28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það kann að vera, að mér hafi láðst að taka fram, að hv. þm. a.-Húnv. gat þess, að hann vildi fylgja till. meiri hl., þegar hans till. var felld í n., en upphaflega var hún þríklofin, eins og málið lá fyrir.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða við þá hv. þm., sem hafa mælt gegn frv. Mér skilst, að hv. 1. landsk. hafi nú eiginlega talað á móti þessu frv. eða sölu þessara jarða á þeim grundvelli, sem var, áður en l. um ættaróðul voru samþ., en það var allt annar grundvöllur að sleppa úr eign ríkisins jörðum, sem mátti fara með á handahlaupum brasksins manna á milli, því að af þeim ástæðum gat salan orðið hreinasta hefndargjöf. Það er allt annað mál, þegar jarðir eru seldar með þeim kvöðum, sem á þeim eru, eftir að l. um ættaróðul eru komin í gildi, því að þá á að vera hægt að koma í veg fyrir sölu og braskmeðferð, því að þá er alveg jafntryggt, að jörðin verði ætíð í hæfilegu verði, eins og hún væri í eign hins opinbera. Hins vegar getur hann eðlilega haft sína skoðun um það, að ekki eigi að selja jarðir hins opinbera, en rökin fyrir, að ekki ætti að gera það, fannst mér tilheyra liðinni tíð.

Um ræðu hv. 2. þm. N.-M. skal ég ekki fara mörgum orðum. Mig minnti og minnir enn, að hann væri með frv. um ættaróðul og erfðaábúð, og getur hann þá leiðrétt það, ef það er ekki rétt. En sé það rétt, að hann hafi verið með því, þá skil ég ekki, að hann skuli leggja á móti þessu frv. í því formi, sem það hefur samkv. brtt. n., því að það er þegar með löggjöf búið að slá fastri stefnu um þessi mál, sem sé, að jarðir geti verið annaðhvort í eigu ríkisins og í erfðaábúð eða eign einstaklinga sem ættaróðul með þeim takmörkunum, umráðarétti og kvöðum, sem þeim fylgir. Og sé svo, að sumar jarðirnar, sem hann flytur brtt. um, að seldar verði, séu í eigu jarðakaupasjóðs, þá er óþarfi fyrir hann að vera að gera það fyrir kjósendur sína að flytja brtt., því að þá hafa þeir skýlausan rétt til að fá jarðirnar keyptar, hvort sem þingið segir nokkuð um það eða ekki. Menn geta farið til stj. og samið um kaup á jörðunum með þeim skilyrðum, sem fylgja.

Ég geri ráð fyrir, að eðlilegt sé að samþ. brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., en ég verð samt að óska þess fyrir hönd n., að þessari umr. verði frestað, svo að n. fái aðstöðu til að athuga till., áður en gengið verður til atkv. um þær.