26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og hefur hún bætt við nokkrum stöðum, sem heppilegir eru fyrir húsmæðraskóla. Þessu var vel tekið í n., og hefur hún orðið sammála um að mæla með frv.

Það er sama reynslan alls staðar, að áhugi ungra kvenna er mikill á þessum skólum, og virðast íslenzkar konur kunna vel að meta þá. Það er því engin hætta frá því sjónarmiði, að allir þessir skólar munu verða nægilega sóttir. Því þarf hæstv. fjmrh. ekki að óttast, að þetta skapi honum erfiðleika, því að það er á valdi hans og ríkisstj., hve mikið fé verður veitt til þessa.

Ég ætla svo að fara nokkrum orðum um hvern þessara staða.

Fyrsti staðurinn, í Norður-Þingeyjarsýslu, er mjög skemmtilegur, rétt hjá Skinnastað, og er þar hið fegursta umhverfi og mjög hentugt fyrir skólabyggingar. .... .... .... .... .. .... .... .... .. .... .... Þessi unga stúlka, Ingibjörg Jóhannesdóttir, hefur verið á Staðarfelli í Dalasýslu og getið sér þar mjög gott orð. Bæði hún og Skagfirðingar munu gera sitt til, að þessi nýi skóli verði sem allra beztur. Það vill svo til, að jörðin, sem hún á, er mjög nærri Varmahlíð, og er auðvelt að leiða heita vatnið þaðan yfir ána á brú eða undir ána. Hins vegar þykir kostur að hafa húsmæðraskólann ekki á sama stað og héraðsskólann, heldur nærri honum. Ef þetta verður samþ., mun skólinn því ekki verða í Varmahlíð, heldur þar mjög nærri.

Næst er Snæfellsnessýsla. Það er skemmst frá að segja, að fyrirhugað skólasetur þar er ein frægasta og fegursta jörðin, sem við eigum, og er það mál bæði Snæfellinga og þeirra, sem ekki eru Snæfellingar. Fer vel á að reisa skólann á slíkum stað, og hafa Snæfellingar komið sér saman um, að á Helgafelli skuli rísa húsmæðraskóli. Það er grunur minn, að merkur Snæfellingur, sem á jörðina, ætli að láta hana hverfa með einföldum og ódýrum hætti til skólastofnunarinnar, en ekki mun það vera fullráðið.

Þá er komið að Suðurlandi. Þm. Rang. hafa farið fram á fé til skólastofnunar á mjög fallegri jörð, Skógum undir Eyjafjöllum, sem gefin hefur verið undir skólann. Þessi jörð er í þeirri sýslu, sem átti einu sinni skólann í Odda. Þessi sýsla hefur ekki fengið neinn framhaldsskóla og orðið fyrir því óhappi, að búnaðarskóla, sem átti að fara að setja þar, á að flytja burt. Þess ber að vænta, að þeir hv. þm., sem áttu þátt í að flytja búnaðarskólann burtu, sýni nú velvild sína til Rangárvallasýslu með því að styðja að stofnun húsmæðraskóla þar.

Þá hafa þm. Skaftfellinga átt þátt í að vinna að því, að Skaftfellingar fengju skóla í sína sýslu, og liggja til þess sömu rök og hjá öðrum sýslum, sem engan húsmæðraskóla hafa fengið og ég hef talað um, bæði Rangárvallasýsla, Snæfellsnessýsla og Skagafjarðarsýsla. Í samræmi við áður gerða ályktun heima í héraðinu er bent á Kirkjubæjarklaustur sem skólasetur. Sú jörð hefur verið höfuðból um aldaraðir, og er sjálfsagt, að skólinn verði reistur þar. En það eru ekki líkur til, að þessi skóli verði reistur strax, því að líklegt er, að héraðsskólinn verði látinn ganga á undan.

Þetta er eins konar fimm ára áætlun, ef svo mætti segja, en ég held, að ekki verði sagt um neinn þessara skóla, að honum sé ofaukið.

Ég vil taka það fram, að þessir skólar, húsmæðraskólar í sveitum, hafa haft mjög mikil áhrif. Ég held, að sá skóli, sem haft hefur einna mest áhrif, hafi verið í mínu kjördæmi, Suður-Þingeyjarsýslu. Margir þeirra, sem um sýsluna hafa farið, hafa gist þar, og um alla sýsluna sjást ýmis merki skólans. Ég nefni þennan skóla ekki af neinni fordild né af því, að hann sé fremri öðrum, heldur vegna þess, að hann er elztur og hefur starfað lengst. Ég held því, að það sé bezt að gera þessa fimm ára áætlun og láta framkvæmdasemi héraðanna og fjárhag landsins ráða, hve fljótt tekst að koma henni í framkvæmd.