21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér fáein orð út af ummælum hæstv. samgmrh. og hv. 7. þm. Reykv.

Hæstv. samgmrh. minntist á það í sinni síðustu ræðu eða viðurkenndi, að ég mundi sennilega hafa nokkuð rétt fyrir mér í því, þegar ég lýsti því yfir. varðandi hluthafa í Eimskipafélagi Íslands; að það væri ekki þeirra ætlun að nota félagið sem féþúfu fyrir sig, og þar með viðurkenndi hæstv. samgmrh., að þeir myndu líta allt öðrum augum á þessa afstöðu til hlutabréfanna en hann hefur lagt svo mikla áherzlu á í þessum umr. En nú vil ég beina því til hæstv. samgmrh., ef hann er þessarar skoðunar eins og þeir, hvort það sé þá ekki rétt fyrir hann að vera með okkar leið, því að þá fá hluthafarnir í Eimskipafélaginu að segja til um það, hvort þeir vilji, að ríkið verði áfram eignaraðili eða ekki.

Að öðru leyti skal ég ekki þreyta þolinmæði hæstv. forseta út af því, sem við samgmrh. höfum talað um.

Hv. 7. þm. Reykv. sletti hér í ýmsar áttir, áður en hann fór í mat, kannske er hann nú eitthvað geðbetri, — um það á reynslan eftir að skera úr, — en það lá við, að hann fengi kast. Hann sagði, að Framsfl. hefði flutt till. á þingi hvað eftir annað um, að Eimskipafélagið yrði háð ríkinu. Í þessu er engin hæfa, því að það hafa aldrei komið till. frá Framsfl. í þessa átt. Hins vegar hefur Alþfl. flutt till. áður um þessa stefnu, og í Alþýðublaðinu í gær er játað, að það hafi verið stefna þeirra að koma Eimskipafélaginu undir yfirráð ríkisins. Hv. 7. þm. Reykv. ætti því að beina þessum ummælum sínum að einhverjum öðrum 'en okkur framsóknarmönnum, að því er liðna tímann snertir. Maður þekkir orðið þennan söng um óvildina í garð Eimskipafélagsins, þessar upphrópanir, sem af og til kveða við úr herbúðum Sjálfstfl., og ef einhver vill benda á, að eitthvað ætti að vera öðruvísi, þá er þetta óp rekið upp og menn bornir ásökunum. Afstaða Framsfl. hefur frá öndverðu verið þannig, að hann hefur viljað beita sér fyrir því, að Eimskipafélagið fengi skattfrelsi og hefði það meðan það þyrfti á því að halda. En þá var það, sem sumir sjálfstæðismenn, t.d. Magnús Jónsson, voru á móti þessu, og form. Alþfl. beitti sér einnig gegn þessu, en Framsfl. og nokkrir þm. úr Sjálfstfl. fluttu málið og komu því í gegn. Hv. þm. sagði, að Framsfl. væri ráðamikill innan samvinnufélaga, en samvinnufélögin hafa samt ávallt verið með beztu stuðningsaðilum Eimskipafélagsins. Hitt er svo allt annað mál og í fullu samræmi við það, sem áður hefur verið sagt og komið hefur fram, að nú er hag Eimskipafélagsins allt öðruvísi hattað en. nokkru sinni fyrr og að ýmsu leyti þannig, að ógerlegt er að halda áfram eins og verið hefur, hvað snertir fyrirkomulag félagsins.

Hv. 7. þm. Reykv. er ekki of gott að viðhafa sín köpuryrði; það tekur sér enginn þau nærri, hvort sem er. (SR: Annað heyrist mér nú.) Þessi hv. þm. gerði nokkrar athugasemdir um Framsfl. almennt, sem hv. þm. V.-Húnv. hefur nú svarað, en ég get samt ekki stillt mig um að minnast örlítið á skattamálin, úr því að hv. 7. þm. Reykv. gerði það. Hann sagði, að það væri ákaflega undarlegt, að Framsfl. skuli ekki gleypa við samþ. allra þessara skattatill., sem hér liggja fyrir, og að þeir skuli hafa áhyggjur út af því, að landsmenn verði þannig þjakaðir af sköttum, sem þeir, sem við þessum málum hafa tekið, hafa gengið jafnlangt með sem raun ber vitni um. Ég segi aðeins það, ef við í Framsfl. erum frægir fyrir skattaálögur, þá mun sá orðstír og sú frægð senn fölna, því að nú eru komnir aðrir miklu fremri, sem hafa tekið við þessum málefnum og halda þannig á þeim, að þeirra, sem þar áður komu nærri, verður ekki mikið getið í sögunni, samanborið við þá, sem nú eiga hér hlut að máli undir forustu Sjálfstfl. Þeir hafa nú ekki aðeins valið að búa við þá skatta, sem áður hafa verið settir og sumir þeirra hafa eytt hálfri ævi sinni í að skammast hér út af, heldur koma þeir nú með nýjar skattaálögur, sem eru svo óréttlátar, að menn standa sannast að segja á öndinni yfir því, að nokkrum heilvita manni skuli geta dottið önnur eins firra í hug og þessar skattaálögur eru. Þeir hafa nú orðið að grípa til slíkra óyndisúrræða í skattamálunum og það jafnvel á hinum mestu gjaldeyristímum; sem yfir landið hafa komið.

Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn nokkuð óþolinmóður, en vil aðeins segja við hv. 7. þm. Reykv. að lokum, að hann ætti framvegis að vera þess minnugur, að það á aldrei að nefna snöru í hengds manns húsi.