17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. — Þetta frv. á þskj. 296 er flutt fyrir hönd hv. þm. N.-Þ. (GG), sem getur ekki setið á þingi sökum veikinda. — Sú eina breyt., sem í frv. felst frá eldri 1., er sú, að með þessu frv., ef samþ. verður, er ákveðið að reisa húsmæðraskóla á Akri í landi Skinnastaða í Norður-Þingeyjarsýslu.

Menntmn. hefur athugað þetta frv. og orðið ásátt um að mæla með því, að það verði samþ. eins og það liggur hér fyrir. — Reglan um löggjöf um húsmæðraskóla mun vera sú, að þeir hafa verið teknir upp í réttri röð, nokkurn veginn jafnóðum og undirbúningi heima fyrir hefur verið það á veg komið, að ástæða hefur þótt til að lögfesta skólastofnunina.

Eftir því, sem upplýst er í þessu máli, liggur það fyrir, að undirbúningur undir slíka skólastofnun á þessum stað er mjög langt kominn, þannig að það er yfirlýst, að samvinna hafi tekizt með kvenfélögum, hreppsnefndum og sýslunefnd um að hrinda málinu í framkvæmd. Almenn fjársöfnun hefur farið fram um alla sýsluna og hefur gengið svo vel, að telja má víst, að nægilegt framlag af héraðsins hálfu til stofnkostnaðar sé þegar fyrir hendi eða verði það a. m. k., þegar til þarf að taka. Og í erindi, sem Alþ. hefur verið sent út af þessu máli, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samband kvenfélaga í N.-Þingeyjarsýslu leyfir sér hér með fyrir sína hönd, sýslufélagsins og allra hreppsfélaga sýslunnar að beina til hins háa Alþ. eindreginni ósk um, að þingið taki inn á lög um húsmæðraskóla fyrirhugaðan húsmæðraskóla fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Hafa ofannefndir aðilar bundizt samtökum að stofna skóla þennan, þegar ástæður leyfa, að fenginni lögfestingu hans og þeirri þátttöku frá hinu opinbera, er lögfestingunni fylgir.“

M. ö. o., það er upplýst fyrir menntmn., að allur undirbúningur heima fyrir gagnvart þessari skólastofnun er þegar fyrir hendi. En eins og kunnugt er og oft hefur verið vitnað til í þessari hv. þd., starfar mþn. í skólamálum. Og það hefur þótt sjálfsagt á síðustu þingum að gæta mjög varúðar við því að afgreiða breyt. á löggjöf um skólamál, áður en álit þessarar mþn. lægi fyrir og án þess að til hennar væri leitað ráða um breyt. á slíkum l., sem fjallað hefur verið um í hvert sinn. Því til sönnunar má minna á það, að þegar hv. þm. í þessari d. fluttu till. fyrir ári um gagnfræðamenntun í landinu, sem átti að taka til athugunar gagnfræðapróf, þá var þeirri till. vísað frá að kalla umsvifalaust með þeim forsendum, að ekki væri tímabært að afgreiða það mál, þar sem mþn. í skólamálum sæti á rökstólum og ætti eftir að skila áliti. En þar sem ástæður um þessa einu skólastofnun í Þingeyjarsýslu eru eins og ég hef skýrt frá, taldi menntmn. ástæðulaust að fresta afgreiðslu þessa máls eftir till. mþn. og leggur því einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir. Staðurinn fyrir skólann er ákveðinn, og fé heima í héraði er þegar fyrir hendi, að því er upplýst er, og það hefur tekizt fullkomin samvinna um undirbúning og framkvæmd málsins heima í héraði milli allra þeirra aðila, sem um það fjalla.

En nú, eftir að menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og afgreiðslu og mælt með því fyrir sitt leyti, að það yrði samþ. óbreytt, þá hafa komið fram margar brtt. við frv., sem fjalla allar um að bæta við nýjum skólum. Fyrir þessum brtt. hefur ekki verið mælt af hálfu þeirra, sem þær flytja, svo að ég mun því ekki nú í þessum orðum taka þær sérstaklega til umr. En ég vil láta koma fram þá skoðun mína, að ég dreg í efa, að eins mikið ríði á að flýta setningu löggjafar um a. m. k. suma þá skóla, sem þar eru nefndir í þeim brtt., eins og um þennan skóla, sem frv. sjálft fjallar um.

En að síðustu vildi ég taka fram af hálfu menntmn. og leggja á það ríka áherzlu, að n. telur ástæðu til og óskar þess, að hún fái að f jalla um þessar brtt. allar á fundi, áður en til lokaatkvgr. verður gengið um þær. Og mætti það þá verða með þeim hætti að taka þær aftur til 3. umr., svo að menntmn. gæfist tóm til þess að athuga þær á milli umr. En verði tillögumenn ekki við þeim tilmælum, vildi ég beina því til hæstv. forseta, að hann frestaði þessari umr., svo að menntmn. gæti athugað brtt., áður en þær koma til atkvgr. hér í hv. þd.