hv. minni hl. heldur því fram, að með því að samþ. till. hans sé greitt fyrir því, að ríkið leggi fram fé til skipasmíða og landbúnaðarframkvæmda.

Þetta er alveg þveröfugt.

Ef þingið samþ. till. meiri hl. fjvn., eru einmitt miklu meiri líkur fyrir því, að ríkið geti lagt fram fé á næsta ári til nýrra framkvæmda í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar heldur en ef tillögum minni hl. verður fylgt. Það er vegna þess, að meiri hl. stillir meira í hóf ýmsum öðrum útgjöldum. Allir þeir, sem hafa áhuga fyrir því, að ríkissjóður geti lagt fram fé til þessara nauðsynlegu framkvæmda í atvinnumálunum, hljóta því að fylgja till. meiri hl. Ef þm. Sósfl. væri nokkur minnsta alvara með það, sem þeir tala um, að ríkið eigi að leggja fram fé til skipasmíða og framfara í landbúnaði, ættu þeir að taka allar sínar tillögur aftur nú þegar og fylgja tillögum meiri hl.

En hver er alvaran á bak við þessar till. hv. minni hl. um framlög til sjávarútvegs og landbúnaðar? Þeir, sem lítið þekkja hv. 2. landsk. (ÞG) og flokk hans, gera e. t. v. ráð fyrir, að hv. minni hl. sé þetta mikið alvörumál, t. d. með framlög til eflingar landbúnaði. En við, sem höfum setið á þingi í nokkra mánuði með hv. 2. landsk., framsögumanni minni hl., höfum haft tækifæri til að kynnast hug hans í garð landbúnaðarins og getum ekki tekið spjall hans um þetta nú mjög hátíðlega. Ég efast um, að það hafa nokkru sinni komið fyrir, eða a. m. k. man ég ekki eftir því, að þessi hv. þm. hafi risið úr sæti hér á Alþingi til ræðuflutnings án þess að víðhafa ósæmileg orð um bændur landsins, félög þeirra og landbúnaðinn yfirleitt. Framsöguræða hans nú var að þessu leyti engin undantekning. Hann nefndi þennan atvinnuveg „sníkjudýr“, þótt hann væri í öðru orðinu að tala um áhuga sinn fyrir eflingu landbúnaðarins. Þannig kom innri maðurinn fram, eins og venjulega í ræðum hans.

Hv. þm. Barð. gerði að umræðuefni nokkrar brtt., sem hann flytur. Ein af till. hans er um fjárveitingu til nýrrar símalínu. Hv. þm. segir, að sú símalína hafi verið sett í símalög 1935. Mér er kunnugt um það, að sömu sögu er að segja úr fleiri kjördæmum. Víðar en í Barðastrandarsýslu vantar símalínur, sem ákveðnar voru með lögunum 1935. Fjvn. leggur til, að verulegur hluti af fjárveitingu til nýrra landsímalína á næsta ári fari til símalagningar í kjördæmi þessa hv. þm., og ætti hann því að vera sæmilega ánægður, þótt allar hans óskir séu ekki uppfylltar í einu.

Hv. þm. Barð. gerði einnig að umræðuefni framlag til vegagerða og brtt., sem hann flytur þar um. Það er ekki vandalaust að skipta vegafénu milli hinna ýmsu byggðarlaga, en mér finnst þm. Barð. mega vera ánægður, þar sem Barðastrandarsýsla fær eftir till. fjvn. t. d. meira en helmingi hærri framlög til vegagerða en næsta sýsla, V.-Ísafjarðarsýsla, sem hv. þm. tók til samanburðar. Enn fremur má á það benda, að eftir till. n. er hækkun á fjárveitingu til vega í Barðastrandarsýslu frá því, sem er í núgildandi fjárl., hlutfallslega meiri en víðast annars staðar.

Um till. hv. þm. um fjárveitingu til húsabóta á Brjánslæk vil ég taka fram, að ég tel mjög hæpið fyrir þingið að taka að sér að ákveða skiptingu þess fjár, sem ætlað er í frv. til endurbóta á íbúðarhúsum á prestssetrum. Ráðuneytið, með aðstoð biskups, hefur betri aðstöðu en þingið til að úrskurða, hvar umbótaþörfin er mest.

Sumir hv. þm., sem flytja brtt. við 13. gr. frv., hafa látið svo um mælt, að þeir tækju till. til baka til 3. umr., ef n. vildi athuga þær. Nefndin getur vitanlega tekið till. til athugunar, en ég geri ekki ráð fyrir, að miklu verði hægt að bæta við fjárveitingar til þessara framkvæmda.

Hv. 1. þm. Eyf. flytur brtt. um 20 þús. króna framlag til áveitufélags Svarfdælinga. Í því sambandi vil ég benda á, að samkv. breytingu á jarðræktarlögunum frá síðasta þingi er ákveðið, að landþurrkunar- og áveitufélög, sem stofnuð eru samkv. fyrirmælum vatnalaganna, eigi rétt á að fá leigðar skurðgröfur og jarðræktarvélar vélasjóðs og auk þess ákveðinn styrk til framkvæmdanna. Er sá styrkur talinn með öðrum jarðræktarstyrk. Vænti ég, að hv. þm. taki till. til baka að þessum upplýsingum fengnum.

Hv. 6. landsk. gerði að umtalsefni till. minni hl. fjvn. M. a. gat hann þess, að áætlun minni hl. um Stríðsgróðaskatt væri nákvæml. eins og áætlun hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef áður gert grein fyrir því, að meiri hl. n. telur áætlun ríkisstj. fullháa. En út af ummælum hv. 6. landsk. um þennan tekjulið vil ég minna hv. þm. á það, að hann hefur nýlega flutt frv. í Nd. um breyt. á l. um stríðsgróðaskatt. Frv. hans er ekki um hækkun á skattinum, heldur um það, að hlutfallslega minna en áður af þessum skatti skuli ganga í ríkissjóðinn. Hann segir í grg., að tekjumissir ríkissjóðs, ef frv. verður samþ., muni nema um 1½ millj. kr. á ári. Ekki tekur minni hl. hið minnsta tillit til þessa í fjárlagatillögum sínum. Er því sýnilegt, að hv. 6. landsk. vonast eftir því, að frv. hans um breytingar á stríðsgróðaskattslögunum verði fellt. E. t. v. verður líka sú raunin á, en engan veginn er það þó fullvíst.

Hv. 3. þm. Reykv. flytur tillögu um aukið framlag til iðnskóla. Þessu er því til að svara, að nefnd sú, er um þetta mál fjallar, leggur til, að framlagið verði 150 þús. kr. Í bréfi frá henni segir svo, þ. e. ályktun frá þingi iðnaðarmanna: „Þingið felur stjórn sambandsins að vinna að því, að á fjárlög verði tekin allt að 400000 kr. fjárveiting til byggingar iðnskólahúss í Reykjavík.“ Enn fremur segir svo: „Á hinn bóginn er það að sjálfsögðu ekki aðalatriði, að allt féð verði lagt fram nú, og kæmi að sama gagni, að á næstu fjárlög yrði tekin fjárveiting, t: d. 150000 til 200000 kr., sem fyrsta greiðsla af fleirum.“

Í þessu sambandi skal tekið fram, að með 100 þús. króna fjárveitingu er gengið út frá, að framlaginu verði skipt niður á fleiri ár.

Þá eru brtt. við 18. gr. frv. Mun ég ekki ræða þær sérstaklega, en ég tel varhugavert, ef þingið samþykkir hækkun einstakra liða án athugunar. Fjvn. hefur lagt mikla vinnu í að athuga óskir, sem borizt hafa um nýjar fjárveitingar í 18. gr. Vil ég mælast til, að þeir, sem flutt hafa brtt. við frvgr., taki þær aftur til 3. umr., og geri ég ráð fyrir, að nefndin taki þær til athugunar milli umr.

Hv. þm. Ak. flytur brtt. um hækkun á framlagi til bygginga á Akureyri. Vil ég benda á, að í frv. er lagt til, að veittar verði 200000 kr. til byggingar póst- og símahúss á Akureyri. Fjvn. flytur till. um 200 þús. kr. fjárveitingu til sjúkrahúsbyggingar á Akureyri, og einnig ætlast n. til, að verulegur hluti af því fé, sem varið verður til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum, fari til skólabyggingar á þessum stað. Verður að telja, að svo ríflegar fjárhæðir séu áætlaðar til bygginga á Akureyri, að tæplega sé sanngjarnt að bæta þar miklu við, saman borið við framlög til annarra héraða landsins. Vænti ég þess, að hv. þm. Ak. geti á þetta fallizt.

Hv. 10. landsk. taldi, að óhæfilega lág upphæð væri ætluð til sandgræðslu. Það er rétt, að þörf er á miklum fjárframlögum í þessu skyni, enda hefur nefndin gert till. um hækkun á framlaginu. Hv. 10. landsk. lýsti yfir því, að hann mundi taka till. sína aftur til 3. umr., og gefst þá væntanlega tækifæri til að athuga hana nánar. En út af þessari brtt. vildi ég taka það fram, að ég teldi það óheppilegt, ef Alþingi færi að ráðstafa þannig því fé, sem ætlað er til sandgræðslu. Meðan það ekki óskar að taka úthlutunina alveg í sínar hendur, tel ég, að eðlilegt sé, að það mál sé í höndum Búnaðarfélagsins og sandgræðslustjóra, eins og verið hefur.

Hv. þm. Mýr. flytur brtt. um, að framlag til loðdýralánadeildar falli niður. En frv. gerir ráð fyrir 10 þús. kr. í þessu skyni. Eftir upplýsingum, sem fjvn. fékk frá Búnaðarbankanum, er þörf á þessari fjárhæð á næsta ári, og óskaði bankinn, að upphæðin fengi að standa í þetta sinn. Þarf svo sennilega ekki á frekari fjárframlögum að halda fyrst um sinn til deildarinnar.

Ég vil að lokum óska, að þeir, sem flutt hafa brtt., taki þær aftur a. m. k. til 3. umr.

Það kann að vera, að fleira hefði þurft að athuga af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. þm., en ég mun láta staðar numið að sinni.