28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni. hl. (Jónas Jónsson):

Það hefur nú komið í ljós, að hæstv. forseti hefur séð, að hann hafði á röngu að standa, en þó vildi ég mælast til, að hann bæri þetta undir deildina.

Annars mun ég geyma það til 3. umr., sem ég hef að athuga við þetta mál, en vinnst ekki tími til að ræða nú. Ég vil fyrst mótmæla því, sem háttv. þm. Barð. sagði, um að menntmn. væri ekki fær um að hafa þetta mál með höndum, og vísa ég því til formanns n. að bera sakir af henni, en annars mundi ég fallast á að málið gengi til sjútvn. eftir svo ágæta meðferð sem það hefur fengið. Ég hallast að þeirri skoðun hv. þm. Barð., að ófært sé, að dómnefndin ákveði útboðsskilmálana; annars kem ég síðar að hans mjög svo merkilegu ræðu. En það er vafalaust, að starfsmenn ríkisins hafa aðstöðu til að fá þessi verðlaun, og má geta þess í því sambandi, að Geir Zoëga hefur haft tekjur af því undanfarið að reikna út járn í byggingar. Það gætti nokkurs misskilnings hjá háttv. þm. viðvíkjandi ummælum mínum um Saurbæjarkirkju. Ég gat þess einungis, að hún hefði verið boðin út, en byggingarnefnd vildi ekkert af þeim teikningum, sem bárust, en fékk teikningu hjá Guðjóni Samúelssyni, en sú teikning hefur hlotið mikið lof erlendis, og ég efast ekki um, að háttv. þm. Barð. er svo mikið skáld, að hann kann að meta þessa teikningu.

Nú er verið að byggja kirkju hér á Melunum, sem er stæling á peningshúsi, sem Vilmundur Jónsson lét byggja, svo að í rauninni hefði Vilmundur átt að fá verðlaunin, en þessar tvær kirkjubyggingar verða naumast lagðar að jöfnu.

Háttv. 6. þm. Reykv. hefur ekki kynnt sér nægilega þskj. Hann hefur tekið fram viðvíkjandi öðru máli, að höfuðatriði sé að hafa skýringar á hverri lagagrein. Eins og frv. er nú, nær það til Reykjavíkurbæjar og Einars Sveinssonar, og það, sem ég segi, er einungis samanburður, sem háttv. 6. þm. Reykv. verður að sætta sig við, þótt hann trúi á Einar Sveinsson. En vilji háttv. 6. þm. Reykv. fá ákveðnara svar, þá vitna ég til þess, sem Guðmundur Ásbjörnsson sagði á bæjarstjórnarfundi, að þessi maður hefði skaðað bæinn um 1 millj. kr. Og af því að Guðmundur Ásbjörnsson er æðsti og reyndasti maður bæjarstjórnarinnar, þá má ætla, að taka megi mark á ummælum hans, enda er ég honum sammála.

Háttv. þm. Barð. virðist ekki hafa lesið frv. nægilega vel. Hann vildi hafa, að heimildin næði einungis til ráðh., en hún nær til allra bæjarstjórna, félaga og fleiri. Til dæmis mundu hinir 7 skólar, sem féllu illu heilli hjá Nd., hafa heyrt hér undir.

Ég vík því næst að háttv. frsm. meiri hl. menntmn. Ef háttv. þm. athugar það, að í frv. er beinlínis sagt, að samkeppnin skuli vera um frumáætlanir og frumuppdrætti, þá hlýtur hann að sjá, að hans skilningur er rangur, og ég vil benda á, að Einar Sveinsson hefur neitað að beygja sig undir þetta, þar eð hann leggur hinn sama skilning í frv. og ég, enda verður ekki annað ráðið af orðanna hljóðan.