12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál mikið, heldur ræða það almennt, þar sem ekki hefur komið fram margt nýtt, og ætla ég mér ekki að hlaupa í skarðið fyrir hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar.

Hv. þm. S.-Þ. talaði um hæstarétt, happdrætti háskólans, grunnhyggni hv. þm. og annað slíkt. Einhvern veginn fannst mér hann leggja ræðu hv. 6. þm. Reykv. út á þann veg, að honum væri ekki hlýtt undir niðri til háskólans. En ég er nú ekki á sama máli, þó að hann geti að sjálfsögðu haft aðrar skoðanir á því, hvað háskólanum bezt hentar.

Um ræðu hv. þm. Barð. vil ég segja það, að hann þekkir ekki mikið til háskóla í veröldinni, ef hann heldur, að stöðurnar séu ekki veittar vegna mannanna, — né heldur hefur hann mikið vit á því, hvað þarf að segja til þeim mönnum, sem stunda móðurmálið, sögu og bókmenntir við háskólann. Við höfum máske ekki ráð á því, en það er hið algengasta, sem til er, að háskólar óski eftir ágætum mönnum, frábærum mönnum, alveg án tillits til þess, hvort bein nauðsyn er fyrir þá til kennslu eða ekki. Þýzkir háskólar t.d. hafa sótt marga af ágætustu mönnum Norðurlanda, því að Norðurlönd hafa getað keppt við þá á þessu sviði. En á þessu veltur hróður háskólans. Háskólinn er tvíþætt stofnun. Annars vegar tilsagnarstofnun eða kennslustofnun og svo hins vegar auðvitað hrein vísindastofnun, og er það einmitt sá þáttur háskólastarfsins, sem mestan þátt á í því að skapa hróður háskólans út á við. Ég geri ráð fyrir, að við Íslendingar eigum erfitt með að bera hróður háskólans undir heiminn nema í þeim fræðum, sem snerta okkur sérstaklega, og kemur þá ekki til greina af okkar deildum önnur en norrænudeildin.

Hitt er annað mál, hvort við getum sent vel menntaða menn til framhaldsverkfræðináms. Ekki hef ég samt mikla trú á því, að menn frá áhaldastofnun verkfræðideildarinnar gætu orðið til þess að auka hróður okkar erlendis.

En vitanlega verðum við að meta það eftir okkar efnahag, hvað við getum látið marga menn leggja stund á norrænu frá vísindalegu sjónarmiði.

Ég skal ekki tala mikið um viðskiptadeildina. Rök hv. þm. Barð. gegn henni virtust mér aðeins þau, að hv. þm. S.-Þ., sem hann ber mjög mikið traust til, sagði, að aldrei mundi koma nokkur dugandi maður úr þeirri deild, og þar með var það afgert í huga hv. þm. Barð.

Hv. 6. þm. Reykv. bar fram ýmislegt viðvíkjandi þessari deild, sem ég ætla hv. frsm. n. að svara. En ég vildi aðeins segja það, að viðskiptastéttin í landinu er svo stór og innir af hendi svo mikið hlutverk, að mér finnst blátt áfram óhæft, að ekki sé eitthvað gert til þess, að í þeirri stétt sé alltaf stór hópur vel menntaðra; manna, án þess ég ætli að segja, að þeir verði nokkuð hæfari en aðrir menn. Ég held, að þetta yrði mikilvægt fyrir þjóðfélagið.

Mér skilst af þeim orðum, sem hér hafa fallið um happdrætti háskólans, að menn álíti háskólann skyldan til að standa undir rekstri sínum sjálfur, af því að hann hefur happdrættið. Sannleikurinn er sá, að hann má auðvitað ekki nota neitt af þessu fé nema til að byggja fyrir. Háskólinn hefur hafizt handa um tekjuöflun til að byggja hús, sem annars er óhugsandi, að ríkið hefði getað komið upp af eigin rammleik. Auk þess hefur ríkið tekið dálítið af þessu fé til annarra þarfa, sem hefði annars komið í hlut ríkisins að greiða. Svo að happdrættið má áreiðanlega ekki reikna þannig, að það séu sérstakar ástæður fyrir ríkið að draga við háskólann, af því að hann kom því upp.

Það, sem kom mér til að standa upp, var eitt atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv., þess eðlis, að mönnum gæti e.t.v. virzt, að til greina gæti komið, að háskólinn hefði nú fengið svo arðbæra stofnun, þ.e. Tjarnarbíó, að hann gæti vel staðið undir einhverjum embættum, t.d. í norrænu. En þetta er ekki eins og sýnist. Sannleikurinn er sá, að Tjarnarbíó er ekki annað en fyrirkomulag til að ávaxta fé sáttmálasjóðs. Háskólinn fékk þennan mikilsverða sjóð árið 1918.

Það er langt síðan háskólaráð fór að taka eftir þeirri hættu, sem vofði yfir sjóðnum. Eftir að peningarnir fóru að rýrna, fóru menn að velta fyrir sér, hvað yrði um þessa starfsemi, þegar peningarnir rýrnuðu svo, að þessar 40 þús. kr. dygðu ekki til nema örlítils af því starfi, sem áður hafði verið. Út frá þessu braut háskólaráð mjög heilann um það, hvernig ætti að komast hjá þessari hættu. Það var talað um að kaupa stórhýsi í Reykjavík fyrir einhvern hluta af sjóðnum til að eiga einhverja fasteign, sem væri í fullu verðmæti, eða eiga eitthvert fyrirtæki, sem mætti líta á, að hættulítið væri að setja féð í. Þá hugsuðu menn sérstaklega til bíórekstrar, af því að þau voru þá nokkurn veginn sérréttindafyrirtæki, svo að það var ekki frjáls samkeppni, sem komst þar að. Fyrir atbeina hv. 6. þm. Reykv. gat háskólinn með mjög hentugum hætti komið upp þessu bíói. Hefur þetta fyrirtæki síðan orðið mjög mikill léttir fyrir skólann. Ég vil skjóta því til hv. þdm., hvort þeir haldi ekki, að þau útgjöld, sem sjóðurinn hefur átt að standa undir, hafi ekki hækkað allmikið, t.d. hefur útgáfa kennslubóka margfaldazt, utanfararstyrkur hefur ekki komið svo mikið til vegna stríðsins, en ef ætti á slíkum tímum, og það verður ef til vill svo í framtíðinni, að veita utanfararstyrki, sem að verulegu gagni kæmu, þá er sá kostnaður vitanlega margfaldur á við það, sem var. Það sér maður á styrk, sem stúdentar hafa nú, sem eru við erlenda háskóla. Ég held, að ætti að halda þeirri reglu, sem haldið hefur verið frá 1918, að lofa sáttmálasjóði að standa fyrir þessu eins og t.d. utanferðum til að vega á móti þeirri einangrun, sem háskólakennarar hér á landi verða við að búa við sitt fræði- og vísindastarf. Hinu vil ég mjög ráða frá, að láta sjóðinn standa undir hinum reglulegu útgjöldum háskólans, t.d. embættiskostnaði hans. held, að bezt sé að stinga þar heldur fótum við. Eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, þá eru þessar tekjur að nokkru leyti meiri vonarpeningur en áður, því að búast má við, að bíó fari að verða ekki eins góður tekjustofn og áður, því að mér skilst, að nú eigi að fara að gefa þennan rekstur lausan og menn geti nú sett upp slík fyrirtæki gegn ákveðnum skilyrðum. Má þá búast við samkeppni, svo að minna verði upp úr því að hafa, þó að vonandi verði það gott fyrirtæki, en mikil hamingja var það, að sjóðnum var þannig komið fyrir, áður en peningar voru orðnir jafnlítils virði og þeir eru nú orðnir.

Ég vil því mælast til þess, að hv. þm. breyti ekki frv. fyrir smáatriði. Mér virðist á því, sem fram hefur komið í málinu, að þær breyt., sem hér koma helzt til greina, séu mjög mikið álitamál. Einn segir, að ekki eigi að hafa verkfræðideild, annar, að ekki eigi að bæta við í norrænudeild, og sá þriðji, að ekki eigi að hafa viðskiptadeild. Er þetta ekki vottur þess, að hér eigi að fara eftir þeim till., sem háskólaráð hefur borið fram og mælt með? Háskólaráð er engan veginn angurgapastofnun. Ef Alþingi getur verið íhaldssamt, þá held ég, að háskólaráðið geti verið það líka og fari ekki fram á neinar angurgapatill. Ef það leggur eitthvað til, þá er það af því, að það telur, að það sé þjóðinni og háskólanum til góðs. Hæstv. kennslumálaráðh. var að tala um liði í fjárl., sem eins vel mætti skera niður eins og að spara við háskólann. Ég vil benda á margs konar starfsemi. Við höfum nú fulltrúa á flugmálaráðstefnu vestur í Ameríku. Mér er ekki kunnugt um gagnið eða kostnaðinn við að hafa fulltrúa á þessari ráðstefnu, þar sem þeir geta ekki haft aðstöðu til að láta neitt til sín taka, en ég efast ekki um, að kostnaðurinn er svo mikill, að hann mundi nægja ég veit ekki hvað mörgum af þessum nægjusömu vísindamönnum okkar í eitt ár. Ég get ekki hugsað mér kostnaðinn minni en 100 þús. kr. fyrir að vera þar til ósýnilegs gagns, og fyrir það fé gætu margir nægjusamir menn unnið stórvirki, því að okkar vísinda- og fræðimenn eru vissulega mjög nægjusamir, og ég held, að þeirra kröfur til fjár séu yfirleitt lágmarkið af því, sem menn óska, að gert sé.