12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

153. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Þegar l. um hafnarbótasjóð voru sett og síðan, hefur mér virzt sú skoðun vera ríkjandi, að þetta ákvæði í 4. gr., að ekkert megi greiða úr sjóðnum, fyrr en Alþ. setji nánari ákvæði um fjárveitingar úr honum, sé yfirleitt skilið svo, að sett skuli heildarlög um það, hvernig fé úr sjóðnum skuli varið.

Hv. flm. og hæstv. Alþ. hafa ekki ætlazt til, að sjóðurinn væri gerður að eyðslueyri til almennra hafnargerða í landinu með þeim hætti, sem venjulegt er. Það var til þess ætlazt, að þessu fé, sem er fullar 3 millj. kr., væri varið til að styrkja hafnargerðir, þar sem sérstaklega stæði á, og var jafnvel drepið á, að honum væri varið til að byggja svokallaðar landshafnir, en sú hugmynd hefur nokkuð rutt sér til rúms undanfarið, að á nokkrum stöðum, sem vel lægju við fiskimiðum, bæri ríkissjóði að kosta eina nauðsynlega hafnargerð á staðnum.

Nú skal ég ekki hafa fleiri orð um þennan tilgang l. um hafnarbótasjóð, en koma að því frv., sem hér liggur fyrir. Þar er gert ráð fyrir, að fé megi greiða úr ríkissjóði samkv. sérstökum l. í hvert sinn. Það er sem sé gengið á snið við þá hugmynd heildarlöggjafarinnar, sem .sett var, um hvernig fé megi verja úr sjóðnum. Ég vil því segja um þetta frv., að það er gagnstætt þeirri hugmynd, sem ég hef gert mér um það, með hverjum hætti fé sé varið úr þessum sjóði, og mér finnst einnig, að heppilegra hefði verið, að hv. mþn. í sjávarútvegsmálum hefði tekið afstöðu í þessu .efni, áður en slíkt frv. væri fram komið.

Ég hygg svo, að ég þurfi ekki á þessu stigi málsins að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Ég tel það mjög varhugaverða leið, sem farin er með því að ætla að breyta l. um hafnarbótasjóð á þann hátt, sem hér er lagt til.

Í sambandi við það mál, sem næst er á dagskrá, vil ég gera stuttar athugasemdir. Ég vona, að sjútvn. taki þetta mál til mjög náinnar athugunar, því að það er um mjög mikið prinsipatriði að ræða, hvort hafnarbótasjóð á að nota í þessu sérstaka augnamiði eða sem almennan eyðslueyri til almennra hafnarframkvæmda í landinu, sem sérstakar reglur hafa gilt um til þessa.