28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Mér þykir leitt, að háttv. frsm. meiri hl. skuli vera fallinn í valinn, en ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan viðvíkjandi skilningi á frv. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það, sem stendur um þetta í 1. gr., og óska eftir því, að hv. þm. verji þá skoðun, sem þar kemur fram:

„Samkeppni skal fara fram um hugmyndir, frumáætlanir og frumuppdrætti að meiri háttar opinberum byggingum og mannvirkjum.“

Ef nú skoðun þessa hv. þm. væri rétt, þá mundi ekki standa „frumáætlanir“ og „frumuppdrættir“, heldur áætlanir og uppdrættir. — Svo stendur enn fremur í grg., eins og ég hef áður vikið að:

„Hér er aðeins átt við frumhugmyndir um fyrirkomulag og gerð mannvirkja, en þær eru mikilvægasta atriðið, til þess að þau megi takast vel. Þrátt fyrir það er mikill hluti hins sérfræðilega undirbúnings mannvirkisins óleystur, þótt hugmyndin að því sé fengin.“

Svo er enn fremur sagt í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta, og því vil ég einkum beina til hv. þm. Barð.:

„Það er ekki tilgangurinn með frv. þessu að útiloka áðurnefnda starfsmenn frá því að koma hugmyndum sínum um hin ýmsu opinberu mannvirki á framfæri.“

Þetta er alveg glöggt sagt hér, og þar af leiðir, að þeir hljóta að fá verðlaun, enda hvergi bannað. Ég að vísu gleðst af því, að minn hv. andstæðingur, hv. frsm. meiri hl., hefur algerlega gefizt upp, en um leið og ég skil við hann í hans uppgjafarástandi, vil ég lesa fyrir hann úr frv. því, sem hann ber fyrir brjósti, þessi orð um það, hvers vegna þetta frv. er flutt:

„Þrátt fyrir allt er sú hætta fyrir hendi, að úrlausnir þeirra, sem árum saman hafa unnið að sams konar mannvirkjum, geti orðið vanabundnar og einhæfar, ef um enga samkeppni við þá er að ræða.“ (GJ: Þetta er ekki úr frv. Þetta er úr grg.) Nei, en þetta er það, sem farið verður eftir. Ég vil beina því til borgarstjórans, sem er fróður vel í lögum, að með grg. er beinlínis gerð árás á það fólk, sem hann með list hefur reynt að bjarga undan frv., því að í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilbreytingarleysi í þessum efnum sljóvgar auk þess mjög dómgreind og fegurðartilfinningu alls almennings á hinu verklega sviði.“ (BBen: En þetta er sagt um almenning, en ekki sérfræðinga.) Það sýnir, að hv. þm. hefur ekki lesið frv. Þetta er skýring á því, hvers vegna þurfi að hafa hugmyndasamkeppnina. Ég vil mælast til þess, að hv. 6. þm. Reykv. athugi þetta og skýri fyrir undirmönnum sínum, Einari Sveinssyni og sínum undirmönnum öllum, að þeir hafi verið stórlega móðgaðir af kommúnistum og þeim, sem fluttu þetta frv., því að enginn er undan skilinn, því að ég býst við, að þetta sé með líkum hætti á skrifstofum bæjarins og ríkisins, líf þessara manna sé álíka tilbreytingarlaust hjá báðum.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að Reykjavíkurbæ. Hv. 6. þm. Reykv. blandar saman því skipulagsatriði, sem skipulagsnefndin og að því er virðist bæjarstjórnin hér, sem hefur samþ. slíkt, og einnig hæstv. ríkisstj., það að leyfa ekki að byggja efstu hæðina á mjög háum húsum jafna hinum hæðunum. Þetta á náttúrlega við inni í bænum. Mér finnst þetta ljótt hvar sem er, á Hótel Borg og annars staðar, en nú eru þessar svalir lögboðnar. Það, sem þeim bar á milli, Guðm. Ásbjörnssyni forseta bæjarstj. og borgarstjóranum, var það, að Einar Sveinsson lét vera flatt þak á helmingnum af skólabyggingu, sem kostaði 5 millj. kr., en það var gert í því skyni, að blessuð börnin verði þarna úti, eiginlega „pædagogiskt“ atriði, í stað þess að Guðm. Ásbjörnsson segist alltaf vera í vandræðum með plássið í skólanum. Hann treystir því ekki, að hægt sé að koma þessari útikennslu við, og telur réttara að hafa þá heldur þak yfir öllu húsinu og gera þarna kennslustofu. Út frá þessu er það alveg rétt hjá forseta bæjarstjórnar, að bærinn er skaðaður á þessu. Hitt er annað mál, að borgarstjóri tekur á sig nokkuð af ábyrgðinni, en ég held, að borgarstjórinn hafi ekki athugað sig nægilega á þessu. Ég tel, að Guðm. Ásbjörnsson hafi gert skyldu sína við bæinn með því að benda á þetta og reyna að beita sínum áhrifum, sem því miður reyndust ekki nógu sterk, því að nú á þetta að vera svona. Ég ætla að upplýsa það fyrir hv. 6. þm. Reykv., að það mun vera á málleysingjaskóla í Stokkhólmi svona útbúnaður, og forstöðumaðurinn sagði, að varla nokkurn tíma væri hægt að framkvæma kennsluna úti, þrátt fyrir milt loftslag, og því síður er von til þess að gera það hér, og þess vegna væri það bæði fjárhagsvilla og uppeldisvilla að ætla sér slíkt.

Ég ætla að svara hv. þm. Barð. út af Geir Zoëga. Að ég tók hann sem dæmi, er engan veginn „kritik“ á hann, heldur gerði ég það vegna þess, að hv. þm. minntist á, að ef þessir ríkisstarfsmenn tækju aukalaun eins og þessi verðlaun, þá væri það rangt. Eins og ég veit að hv. þm. skilur af meðferð launal., er ekki hægt að halda því fram, að maður eins og Geir Zoëga hafi há laun, og ástandið er þannig nú, að ef Geir Zoëga eða Guðjón Samúelsson ætluðu að fá menn til sín, fá þeir enga, ekki einu sinni eftir ákvæðum nýju launal. Ef húsameistari ríkisins ætlaði að fá sér trésmið, getur hann ekki fengið hann fyrir það kaup, sem húsameistara ríkisins er ætlað að fá skv. þessum nýju launal. Þess vegna er það, án þess að ég sé að segja nokkuð illt eða gott um gamla venju, að duglegustu embættismennirnir, eins og t. d. Geir Zoëga, hafa haft aukavinnu, og allar stjórnir hafa talið það leyfilegt. Það hefur verið borgað fyrir þau eftir ákveðnum taxta og verður gert áfram, hvað sem launal. líður. Ég nefndi ekki Geir Zoëga af neinni gagnrýni, heldur af því, að hann er mikilvirkur embættismaður, og allir, sem líkt er ástatt fyrir, hafa haft aukatekjur á þennan hátt.

Ég álít, að það hafi verið vel til fundið af hv. 2. þm. Árn. að verja menntmn. og gefa hv. þm. Barð. nokkuð rökstudda áminningu fyrir þá sleggjudóma, sem hann hefur fellt í málinu.

Ég vil þá að síðustu benda á það, að það, sem einkennir þær n., sem hv. þm. Barð. er í, það er sú mikla vinna, sem lögð er í mörg mál í þessum n., og við, sem erum í menntmn., unnum þeim alveg sannmælis. Við viðurkennum dugnað þeirra og reynum ekkert að draga úr þeirra ágæti. En þótt n. hv. þm. Barð. séu ágætar, þá er menntmn. þó enn fremri í vinnubrögðum, eins og þegar falleg stúlka ber jafnan afbrýðisemi til annarrar stúlku, sem er álitin enn fallegri. Þetta er, að ég hygg, alveg nægileg skýring á þessu fyrirbrigði, að jafnvel svo mætur maður sem hv. þm. Barð. skuli hafa flaskað á þessu. Ég vonast eftir því, að borgarstjórinn í Reykjavík athugi gagnvart sínu starfsfólki þetta, sem hann hefur ekki skilið fullkomlega, að frv. var móðgandi og meiðandi með sínum aths. fyrir hans bæ eins og fyrir ríkið, og að hann sem borgarstjóri og bæjarráðsmaður hefði átt að reyna að bæta úr þessu. En nú spyr ég að síðustu: Vill hann láta þessa starfsmenn ríkisins, sem hann er yfirmaður hér á Alþ., láta fótum troða þeirra rétt? Vill hann láta spýta hugmyndum í Geir Zoëga með þessum ráðum, fyrst hann vill ekki láta sína menn fá slíkar sprautur? Hér er hann húsbóndi yfir ríkisbúinu, og ef hann með atkvæði sínu ætlar að setja þær hömlur á starfsmenn ríkisins, sem hann vill ekki setja á starfsmenn bæjarins, gerir hann þar upp á milli þessara aðila, og ég trúi ekki öðru að óreyndu en að hann muni sjá, að hann á ekki að gera upp á milli bæjarins og ríkisins, heldur sýna fullkomið réttlæti í báðar áttir.