11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

212. mál, lendingarbætur í Grindavík

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Á síðasta vori voru samþ. hér á hæstv. Alþ. l. um lendingarbætur í Grindavík. Þar var gert ráð fyrir, að veittar yrðu úr ríkissjóði allt að 150 þús. kr. til þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar voru í sambandi við lendingarbætur í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík, og tilsvarandi ábyrgð fyrir láni. Síðan þessi lög voru sett, hefur verið unnið að framkvæmdum í lendingunni. Og það fé, sem veitt hefur verið úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, er að mestu upp étið.

Nú hefur það komið í ljós, um leið og að verkinu var unnið, að framkvæmdir þessar hafa orðið dýrari en áætlað var upphaflega, auk þess sem nauðsynlegt er að gera þar frekari aðgerðir viðkomandi lendingarbótum þarna en gert var ráð fyrir, þegar byrjað var. Skrifstofa vitamálastjóra hefur gert áætlun um, hver verða muni heildarkostnaður þessa mannvirkis, og henni telst svo til, að hann verði 450 þús. kr. Er hér því farið fram á að hækka hvort um sig, ríkisábyrgð og framlag ríkissjóðs, um 75 þús. kr., þannig að heimild verði eftir þessum l. til að veita þetta fé úr ríkissjóði og ríkisábyrgð tilsvarandi, þegar tiltækilegt þykir að framkvæma lendingarbæturnar.

Sjútvn. þessarar hv. d. mælir með því, að þessi lagfæring verði gerð á l. um lendingarbætur í Grindavík, — því að nánast verður að telja þetta lagfæringu.