17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Ég hefði nú viljað, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, stuðla að því, að þetta mál fengi á þessu stigi greiðan framgang, til þess að það fengi sína athugun í nefndum. Mun ég því ekki ófyrirsynju lengja umr. um mál þetta nú, enda er tiltölulega lítið tilefni til áframhaldandi umr. nú sérstaklega út af orðum hv. 4. þm. Reykv., eins og hann hefur nú flutt þau í þessari síðari ræðu sinni, því að, eins og ég reyndar átti von á, þá hefur hann nú lent í svo miklum vafningum og vandræðum, sem er ekki alveg vanalegt um þennan hv. þm., að lítt verður aðgreint, hvort hann vill vera með málinu undir nokkrum kringumstæðum eða slá því með öllu á frest. Og þá fór hv. þm. einkum hringinn í kringum það, sem spurt var um, hvernig á þessu fráhvarfi stæði, sem þessi hv. þm. og flokkur hans hefur sýnt innan þings og utan, frá því, — sem hann og flokkur hans var búinn að binda sig við og hafði talið þjóðhollt og rétt. Hv. þm. hefur ekki svarað neinu af því. Það verður ekki úr því greitt eftir orðum þessa hv. þm. í ræðu hans hér áðan, hvernig á því stendur, að hann og þeir, sem honum eru sammála um þetta, hafa farið að því að víkja frá sínum fyrri málstað í þessu, sem nú margir aðrir af þeim en hann halda nokkuð hvatskeytlega uppi umr. um drengskap og ódrengskap í þessu efni. En það hygg ég hollast honum og flokksmönnum hans að fara ekki með firrur slíkar sem þær, er þeir eru að tala um ódrengskap þeirra manna í þessu sambandi, sem eru á annarri skoðun en þeir sjálfir. Þeir skulu þá gæta sín, ef þeir vilja ekki sjálfir fá framan í sig slettur í þessu máli.

Það er ekki auðið að sjá, hvernig hv. 4. þm. Reykv. ætlast til þess, að menn taki það trúanlegt, að hann sé meðhaldsmaður skilnaðarmálsins, þegar hann vill stefna öllu í óvissu. Og nú síðast spyr hann hæstv. ríkisstj., — og fyrirspurnin kemur öllum við, sem með þetta mál hafa að gera, — hvort verið sé út í bláinn að fylgja þessu máli fram eða hvort við höfum þjóðleg, lagaleg og drengskaparleg rök fyrir því að gera það, og í öðru lagi, hvort við höfum umsögn annarra þjóða fyrir því, að við megum hugsa til þess að verða sjálfstæð lýðræðisþjóð. Hv. 4. þm. Reykv. hefur sjálfur á þeirri tíð, er hann var ráðh., fengið fullnægjandi skýringar á því, sem sé með skuldbindingum og samningum, sem gerðir voru með yfirlýsingum af hálfu Bretastjórnar og stjórnar Bandaríkjanna, um það, að við ættum að halda okkar fulla sjálfstæði og fá það óskorað í hendur. Hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki leyfi til að efa þetta. En samt sem áður telur hann, að engin trygging um þetta sé fyrir hendi. Nú er honum þó vitanlegt, að í síðara þætti málsins, 1942, þá kom bein yfirlýsing frá stjórn Bandaríkjanna, sem var staðfest við ríkisstj. Íslands, er um málið átti að fjalla, að Bandaríkjastjórn telur samkvæmt því, sem hún álitur. rétt, að Íslendingar ljúki skilnaði og lýðveldisstofnun og þó að það væri á tíma, sem nú er liðinn, aðeins ef slíkt kæmi ekki í gildi fyrr en 1944. Bandaríkjastjórn hefur sem sagt lýst yfir því, að hún sjái ekkert framgangi þessa máls til fyrirstöðu, aðeins ef gildistakan sé eftir þau áramót, sem nú eru nýliðin. Bandaríkin krefjast þess ekki, að því sé slegið á dreif að láta lýðveldisstjskr. ganga í gildi á þessu ári, heldur er það hv. 4. þm. Reykv. og nokkrir menn með honum, sem virðast vilja fresta þessu til ófriðarloka eða hver veit hvað, — án þess að þessi hv. þm. geti þó gefið neina tryggingu fyrir því, hvernig þá verði „umhorfs“, eins og hann talar um.

Hv. 4. þm. Reykv. virðist vera með hótanir um það, að hér verði ekki haldin hátíð 17. júní í vor. Hvað hefur hann fyrir sér í því í alvöru, að ekki megi samþ. lýðveldisstjskr., sem gildi frá 17. júní 1944, sakir ógna, sem hann virðist þykjast hafa í bakhöndinni? Heldur hann, að stórveldin komi og meini okkur þetta? Eða heldur hann, að Danir og konungurinn séu þess megnugir að meina okkur þetta eða hafi hug á því?

Það, sem einkennilegt er í málfærslu þessara manna, er, að þeir vita ekkert, hvað Danir vilja í þessu efni. Þeir taka upp málsvar stjórnarfarslegra hagsmuna danskra með tilliti til sambandslaganna án þess að hafa nokkurt umboð, svo að vitað sé um. Hvaðan hafa þessir undanhaldsforsvarsmenn umboð sitt? Þeir hafa ekkert slíkt umboð. Og það fer sæmst á því, að ekki sé verið með neinar hótanir í garð þjóðar og þings um þá ákvörðun, sem nú verður tekin með fullu samþykki þess stórveldís, sem nú hefur mest við okkur saman að sælda.

Það hefur verið sýnt fram á það af hv. 2. þm. S.-M., að hér er óskiljanlegt mál flutt af hálfu hv. 4. þm. Reykv. með tilliti til þess, sem fram kom 1941, og þá var hv. 4. þm. Reykv. mikils ráðandi um þær framkvæmdir og ályktanir, sem gerðar voru í þessu máli, — því að þá var sagt síðasta orðið. Hitt var á valdi Íslendinga, hvenær þeir framkvæmdu þetta. Og þess vegna var þessi hv. þm. að fullu vitandi þess, hvað gera skyldi. Í því, sem þá var gert, fólst þjóðholl tilkynning, en engin aðvörun var gefin af honum í því sambandi. Og það er rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að þá fyrst komast Íslendingar í bobba, ef þeir fara hér eftir að spyrja konunginn að því, hvort hann vilji leggja niður völd. Þá yrðu þeir menn, sem það gerðu, annaðhvort að halda sambandinu við konunginn eða stórkostlega móðga konunginn, ef hann segði nei. En þeir hvorki vilja né hafa ástæðu til að móðga hann. Konungurinn er hetja, sem nýtur aðdáunar okkar og annarra. En þar fyrir þarf ekki land, sem er ekki bundið honum, að hlíta yfirráðum hans. Það væri engu nær fyrir okkur að gera það heldur en spyrja forseta Bandaríkjanna, hvort hann vildi ráða yfir okkur, — sem ég veit ekki til, að neinum hafi komið til hugar. Og svona mætti lengi telja. Því að eftir ákvörðun þings og þjóðar á þessu ári, 1941, þar um, er slitið öllu sambandi okkar við Danmörk og konunginn. Og þess vegna væri það að spyrja konunginn, hvort hann vildi vera við völd, sama sem fullvalda ríki færi að spyrja annað ríki, hvort það vildi ráða yfir sér.

Nú skal ég geta þess viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. ber fram, þrátt fyrir það, sem hann á að vita úr stjskrn., þar sem hann áttar sig ekki á, hvers vegna á ekki að láta konunginn staðfesta þessa stjskr., — ég skal geta þess þessu viðvíkjandi og endurtaka það, að það varð að niðurstöðu í stjskrn., að það væri ekki tilbærilegt. Eins og stendur í stjórnlagabreyt. frá 1942 og eins og tekið er fram í 81. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, þá er ekki og getur ekki verið tilætlunin að fá neina konunglega staðfestingu á þessu, því að þá eru þing og þjóð búin að rjúfa sambandið við konunginn. Þess vegna væri eins hægt að fá staðfestingu á þessu hjá öðru þjóðfélagi, nema ef Íslendingar eru búnir að vera svo lengi undir konungi, að þeir geti ekki hugsað sér að fá staðfestingu á l. nema konungsstaðfestingu. Og þegar þessi stjskr. er búin að fá gildi, þegar búið er að samþ. hana á einu þingi og hún er búin að fá samþykki þjóðarinnar, þá er hún lög, og þá er ekki hægt að spyrja konunginn lengur í sambandi við hana.

Þá kom það til umr. í stjskrn., hvort leggja ætti þessa stjskr. undir sérstakan íslenzkan valdhafa, eins og ríkisstjóra eða forseta, til samþykktar. En þá kom upp úr kafinu, að það var raunverulega ekki hægt, því að ríkisstjóri sem handhafi valdsins var úr valdaaðstöðu farinn, en ekki kominn forseti í staðinn. Þjóðin verður þá búin að taka þetta vald sjálf í sínar hendur og hefur gert þá staðfestingu, sem enginn annar væri bær um að gera, því að forseti lýðveldisins getur ekki verið annað en umboðsmaður alþjóðar um hið æðsta vald, líka til staðfestingar lögum undir venjulegum kringumstæðum. — Og loks vil ég spyrja hv. 4. þm. Reykv., hvaða dæmi hann eða samherjar hans hafi um það, þegar stofnað hefur verið lýðveldi, að leitaður hafi verið uppi þjóðhöfðingi til þess að staðfesta stjskr. Það hefur alltaf verið þjóðin sjálf, sem staðfest hefur þau l., vegna þess að það er alveg nýtt viðhorf um l., sem skapast með þessu. Í þessu efni heldur því hv. 4. þm. Reykv. fram slíkri firru, að ómögulegt er að halda sér við hana. Þetta kom til umr. á einu stigi meðferðar málsins í stjskrn., þ.e. þegar talað var um, hvort bera ætti fram till. um breyt. á núgildandi stjskr., sem þannig breytt skyldi þá vera lýðveldisstjórnarskrá Íslands, og gerðar yrðu þá þær breyt. einar á stjskr., sem leiddi af valdaflutningnum. En þá varð sú niðurstaðan, að það ætti ekki að bera fram þær brtt., því að þær yrðu þá till. til breyt. á stjskr. konungsríkisins Íslands.

En þegar á þessu stigi var tekið upp til álita í n., einmitt eins og þá stóðu umr., að 34. gr., sem þá, átti að verða í brtt., skyldi hafa það ákvæði, — eftir að búið var að fyrirskipa með 33. gr., að þjóðaratkvæði færi fram, — með leyfi hæstv. forseta: „Nú hafa stjórnskipunarlög þessi verið samþykkt við þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 33. gr., og þau hlotið staðfestingu, og skal þá“ o.s.frv. En n. þótti þá ekki tilbærilegt, að stjskr. fengi staðfestingu konungs, vegna þess að við værum á millistigi í stjórnskipun okkar. Og það átti því ekki við að tala um neina staðfestingu neins æðra valds á stjskr. heldur en samþykkt þjóðarinnar. — Þetta er hér vélritað, eins og það lá þá fyrir n.

Svo skal ég að síðustu aðeins geta þess, að hv. 4. þm. Reykv. þóttist ekki þurfa að gefa neinar skýringar á þessu afturkalli, sem ég svo leyfði mér að nefna. Og afturkall er það vitanlega, sem hér er um að ræða, á því, sem hann og flokkur hans hafa fylgt frá stríðsbyrjun til skamms tíma og hann og flokkur hans eru skyldugir til að skýra. Árið 1940 er valdatakan hjá okkur gerð með samþykki allra flokka og alþjóðar. Hann er þar með þá. Árið 1941 eru svo þær frægu og merkilegu ályktanir gerðar. Hv. 4. þm. Reykv. og flokkur hans og að því er menn vita, þjóðin öll, eru þar með, og engin aðvörun er gerð af hv. 4. þm. Reykv. og hans flokki. Og á þessum ályktunum byggist það, sem við erum að gera nú. Hvað skeður svo 1942? Þá er þessi sami hv. þm. einn af forystumönnum þess að flytja lýðveldisstjskr. til þess að koma í gegn samþykktum Alþ. 1941. Skýringu vantar á því í sambandi við afstöðu hans nú. Árið 1943 kemur svo stjskrn., sem meðal annarra var skipuð Alþfl.-fulltrúum, er ætlað var, að hefðu umboð síns flokks. Þá skrifar hv. 4. þm. Reykv. sem Alþfl.fulltrúi — og reyndar Alþfl.-fulltrúarnir í n. undir þær till., sem hér er um að ræða í þessu frv., sem sé undir þetta frv. um lýðveldisstjskr. Þessi hv. þm. segir svo, að það þýði ekkert að skýra það, því að hvorki ég né aðrir muni skilja það. Já, ég veit, að það verður alveg óskiljanleg skýring hans á þessu, ef hún verður þá nokkur.