28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég mun ekki bæta miklu við þessa framsögu málsins, en ég vil aðeins segja nokkur orð, af því að ég gat þess, að frv. um þetta efni væri væntanlegt innan skamms að tilhlutun mþn. búnaðarþings, þegar hér fyrir skömmu var lagt fram frv. til breyt. á jarðræktarlögunum, sem um skeið hefur legið hjá landbn. Ég gat þess þá, að ég héldi, að betra mundi þykja, þegar þetta mál kom fyrir, að leggja frekar til grundvallar þetta frv. og önnur, sem hér eru á dagskrá í dag, en hið fyrra, og af þeim ástæðum hefur nefndin ekki enn þá skilað áliti um breyt. á jarðræktarlögunum. Eins og hv. 1. flm. gat um, var tilefnið það, að mþn. búnaðarþings tók að sér að semja þetta frv., eftir að því frv., sem hann gat um að hefði legið fyrir á haustþinginu 1943, var vísað frá með rökst. dagskrá og æskt eftir, að Búnaðarfélag Íslands gerði á því athuganir og tili. um það. Þegar nefndin fór að ræða þetta mál, kom fram hjá henni sú hugmynd, sem nú þegar er komin hér fram í tillöguformi með þessu frv., að rétt mundi vera að setja á almennar samþykktir um húsagerð í sveitum á svipuðum grundvelli og lagt er til með jarðræktarsamþykktunum. Við vitum, að þetta byggingastarf, sem liggur fyrir sveitunum, að rækta jörðina og byggja hana, er á mörgum stöðum jafnmikil nauðsyn fyrir bóndann og verður því að fylgjast að. Mþn. komst að þeirri niðurstöðu, að á sama hátt og sennilegt væri, að hægt yrði að greiða mjög fyrir framkvæmdum í jarðrækt með því skipulagi, sem um getur í frv., væri einnig líklegt, að unnt væri að létta undir með almennri húsagerð í sveitum með því að koma á svipuðu fyrirkomulagi í húsagerð. Eftir að nefndin hafði komizt að þessari niðurstöðu, virtist henni heppilegast, að frv. væri ekki borið fram sem brtt. við jarðræktarlögin, því að hún leit svo á, að húsagerðarsamþykktir ættu þar ekki heima. Tók hún því það ráð að skipta málinu í tvennt og bera fram sérstakt frv. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir, sem hvað jarðræktarsamþykktir snertir er svipað frv. frá 1942 um breyt. á jarðræktarlögunum, en fella húsagerðarsamþykktir við, sem eru algert nýmæli. Það, sem við leggjum megináherzlu á, er það, að með þessu frv. eru opnaðir möguleikar fyrir því, að smærri samþykktarsvæði geti orðið með innan sambandsins, þannig að engin smærri sambönd verði útilokuð, þó að hin stærri vilji ekki vera með, og knýja þannig fram sem stærsta heild til þess að koma í veg fyrir, að einstakir aðilar innan sambandsins þurfi að verða út undan. Skal ég ekki fara fleiri orðum um þetta, en vildi aðeins taka þetta fram í sambandi við þau orð, sem ég sagði, þegar fyrra frv. lá fyrir til umr.