04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Út af þeim ummælum, sem fallið hafa hér í umr. um brtt. á þskj. 132, vil ég segja nokkur orð og gera grein fyrir atkv. mínu varðandi þá hlið málsins.

Hv. 8. landsk. hélt því fram, að varla gæti komið til mála, að forsetinn synjaði staðfestingar á öðrum l. en þeim, sem kæmu í bága við stjskr. landsins á hverjum tíma, og gæti því gildistaka slíkra l. valdið ýmsum truflunum, þótt ekki tæki nema stuttan tíma að fá úrskurð um þau hjá þjóðinni. — Ég er ekki sammála hv. þm., að þetta séu einu l., sem forsetinn gæti beitt synjunarvaldi sínu við. Einkum breyttist þó viðhorfið, ef í forsetasætið veldist maður með ákveðnar pólitískar skoðanir, og við höfum enga tryggingu fyrir því, að svo verði ekki í framtíðinni. Ef trygging væri fyrir því, að í forsetasæti veldist ópólitískur maður, þá horfði málið öðruvísi við. En það verður að gera ráð fyrir, að komið geti til mála, að á því sviði og öðrum verði hann tilneyddur að beita valdi sínu samkvæmt pólitískri skoðun sinni. Það er því ekki útilokað, að í framtíðinni muni stjórnmálaflokkarnir í landinu beita sér fyrir því að fá fyrir forseta sína flokksmenn eða a.m.k. menn, sem beittu sér ekki á móti hag flokksins í þeim deilumálum, sem þeir hefðu vald til að láta til sín taka í. Þannig er það a.m.k. í Bandaríkjunum. Ég vil benda á, að í því ástandi, sem nú ríkir á Íslandi, er ríkisstj. skipuð af ríkisstjóra, og ef slíkt ástand helzt hér í landi, eftir að þessi stjskr. hefur verið samþ., og stj. þá verður skipuð af forsetanum, og ef Alþ. tæki sig svo saman um að semja og samþ. fjárlög, sem slík stj. vildi ekki taka við, vegna þess að henni þætti þau ekki skynsamleg, og forsetinn neitaði svo að undirskrifa slík fjárl., þá ætti að vera fjárlagalaust, þar til þjóðin hefði með atkvgr. sagt álit sitt.

En mér finnst, hvor stefnan sem verður ofan á, að nauðsynlegt sé, ef þessi till. verður samþ., að þá komi fram aðrar brtt. við stjskr., og get ég þá vísað til ýmissa gr. í frv., eins og forsrh. gerði. Mér finnst sem sé, að ef forsetanum er fengið það vald, sem um er talað í 26. gr. frv., þá beri líka að gera forsetann ábyrgan gerða sinna. En eins og frv. er nú, er ætlazt til þess, að hann verði ábyrgðarlaus. En maður, sem tekur á sig þá ábyrgð að hrinda vilja Alþ. og láta landsmenn búa við l., sem stríða gegn vilja Alþ., — hann getur ekki verið ábyrgðarlaus. Mér finnst, að taka ætti til athugunar, hvort ekki ætti að breyta 11. gr. og fella úr henni það, að forsetinn skuli vera ábyrgðarlaus. Ef þetta yrði gert, gæti vel komið til mála, að hægt væri að fylgja 26. gr. eins og hún er nú, án þess að henni yrði breytt í það horf, sem lagt er til á þskj. 132. En þá þyrfti líka sú breyt. raunverulega að koma inn í stjskrfrv., að svo framarlega sem þjóðin gengi á móti úrskurði forsetans, þá skuli það kosta hann forsetasætið. Það er óviðeigandi, að forseti, sem í stórmálum neytti valdaaðstöðu sinnar til að stöðva lagafyrirmæli og gengi með því á móti vilja Alþ. og þjóðarinnar, að hann samt sem áður haldi sæti sínu. Í því er ekkert samræmi. Mér finnst því, ef 26. gr. verður samþ. hér eins og hún kom frá Nd., að þessar tvær breyt. þurfi að koma inn í frv., — annars vegar, að forsetinn sé ekki ábyrgðarlaus, og hins vegar, að gangi þjóðaratkvgr. á móti úrskurði hans, verði hann að víkja úr forsetasæti, þótt kjörtími hans sé ekki útrunninn. Sé þessi breyt. sett inn í frv., þá kann að vera nokkurn veginn sama, þótt önnur ákvæði frv. haldist: Hæstv. forsrh. benti á það, að ekki þyrfti að gera ráð fyrir, að nokkur maður yrði settur í forsetastól, sem beita mundi þessu valdi sínu, nema nauðsyn bæri til, og ef hann beitti sér gegn réttmætum vilja Alþ., þá væri hægt að kæra hann. En mér finnst, að svo lengi sem ákvæðið um, að forsetinn sé ábyrgðarlaus, stendur í frv., sé ekki hægt að kæra hann, svo að sú athugasemd, að hægt sé að kæra forsetann, fær varla staðizt, nema 11. gr. stjskr. sé breytt. Vildi ég fá að heyra frá forsrh., hvort hann er ekki sammála mér um þennan skilning.

Auk þessa vil ég leyfa mér að benda á, að það hefur verið gefið fordæmi í þessu efni, síðan æðsta valdið var flutt inn í landið, fordæmi, sem við óskum, að ekki endurtaki sig. En það var, þegar ríkisstjóri neitaði ríkisstj. um lausn. Ég efa, að slíkt hefði komið fyrir 1941, ef konungurinn hefði farið með þetta vald, en því var beitt hér af núv. ríkisstjóra, er hann neitaði forsrh. um lausn í níu daga og neyddi hann til að fara í stj., eftir að hann hafði lýst yfir, að hann tæki enga ábyrgð á ríkisstj. Hér held ég, að gefið hafi verið fordæmi, sem ekki er æskilegt. Þess vegna vil ég undirstrika það, hvort ekki væri rétt að kveða skýrar á um þetta, þar sem segir, að forsetinn skipi ráðh. og veiti þeim lausn. Væri ekki rétt að kveða skýrar á um það, að hann sé skyldur að veita ráðh. lausn, ef þeir óska, en geti ekki þvingað menn til að sitja í stjórn ábyrgðarlausa. Ég vil beina því til frsm. n., hvort ekki muni fært að taka til umr. og athugunar í n. þetta atriði 11. gr., því að sjái hann sér ekki fært að athuga þessi mál, getur vel komið til mála, að ég beri fram brtt. þessu viðvíkjandi við 3. umr. En ég vildi hins vegar ekki bera þær brtt. fram, nema hafa um þær fulla samvinnu við n., en ég álít, að hún eigi að taka til, athugunar hverja þá athugasemd, sem fram kemur við umr.

Þá vil ég minna á 5. gr. frv. Hv. 8. landsk. hefur þegar minnzt á fyrri málsl. þeirrar gr. Ég er að sumu leyti sammála honum, þó ekki að öllu leyti og sízt í því, að nokkur bót yrði að því að velja kjörmenn. En ég hygg, að það sé vanhugsað hjá hv. 8. landsk., að þjóðin muni ekki vita fyrr en eftir á, hverjir verði í kjöri við forsetakosninguna, því að vitanlega kýs þjóðin kjörmenn eftir því, hvaða menn þeir hugsa sér að kjósa sem forseta.

Ég vil í sambandi við 2. málsgr. 5. gr. benda á það, að óheppilegt er, að þar standi: „Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, og má þar ákveða, að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar“. Ég tel, að með þessu ákvæði sé þingmeirihluta á hverjum tíma gefinn möguleiki til að breyta l. um kjör forseta sér í hag, og er það mjög óheppilegt. Það þarf ekki annað en að setja inn í l., að forsetinn skuli hafa svo eða svo mikið atkvæðamagn í hverju kjördæmi, og mætti með því útiloka ákveðna flokka frá að hafa mann í kjöri. Það er ekki æskilegt að leggja nú inn á þær brautir, sem síðar gætu orðið að ásteytingarsteini milli flokkanna. Ég tel nauðsynlegt að ganga svo frá þessu hér, að ekki sé hægt að breyta neinu um þau skilyrði, sem sett eru um forsetakjör, nema með stjskrbreyt., því að það verður ekki til farsældar fyrir þjóðfélagið, ef sett verða mjög þröng skilyrði fyrir forsetakjöri. Þetta vildi ég biðja hv. frsm. n. að taka til athugunar.

Þá vil ég einnig benda á það, að mér finnst leiðinlegt ósamræmi í stjskrl., að sums staðar er talað um „forseta Íslands“, eins og í 3. gr., en síðan á víxl „forseta Íslands“ eða „forsetann“, í stað þess, er áður var „forseti lýðveldisins“. Mundi ekki vera rétt og eðlilegt að hafa hér aðeins „forsetinn“, en aftur á móti „forseti“ um forseta Sþ.? Þetta er að vísu ekki veigamikið atriði, en mér finnst leiðinlegra að hafa þetta á víxl, eins og það kemur fram í nál. stjskrn. að heita má í öllum gr.

Að síðustu vildi ég mega minna á það, að ég harma, að 17. júní skuli hafa verið tekinn úr frv., því að ég var einn af þeim mönnum, sem vildu, að það ákvæði stæði í stjskrfrv. Ég harma það, að ekki skuli hafa náðst fullkomið samkomulag og eining um þetta stórmál. En úr því sem komið er, skal ég að sjálfsögðu ekki gera neinn ágreining út af því, ef það mætti verða til þess, að þjóðin stæði fastar saman um málið en hún hefði gert, ef þessi ásteytingarsteinn hefði verið til staðar.