08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

230. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

— Herra forseti. –Þessi aths. hv. 2. þm. S.-M. gefur mér ekki ástæðu til mikilla umr.

Hv. þm. segist hafa undrazt, þegar hann sá svipinn á þessu frv., og kvaðst hafa búizt við, að miklu fastara væri tekið á stríðsgróðanum en gert er í þessu frv. Benti hann á, að tveir stuðningsflokkar stj. hefðu látið í ljós þá skoðun, að meira þyrfti að taka af stríðsgróðanum en hefði verið gert. Ég vil benda honum á, að þessi skattur kemur ekki þyngst niður á þeim mönnum, sem venjulega eru kallaðir stríðsgróðamenn, hann kemur þyngst niður á mönnum, sem hafa kringum 100 þús. kr. tekjur, sem má nú kalla hærri meðaltekjur. Ef maður ætlaði að íþyngja stríðsgróðamönnunum meira en gert hefur verið, þá yrði að fara aðra leið en gert er í þessu frv. Eins og hv. þm. hefur sjálfur veitt athygli, þá fellur skatturinn niður, þegar tekjurnar eru orðnar 200 þús. kr., og ég býst við, að það, sem venjulega er kallað stríðsgróði, séu tekjur, sem eru þar fyrir ofan.

Þetta frv. er miklu lægra en sams konar frv.; sem borið var fram 1943 og samþ., það er kringum 30% lægra. Það er skoðun mín, að skattar hafi verið of háir á undanförnum árum og ástæðan til þeirra erfiðleika, sem hv. þm. benti á, að hefðu verið á að fá rétt framtöl, stafi vafalaust að miklu leyti af því, að það hafi staðið í vitund almennings, að skattarnir hafi verið langtum of háir. Reynslan hefur sýnt, að það er erfitt að framfylgja l., sem á einhvern hátt brjóta í bág við meðvitund fólksins. Ástæðan til þess, að ég samt sem áður neyðist til að bera fram þetta frv., er ekki önnur en sú óhjákvæmilega nauðsyn fyrir ríkissjóð að fá fé til að standa undir fyrirsjáanlegum útgjöldum þessa árs. Og þó að skattstiginn sé lægri nú en í verðlækkunarskattsl. 1943, þá má gera sér von um, hvort sem hún stenzt dóm reynslunnar, að heildarupphæðin verði kannske eins há, vegna þess að tekjur manna hafa verið mun hærri á árinu 1944 en 1942.

Hitt atriðið, sem hv. þm. talaði um, var viðvíkjandi framtölum og hvað þyrfti að gera til þess að fá betri framtöl en verið hefur undanfarin ár.

Ég skal geta þess, að það fyrsta, sem ég leyfði mér að gera eftir að ég kom í fjmrn., var að óska eftir till. frá skattanefnd og skattstjóra um betri leið til að framkvæma skattal. en verið hafði. Mér er kunnugt um, að skattstjóri hefur verið að athuga þessi mál. Hann taldi mikil tormerki á því að hafa mætti öllu frekara eftirlit með skattaframtölum. Hv. þm. benti á, í sambandi við skattadómarafrv., sem samþ. var fyrir nokkrum árum, að það hefði komið að litlum notum, og það er rétt. Það hefur ekki verið til þess ætlazt, að skattadómari hefði framkvæmdaráð í þessu efni. Ég ætla að láta í ljós, áður en lengra er gengið á þeirri braut, með skipun skattadómara, að það er erfitt að koma því þannig fyrir, að þeir hafi framkvæmdaráð í skattamálum. Skattanefnd hefur að því ég bezt veit snúið sér til skattadómara um, að hann taki málið til meðferðar, og ætla ég, að hann hafi gert það. Hins vegar verð ég að játa það, að mér finnst það einkennilegt, að skattanefnd skuli ekki hafa notað sér starfskrafta þessa manns meira en raun er a. Það er svo, að eftir allt virðist ástæða til að nota betur þá aðstöðu, sem stj. hefur, til að ná þeim tekjum, sem hér um ræðir. Ég held, að það sé hæpið, þegar sannanir eru fyrir því, að sú tilraun, sem hefur verið gerð í þessa átt, hefur ekki borið árangur, að færa út kvíarnar með því að skipa marga skattadómara. Það væri rétt að nota fyrst starfskrafta þess manns, sem nú situr í embættinu, og sjá, hvaða árangur það getur borið, áður en farið er lengra. Hv. þm. minntist á það, að bankarnir hefðu sérstaklega staðið í vegi fyrir því, að rétt framtöl fengjust. Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá hv. þm. Ég veit ekki betur en bankarnir hafi, ef spurt var um innstæður ákveðins manns, svarað því. Hins vegar ef spurt er um innstæður manna í heilum hrepp eða heilli stétt og gefa á upplýsingar um þær, verður það að liggja komplett fyrir til þess að það sé hægt. Hv. þm. hefur lýst því yfir, að á þessu stigi málsins muni ekki verða bornar fram brtt. af hans flokki við þetta frv., og ég vænti þess, að frv. fái greiðan gang í gegnum þingið.