21.02.1945
Efri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég tel sjálfsagt, að svo fljótt sem kostur er á verði jafnað þar yfir, sem skálar hafa staðið. Þetta er þó ekki hægt, fyrr en til þess hafa fengizt verkfæri, en líkur eru til, að þau fáist í vor, og verður þetta þá strax gert. Ég get ekki lofað því, að þeir skálar, sem seldir hafa verið og byggðir upp aftur t.d. á Bændabýlum, verði rifnir niður, enda virðist mér það ástæðulaust. Þetta er ekki verra en önnur geymsluhús, en fyrir þau er viða mikil þörf. Að því er snertir stærri hús eins og íþróttahús og fleira hér í Reykjavík, verða þau látin standa, svo lengi sem bæjarstjórn Reykjavíkur gefur leyfi til, enda mun hv. þm. Barð. til þess ætlast. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur þetta nægilegt, en ég get ekki lofað meiru. Ríkisstj. skal hlutast til um, að svæðin, þar sem skálarnir hafa staðið, verði sléttuð eins fljótt og kostur er á.

Ég get fallizt á, að eðlilegt væri, að skaðabótamál þessu viðvíkjandi gengju eðlilegan gang. Það er réttur borgaranna að skjóta málum sínum til dómstólanna.