15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Efni þessa frv. er að heimila ríkisstj. að selja þrjár kirkjujarðir. Sú fyrsta þeirra er Laxárdalur í Skógarstrandarhreppi í Snæfellsnessýslu, að selja hana ábúandanum, Jóel Gíslasyni. Þessi ábúandi hefur búið þarna síðan 1901 eða í 43 ár. Hann hefur lengi haft hug á að fá jörð þessa keypta og sótti um það fyrir mörgum árum, meðan l. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða voru í gildi. Sýslunefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu mælti með, en umsóknin tapaðist í stjórnarráðinu. Það er því fyrir hreinustu mistök, sem þessi maður á ekki sök á, heldur stjórnarvöldin, að hann fékk ekki þessa jörð keypta á sínum tíma.

Eins og getið er í grg., hefur skapazt nýtt viðhorf í þessu máli, þannig að fyrir tveimur árum báru hv. 1. þm. Árn. og hv. 10. landsk. fram frv. um heimild til að hafa skipti á Laxárdal og nágrannajörð, sem heitir Ymjaberg (Emmuberg í daglegu tali), fyrir 3/4 hluta jarðarinnar Sandvík í Arnessýslu. En svo er mál með vexti, að eigandi Sandvíkur hefur undanfarið stundað laxveiði á Skógarströnd, hefur fellt hug til þessara jarða og vill eignast þær. Þegar þetta mál var komið það langt áleiðis, hafa komið fram óskir frá þeim, að þeir yrðu sjálfir látnir sitja fyrir kaupunum. Þess vegna flyt ég frv. um heimild til að selja þeim þessar jarðir. Og fyrst á annað borð hefur verið flutt frv. um það af tveimur mikilsmetnum þm., að ríkið láti þessar jarðir, þá er sjálfsagt, að ábúendur sitji fyrir. Ég skal taka fram, að hreppsn. Skógarstrandarhrepps hefur einróma mælt með sölu beggja þessara jarða til ábúenda.

Þriðja jörðin er eyðijörðin Gröf í Staðarsveit. Hefur hún verið í eyði í 100 ár, en nú kringum 30 ár nytjuð af bóndanum á Ölkeldu, oddvitanum í Staðarsveit, Gísla Þórðarsyni. Í upplýsingum, sem hann hefur veitt mér og prentaðar eru sem fylgiskjal, tekur hann fram, að árið 1915 hafi komið til mála, að ríkið byggði þessa jörð til ábúanda og þar yrði byggt upp. En þá kom í ljós, að túnsteeði og bæjar hins forna býlis var innan Ölkeldulandamerkja, en mesta óvissa um landamerkin. Þáverandi sýslumaður taldi réttustu leiðina, að hann byggði bóndanum á Ölkeldu þessa eyðijörð og að hann keypti hana síðan af ríkinu. Honum voru boðin kaup, en vegna fjárhagsörðugleika þá gat ekki af þeim orðið. Hins vegar fer bóndinn af nýju fram á, að heimild verði veitt til að selja honum jörðina. Þarna er um smájörð að ræða, — ég held að fasteignamat sé 500 kr., — og virðist ekki skipta miklu máli fyrir ríkissjóð.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur það komið hvað eftir annað fyrir á undanförnum árum, þó að l. um þjóðjarðasölu og kirkjujarða hafi verið úr gildi felld, að söluheimildir hafa verið samþ. fyrir einstakar slíkar jarðir, stundum til hreppa, en einnig til einstakra manna. Nýtt dæmi er það, að hv. 1. þm. Eyf. hefur flutt frv. um sölu á Skáldalækjareyju til bónda, sem býr á næstu jörð. Og landbn. Ed. hefur mælt með því. — Ég vænti, að þetta mál fái góðar undirtektir, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og landbn.