06.03.1944
Efri deild: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Heilbr.- og félmn. hefur athugað mál þetta nokkuð, og var reynt að ná um það samkomulagi, en tókst ekki. Meiri hl. leggur til, eins og sést af nál. hans, að frv. verði samþ. með tveim breyt. Annars vegar skal bætt við læknishéraði á Eyrarbakka jafnframt því, sem frv. ákveður um aðsetur læknis á Selfossi. Hin breyt. er sú, að Hafnir tilheyri ekki Grindavíkurhéraði, heldur Keflavík, og Vatnsleysuströnd tilheyri læknishéraði Hafnarf jarðar. Minni hl. taldi ágreining um málið vera svo mikinn, að í óefni stefndi, nema allt yrði úr frv. fellt nema hin nýja skipun læknishéraða á Austurlandi.

Deilan um það, hvort skipta skuli læknishéruðum, sem eru ofvaxin einum lækni, eða fara aðra leið, er auðvitað mikið mál, eins og ljóst er af álitsgerð landlæknis. Mönnum þykir það e.t.v. rétt, eins og horfir, að ekki sé til neins að samþ. ný læknishéruð, þegar lækna skortir í héruð, sem fyrir eru. En það liggur öðruvísi í því máli en ætla mætti eftir orðum landlæknis. Rök hans mundu fá staðizt, ef læknaskortur væri í landinu. En um marga árátugi hefur það verið eitt af helztu áhyggjuefnum læknastéttarinnar, hve ör læknafjölgunin er. Ég held það hafi verið litlu eftir 1920, að Guðmundur Hannesson fór að skrifa um þetta, og voru þá gerðar kröfur um, að læknadeildinni yrði lokað eða inntökuhömlur settar. Læknum fjölgar æ meir og meir. En það einkennilega hefur orðið, að þeir hafa ekki fengizt til að fara út um land, þótt allt of margir séu nú í Reykjavík. Það er mál manna, að þeir, sem einu sinni séu komnir út í afskekktu héruðin, eigi þaðan af nær enga framavon, verði að sitja ævilangt eða um ærið mörg ár hver á sínum stað, og það geta ungir, framgjarnir menn illa sætt sig við. Þeir þurfa að geta átt von á að komast í betri læknishéruð í fyrirsjáanlegri framtíð. Ítrekaðar fullyrðingar hafa komið fram um, að þrátt fyrir gefin loforð heilbrigðisstjórnarinnar, að þeir skyldu færðir í betri héruð úr hinum örðugustu, hafi það ekki verið gert, misbrestur hafi orðið á efndum. Sé svo, er eðlilegt, að tortryggni hafi vaknað. Það hafa ekki losnað nógu mörg betri læknishéruð til þess að gefa heilbrigðisstjórninni tækifæri til að flytja lækna nógu ört milli héraða. Ef stofnuð yrðu ný héruð, sem ætla má, að eftirsóknarverð þyki, mundu þessir möguleikar rýmka verulega og heldur fást læknar, eigi aðeins í hin nýju héruð, heldur og í lakari héruð vegna aukinnar vonar um þau betri síðar. Læknafjöldinn í landinu er meir en nógur. Ein ástæðan fyrir því, að læknar fást ekki í hin örðugu héruð, er sú, hve þeir verða að vera þar lengi. Og eins og áður er sagt, er lausn þessa vandkvæðis undir því komin, að heilbrigðisstjórninni sé gert fært að láta þá hafa betri héruð, að hæfilegum tíma liðnum. Landlæknir leggur mjög á móti stofnun nýrra læknishéraða. En á fullyrðingum hans um þetta efni er ekki mikið að byggja. Landlæknir segir svo í athugasemdum við frv. þetta.

„Mætti vel svo fara, að Eyrarbakkahérað yrði á eftir ekki auðskipað, og er þá vafasamur ávinningur Eyrbekkingum að keppa að því, að héraðið verði klofið.“ En í bréfi, sem birt er í nál. frá minni hl., stendur skrifað af sama manni:

„Ég legg ekki gegn stofnun nýrra læknishéraða á Reykjanesi og í Árnessýslu með þeim rökum, að erfiðlega gangi að fá þau héruð skipuð“. — Þessar staðhæfingar stangast ónotalega, að því er mér virðist. Þá segir hann svo enn fremur:

„Er ég þannig ekki í neinum vafa um, að hin fyrsta, óhjákvæmilega afleiðing af stofnun læknishéraða á Reykjanesi og í Árnessýslu yrði sú að gera læknislaus um ófyrirsjáanlegan tíma tvö víðáttumikil læknishéruð, ef til vill samliggjandi, þar á landinu, sem engin leið er fyrir íbúana að ná til læknis úr fjarlægð. Ég legg að jafnaði ekki guðs nafn við hégóma, en ég bið nefndina lengstra orða að gæta guðs, samvizku sinnar og — með leyfi — heiðurs Alþingis og afstýra slíkum voða“. Það er augljóst af slíkum staðhæfingum sem þessum, að hér er eitthvað óhreint á ferðinni, og það væri æskilegt að heyra, hvað heilbrigðisstjórnin álítur um slíkar yfirlýsingar í embættisnafni. Þessum embættismanni nægja ekki læknavísindin og embættisskyldan, heldur hefur hann einnig guð í rassvasanum. Samkvæmt mannlegum útreikningi gæti maður hugsað sér, að hin öruggasta leið til að fá lækna út á land væri að bæta kjör þeirra og . gefa þeim nokkrar framavonir.

Þetta var nú um málið almennt. Varðandi einstök atriði þá eru það einkum þrjú héruð, sem um er deilt. Fyrst er það Suður-Snæfellsneshérað. Þm. Snæf. hefur áður lagt til, að þessu héraði yrði skipt, en þá með nokkuð öðrum hætti. Á síðasta sumri boðaði , landlæknir oddvita þessara hreppa á fund, og notar hann nú samþykkt þess fundar til að standa í vegi fyrir þessu máli. Raunar er það allt of auðséð, hvernig þessi fundarsamþykkt er til komin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar féllust þeir á, að ekki kæmi til mála stofnun læknishéraðs, einungis með þátttöku þessara tveggja hreppa. Í stað þess lögðu þeir áherzlu á, að flýtt yrði sem allra mest vegalagningu um Snæfellsnes,. þannig að vetrarvegir yrðu gerðir tryggir um Staðarsveit og Breiðavíkurhrepp til Stykkishólms og Ólafsvíkur.“ — Við skyldum þá ætla, að ekki stæði á landlækni að leggja þessa tvo vegi, en ef til vill gæti þó orðið bið á því.

Undanfarið hefur verið mikið rætt um vegasambandið milli Reykjavíkur og hinna þéttbyggðu sveita hér fyrir austan, og enn sem komið er er það óleyst vandamál. En þegar svo fer hér í þéttbýlinu, gæti maður ætlað, að dregizt gæti, að lagðir yrðu vetrarvegir yfir erfiða fjallvegi í hinum strjálbýlu sveitum. Og mundi þá ekki heppilegt að hafa þarna lækni, a.m.k. þangað til þessir vegir væru komnir. — Það er alveg augljóst, að landlæknir hefur fengið oddvitana til að sætta sig við tyllivonir í bili og falla frá kröfum sínum, gefið þeim steina fyrir brauð og mettað þá á froðu.

Það er ekki hægt að komast hjá því að undrast afstöðu landlæknis í þessu máli. Maður skyldi ætla, að hann hefði allan hug á að leysa vandræði fólks í þessum málum, en í stað þess tekur hann það ráð að vefjast fyrir og vinna málinu ógagn á allan hátt og gefur umsagnir, sem eru villandi og fullar af mótsögnum. — Það væri nógu fróðlegt að athuga þetta nánar, en ég geri það ekki frekar. Það er öllum vitað, að óskir manna á þessum stöðum fara í þá átt að fá lækni. Hér er skeyti, sem borizt hefur frá oddvita Staðarsveitar og hljóðar svo: „Mér er kunnugt um eindreginn vilja í Staðarsveit um stofnun læknishéraðs sunnan fjalls“. — Hvort sem þetta er nú nýr oddviti eða hann hefur endurskoðað hug sinn síðan í vor; þá er það víst, að þessi oddviti túlkar nú rétt vilja sveitunga sinna. Enn fremur ætti ekki að þurfa frekari rök fyrir vilja héraðsbúa en þau, að fulltrúi þessa héraðs ber það fram hér á Alþ., og meiri ástæða virðist til þess að byggja á ummælum hans en þessari fundarsamþykkt, þar sem landlæknir fær oddvitana til að falla frá kröfum sínum.

Næst er það Grindavíkurhérað. — Við leggjum til, að sérstakur læknir verði áfram í Grindavík, svo sem verið hefur nú um alllangt skeið eða síðan 1930, en þá mun honum hafa verið fengið þar aðsetur af hv. þm. S.-Þ. Það er eðlilegt, að Grindvíkingar uni því illa, að þessi embættismaður sé frá þeim tekinn. Það er viðurkennt af landlækni, að fleiri en einn læknir sé nauðsynlegur á þessu svæði. Það mun og vera ástæðan fyrir því, að hv. þm. S.-Þ. setti þennan lækni á sínum tíma í Grindavík. (JJ: Já, það var góð byrjun.) Já, það var góð byrjun , og í rétta átt. Á þeim tíma mun hafa verið praktíserandi læknir í Keflavík. Það var því heppilegra og eðlilegra að setja hinn lækninn niður í Grindavík, og enn hníga hin sömu rök að skiptingu þessa héraðs. Eitt af því, sem landlæknir færir fram gegn því, að þessum héruðum verði skipt, er það, hversu þau verði fámenn. En sannleikurinn er sá, að mörg héruð eru fámennari. Í Suður-Snæfellsneshéraði voru 1942 677 íbúar og í Grindavíkurhéraði 500, en 1942 eru í Reykhólahéraði 494 íbúar, Flateyjarhéraði 429, Reykjafjarðarhéraði 545, Höfðahverfishéraði 605, og svo mætti lengur telja. Og nú leggur heilbrigðisstjórnin sjálf til, að stofnað verði fámennara hérað á Austurlandi, eða með rúmum 300 íbúum. Ég hlustaði ekki mikið á umr. um mál þetta í Nd., en ég held þó, að ég hafi heyrt hæstv. forsrh. benda á þetta hérað sem sérstaklega æskilegt fyrir aldraðan mann, sem væri of gamall til að sinna störfum í erfiðu héraði. Hið sama gæti þá að minni hyggju gilt um Grindavíkurhérað, og sá háttur að hafa nokkur héruð við hæfi slíkra manna gæti án efa átt snaran þátt í að fá lækna út á land.

Þá er hér loks lagt til, að Selfosshéraði verði skipt í tvennt. — Það er eftirtektarvert, hvernig þetta er rökstutt í grg. ríkisstj. Þarna eru þrjú þéttbýl byggðasvæði auk landbúnaðarhéraða. Landlæknir viðurkennir að vísu, að eðlilegt sé, að Eyrbekkingar séu á móti þessari breyt. Hins vegar þykir honum Stokkseyringar hafa lítið til síns máls. Kemst hann í því sambandi svo að orði: „Mæla kunnugir, að á læknissókn Stokkseyringa til Eyrarbakka annars vegar og að Selfossi hins vegar sé bitamunur, en ekki fjár“. — Virðist mér, að slík ummæli ásamt öðrum staðhæfingum þessa embættismanns séu fremur sprottin af embættishroka en sanngirni og þekkingu. Stokkseyringar þekkja sjálfsagt betur aðstæður hjá sér en fjarlægur embættismaður, starfandi á skrifstofu í Reykjavík. Sveitarstjórnin á Stokkseyri hefur og mótmælt fullyrðingu landlæknis og á ef til vill eftir að gera það frekar.

Ég hef hér og gögn nokkur frá hv. 2. þm. Árn. viðvíkjandi vilja Eyrbekkinga í þessu máli. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir alþingiskjósendur í Eyrarbakkahreppi færum yður, herra alþingismaður, okkar bezta þakklæti fyrir till. yðar og tilraunir til að skipta núverandi Eyrarbakkalæknishéraði í tvennt með læknissetri á Eyrarbakka og á Selfossi, og skorum jafnframt á yður að halda áfram, þar til fullnaðarsigur er fenginn í málinu. Undirritað af eitt hundrað og tuttugu kjósendum“.

Ég verð satt að segja að viðurkenna, þótt ég meti embætti mikils, að ég met svo eindreginn vilja fólksins í slíku máli sem þessu meir en vafasamar yfirlýsingar landlæknis.

Þá má einnig minnast á það, að mér hefur borizt útskrift úr fundarbók Framsóknarfélags Eyrarbakka, en það hélt fund 29. febr. 1944. Þar var borin fram svohljóðandi ályktun, er hljóðar þannig með leyfi forseta:

„Fundur í Framsóknarfélagi Eyrarbakkahrepps, haldinn 29. 2. 1944, lýsir ánægju sinni yfir fram kominni tillögu Eiríks Einarssonar alþm. um skiptingu Eyrarbakkalæknishéraðs í tvö læknishéruð, og treystir fundurinn þingmönnum héraðsins til þess að halda fast og ákveðið á því máli, þar sem héraðið, eins og það er nú, er að áliti núverandi . héraðslæknis ofviða fyrir einn lækni.

Þá lítur fundurinn svo á, að meðferð þessa máls sé mjög einkennileg og óvanaleg, þar sem um er að ræða að flytja læknissetrið úr þéttbýlasta hluta héraðsins í annan stað, fólksfærri, þá er þess að gæta, að hér við sjávarströndina — og hana ekki hættuminni en hún er hér á Eyrarbakka og Stokkseyri — virðist ekki ónauðsynlegt, að unnt sé að ná í lækni fljótlega, ef sjávarslys ber að höndum.

Að „þungamiðja héraðsins“ sé flutt upp að Selfossi, viljum við ekki rengja, en hvað sem því líður, viljum við halda því hiklaust fram, að við hér á Eyrarbakka og Stokkseyri höfum sama rétt og áður, hvað læknissetrið snertir“.

Útskrift þessi er vottuð af Teiti Eyjólfssyni og Magnúsi Oddssyni.

Ég veit nú ekki, hversu margir eru í þessu félagi, — vona, að það sé ekki mjög fjölmennt, — en það eru góðir menn, sem þarna hafa skrifað undir og menn í trúnaðarstöðum, sem þekkja vel, á hverju þarf að halda á þessum slóðum.

Það, sem ég vildi að lokum sérstaklega vekja athygli á, er það, að landlæknir, sem skrifar þessa merkilegu álitsgerð, telur í öðru orðinu, að of lítið sé af læknum í landinu, en í hinu orðinu lofar hann Eyrbekkingum og Keflvíkingum aðstoðarlæknum. Til þess skortir ekki læknana. Munurinn er þá sá, að landlæknir vill gera unga læknakandídata að aðstoðarlæknum í þéttbýlinu og varna þeim þar með þess að setjast að í dreifbýlinu. En við hugsum okkur, að eðlilegra sé að segja við kandídatana: Farið fyrst út í erfiðustu og afskekktustu héruðin, og svo skuluð þið fá þau góðu á eftir. — Með því móti eru stofnaðar margar sjálfstæðar og góðar stöður handa læknum, sem þeir hafa til að keppa eftir. Ef ég temdi mér orðbragð hv. 3. landsk. þm., mundi ég segja, að skv. till. landlæknis ætti að hafa ungu læknana til þess að arðræna fyrir meiri háttar læknaburgeisa. Er sannast sagt vont að sjá önnur rök fyrir till. landlæknis en þessi. Landlæknir segir að vísu, að skv. till. sínum geti læknar sameinað sig betur um sjúkraskýlin, en ég verð þá að segja það, að læknar eru mjög ósamvinnufúsir, ef héraðslæknar geta ekki komið sér saman um að verða hvor öðrum til hjálpar, þegar líf liggur við, og hef ég ekki séð öllu þyngri ásakanir í garð læknastéttarinnar en þessar fullyrðingar landlæknis. Mér sýnist því, hvernig sem á mál þetta er litið, að hér sé um sanngirnismál að ræða fyrir það fólk, sem hér á hlut að máli, og að því sé hægt að treysta, sem það sjálft leggur til.

Það er ekki enn þá kominn öruggur vetrarvegur yfir Snæfellsnes, og er öruggara að treysta óskum héraðsbúa um, hvernig að þeim sé búið, þangað til þar að kemur, heldur en skrifstofumanni í Reykjavík. Og þó að það kynni að vera svo í fyrstu, að ekki fengist læknar í þessi umdæmi, sem ég skal þó ekkert um segja, og ég hygg, að heilbrigðisstj. ætti að geta fengið þá, ef rétt er á þessum málum haldið, án þess þó ég vilji liggja henni á hálsi fyrir, að það hafi ekki tekist fram að þessu, þá er þó engu spillt með því, þótt þessi embætti væru stofnuð.

Að stríðinu loknu er ráðgert, að heim komi 20 til 30 læknar frá Norðurlöndum, og þá gæti fólk í þessum héruðum þangað til unnið að því að koma. upp læknabústöðum og búa þannig í haginn fyrir væntanlega lækna. Og jafnvel þótt allar hrakspár landlæknis hefðu við rök að styðjast, er það engu að síður skylda að verða við óskum almennings, svo að löggjafarvaldið láti ekki á sér standa um að bæta að þessu leyti úr neyð fólksins.