19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég ætla mér ekki á nokkurn hátt að blanda mér inn í þær deilur, sem komnar eru upp milli hæstv. atvmrh. og hv. þm. G.K. En í tilefni af því, að hv. þm. hefur oft nefnt mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ég á sæti í, og þær athuganir, sem n. er að gera á þessu máli, þá get ég upplýst, að ég tel þetta frv. mjög í því formi, sem til mála hafði komið að reyna að koma olíuverzluninni í við umr. í mþn. (ÓTh: Má ég spyrja, hvort þar hafi komið til greina deiluatriðið, sem sé efni 6. gr. frv.?) Út af því, sem hv. þm. minntist á um 6. gr., þá hefur það komið fram við umr. áður í dag og enda í nál., að einn af 3 þm. í mþn., hv. 7. þm. Reykv. (SK), hefur sérstöðu gagnvart 6. gr., og taldi ég ekki, bæði þar sem hann hefur gert grein fyrir því fyrr og ég nefnt sérstöðu hans og hún komið fram í nál., að sérstök ástæða væri til að leiða athygli að því.

Nú er verið að semja í mþn. þáltill. um áskorun til ríkisstj. um að undirbúa einmitt slíka löggjöf og leggja fyrir það þing, sem nú situr. Ég vil frekar þakka en álasa ríkisstj. fyrir, að hún hefur orðið á undan með að afla þeirra upplýsinga, sem þáltill. gerði ráð fyrir, að Alþ. óskaði eftir. Og þær upplýsingar, sem hún hefur lagt fram, eru það ýtarlegar, að ég álít þær algerlega fullnægjandi sem grundvöll undir þessu máli.