12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forsetl. Ég á hér brtt. á þskj. 639. Ég legg til, að 3. gr. frv. verði felld niður, og skal ég færa fyrir því nokkur rök.

Í þeim umr., sem hafa farið fram um þetta mál, hefur komið í ljós, að stofnun dósentsembættanna er óþörf, með því að skólinn þarf ekki á þessum auknu kennslukröftum að halda, stofnun embættanna er því einungis gerð til þess að tryggja tveim ungum mönnum góða atvinnu við háskólann, án þess að hann þurfi á þeim að halda. Er tilgangslaust að mæla þessu gegn, þar sem hv. 1. þm. Reykv. hefur m.a. viðurkennt þessar staðreyndir. Og með því að ég er því algerlega mótfallinn, að nokkur embætti séu stofnuð í landinu vegna mannanna sjálfra, get ég heldur ekki léð frv. þessu, sem fyrir liggur, fylgi mitt. Því að ef fara ætti inn á þá braut almennt að stofna embætti fyrir hvern mann, sem gott þætti að fá tryggt ævistarf með viðunandi launum, eru engin takmörk fyrir því, hvar þetta mundi lenda, en þegar auðséð, að fljótt mundi slíkt leiða út í óefni, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti réttilega á í ræðu sinni. Fyrir því hef ég talið mér skylt að bera fram þessa breytingartillögu.

Ég vil svo segja nokkur orð í tilefni af ýmsu, sem komið hefur fram í sambandi við þetta mál. — Hv. 6. þm. Reykv. flytur brtt. um, að 2. gr. falli niður, þ.e. tvö dósentsembætti í viðskiptafræði við háskólann. Ég verð að segja, að eftir að hafa heyrt rök hans í þessu máli, get ég mjög vel fallizt á þessa till., og einkum eftir að hv. þm., sem mjög er kunnugur þessu máli, hefur beinlínis lýst því yfir, að ekki sé við því að búast, að nokkur dugandi maður komi úr þeirri deild. Ég veit náttúrlega ekki, hvort þetta er réttur dómur, en hv. þm. hefur kynnt sér þetta mál mjög ýtarlega, og hafi hann rétt fyrir sér, er vitanlega engin ástæða fyrir ríkið að halda uppi miklum kostnaði við deild, sem fyrir fram er vitað, að enginn nýtur maður getur komið frá.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði réttilega, að ekki aðeins hefði háskólanum verið skapaðar árstekjur, 300–400 þús. kr. af Tjarnarbíói, heldur hefði honum líka verið séð fyrir annarri tekjuöflun, sem er happdrætti háskólans. Eins og hv. þm. S.-Þ. minntist á, hefur þetta happdrætti verið framlengt um langan tíma, og það getur engan veginn talizt réttmætt, að háskólinn, eftir að búið er að sýna honum slíkt örlæti, gerist svo langsækinn ofan í vasa ríkissjóðs að krefjast stórra fjárframlaga ofan á þessi miklu fríðindi, til þess að halda uppi einskis nýtum embættum af persónulegri góðvild í garð einstakra manna. Einhvern tíma kæmi að því, að snúa yrði við, og gæti þá farið svo, að þessi sérstöku fríðindi yrðu tekin af háskólanum aftur. Kæmi þá að því, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, að það gæti orðið háskólanum til verra eins, að þetta frv. hefði þá náð fram að ganga, og því eins gott að fella það nú eins og að eiga á hættu að þurfa að breyta l. síðar til fækkunar á embættismönnum við þessa deild skólans.

Í öðru lagi er brtt. um að fella niður aðeins annað embættið, eins og ákveðið er í brtt. hv. 6. þm. Reykv. Ég get nú ekki fallizt á, að það sé nógu langt gengið, en að sjálfsögðu kemur mín brtt. fyrst til atkv., og mun ég þá fylgja hinni till., ef ekki verður samkomulag um að samþykkja mína till.

Þá voru það nokkur orð í sambandi við verkfræðideildina. Þar er beinlínis um að ræða fjárhagslegt sparnaðaratriði fyrir landið. Það kostar tvímælalaust miklu minna að halda uppi verkfræðikennslu fyrir slíka nemendur hér heima, svo að þeir geti að minnsta kosti tekið hér fyrri hlutann, en að láta þá nema erlendis, sumpart á sinn kostnað, en sumpart á kostnað ríkissjóðs, auk þess, sem stórum sparaðist gjaldeyrir við það, að námið færi fram hér innan lands. Af þessum ástæðum er ég því meðmæltur, að þeirri deild háskólans verði séð fyrir nægum starfskröftum til að halda uppi kennslu, auk þess, sem sú deild mundi auka hróður íslenzka háskólans, engu síður en norrænudeildin. Það er alveg sama, þótt hv. d. skilji þetta ekki, en sannleikurinn er sá, að ef héðan koma vel menntaðir verkfræðingar til framhaldsnáms við háskóla úti, sem viðurkenndu fyllilega þann undirbúning, sem þeir hafa fengið hér, er það vitanlega engu minni hróður fyrir Ísland og íslenzka háskólann en norrænukennsla og norrænuvísindi, sem segja má, að rétt sé, að ein hafi hingað til setið að því að halda uppi heiðri háskólans út á við. Reynslan mun sanna það, að þegar fram líða stundir, munu einnig hinar aðrar deildir háskólans vekja á sér athygli fyrir kennslu í sínum greinum, og að því ber að stefna.

Hv. þm. Dal. hélt því fram, að ekki væri rétt að veita þessi embætti nú, því að þá mundi framvegis ríkja sú stefna hér á Íslandi að stofna alltaf embætti, þegar einhverjir menn kæmu til landsins, sem stundað hefðu nám úti og væru atvinnulausir. Það er einmitt þetta, sem verið er að gera hér með 3. gr. Það er verið að veita þeim atvinnu við norrænudeildina, án þess að hún þurfi á þeim að halda. Og hv. d. heldur, að þessi stefna verði svo föst, að ekki verði frá henni vikið.

Vænti ég svo, að brtt. mín verði samþ., en mun að öðrum kosti samþ. brtt. hv. 6. þm. Reykv. Hins vegar mun ég greiða atkv. móti brtt. hv. þm. Dal. um að fella niður verkfræðideildina.