13.09.1944
Efri deild: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

95. mál, loðdýrarækt

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Á síðasta Alþ. var frv. til 1. um bann gegn minkaeldi vikið frá umr. í Nd. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 116, og var málinu þar vísað til atvmrn. til athugunar og frekari aðgerða. Samkv. þessu hefur atvmrn. látið fara fram þá athugun, sem þetta lagafrv. er byggt á. Hefur þetta verið gert í samráði við fróðustu menn í þessu máli og sérstaklega í samráði við Kristin Briem á Sauðárkróki, sem af flestum er álitinn að hafa mjög gott vit á þessu máli og hefur sennilega náð mestum árangri í því starfi af mönnum hérlendis.

Aðalbreyt., sem frv. felur í sér, eru þessar: Í fyrsta lagi eru ákvæði um betri umbúnað, ákveðnar skyldur lagðar á herðar dýraeigenda að búa svo um dýrin, að síður sé hætta á, að þau sleppi úr búrum. Sett er eftirlit með þessu á annan hátt en áður var, þannig að landbrh. getur að fengnum till. loðdýraræktarráðunautar sett sérstaklega valda menn til eftirlits með öruggum útbúnaði loðdýragarða, því að vitað er, að loðdýraræktarráðunautur getur ekki komizt yfir það á þann hátt, að það reynist fullnægjandi. Síðan er lagt til, að sett séu miklu strangari sektaákvæði til að gera menn ábyrga fyrir hirðuleysi.

Í öðru lagi felur þetta í sér þá breyt., að Búnaðarfélagi Íslands er falin umsjón með framkvæmd loðdýraræktarlaganna. Búnaðarfélag Íslands hefur umsjón með öllum greinum landbúnaðarins nema loðdýraræktinni, og verður ekki séð, að ástæða sé til þess, að önnur regla skuli gilda um loðdýraræktina en aðrar greinar landbúnaðarins, því að loðdýrarækt er vissulega landbúnaður ekki síður en aðrar greinar, sem Búnaðarfélagið hefur með að gera. Er því lagt til, að Búnaðarfélagið ráði loðdýraræktarráðunautinn.

Í þriðja lagi er lagt til, að ríkinu sé heimilað að flytja inn loðdýr og reka loðdýrabú. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli, að það heppnist að fá góðan, hreinræktaðan stofn loðdýra, sem á heima við okkar loftslag og hægt er að búast við að fá af góð og verðmikil skinn, en á því veltur mest unt afkomu þessa rekstrar. Það hefur hingað til verið í höndum einstaklinga að flytja inn slík dýr, og hefur það gengið á ýmsu og reynslan orðið sú, að rn. þykir rétt að leggja til, að heimilað verði, að hið opinbera flytji inn dýr og reki slíkt loðdýrabú á kostnað ríkisins til þess að halda uppi fyrsta flokks dýrum, sem seld verði til bænda, er þessa atvinnu stunda.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, tel ég, að þetta allt mundi verða til mjög mikilla bóta fyrir þessa atvinnugrein. — Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að í lok þessarar 1. umr. verði málinu vísað til landbn. hv. d. og 2. umr.