21.02.1944
Efri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

42. mál, lendingarbætur í Höfnum

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Frv. þetta til lendingarbóta í Höfnum í Gullbringusýslu hef ég borið fram samkv. ósk hreppsnefndar Hafnahrepps.

Fyrir 11 árum var veitt nokkur fjárhæð úr ríkissjóði til lendingarbóta í Hafnahreppi, og var þeirri fjárhæð varið til bryggjusmíði. Á fjárl. yfirstandandi árs (1944) var veittur 25 þús. kr. styrkur til lendingarbóta í Höfnum gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Þrátt fyrir þessar fjárveitingar eru ekki enn til l. um lendingarbætur fyrir þetta byggðarlag, og hefur hreppsnefndin óskað eftir því, að l. um lendingarbætur yrðu sett fyrir Hafnirnar eins og annars staðar, þar sem veitt hefur verið fé úr ríkissjóði til lendingarbóta.

Frv. er orði til orðs samhljóða l. um lendingarbætur, sem afgreidd voru á síðasta Alþ., að öðru en því, að upphæðin, 250 þús. kr., er veitt sérstaklega fyrir þennan stað. — Í grg. frv. er gerð grein fyrir nauðsyn þessa máls, og sé ég því ekki ástæðu til að eyða tíma í að ræða það frekar.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn., þar sem ég veit, að það fær þá athugun, sem nauðsynleg er.