30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Páll Hermannsson:

Það er einkum út af þessari rökst. dagskrá, að ég vildi segja nokkur orð.

Ég get fallizt á það, að um suma þá skóla, sem ákveðnir eru með frv. þessu, mætti kannske segja, að hálfgerður óþarfi væri að taka þá með, að því leyti, að ég geri ekki ráð fyrir, að komið sé svo nálægt því, að byrjað verði að reisa þá. Þó get ég lýst yfir því, að ég mun fylgja frv. þessu og einnig brtt. á þskj. 967. Það geri ég fyrst og fremst vegna þess, að ég álít, að sumir þessara skóla, sem hér er verið að ákveða, að heyra skuli undir l. um húsmæðrafræðslu í sveitum, séu svo langt á veg komnir um allan undirbúning, að bagalegt sé að láta þau atriði dragast lengur.

Þess vegna mun ég bæði fylgja frv. og brtt. við það, að mér finnst t. d., að skólinn í N.-Þingeyjarsýslu sé svo vel undirbúinn, að það eigi að gefa honum tækifæri til þess að byrja á starfi sínu. — Brtt. mun ég fylgja vegna þess, að ég álít hana sanngjarna í samanburði við margt annað, sem í frv. stendur.

Mér skilst nú, að þessir húsmæðraskólar séu ákveðnir 13 að tölu, ef brtt. þessi verður samþykkt. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort hér sé fundin heppilegasta leiðin. Það gætu kannske sumir talið, að þeir væru sums staðar fullþéttir, t. d. skólinn á Helgafelli og Staðarfelli og Reykhólum eða skólinn á Kirkjubæjarklaustri og við Skógafoss, rétt vestan við sýslumörkin. Komi það í ljós í framkvæmdinni, að svo sé, mun það verða leiðrétt.

Að öðru leyti vil ég þakka mjög þær undirtektir, sem ég hef heyrt viðvíkjandi því, hve þýðingarmikið það er að ala upp og manna húsmæðurnar tilvonandi. Það er orð í tíma talað og sannmæli, að framtíð þjóðarinnar veltur líklega á fáu meir en því, hvernig húsmæðurnar eru vaxnar sínu þýðingarmikla starfi, bæði hvað snertir uppeldi barna og fjármál heimilanna. Og út frá því vil ég vekja athygli á því, að húsmæðraskólalögin hafa núna nýlega gengið inn á það, að ríkið legði fram 3/4 af stofnkostnaðinum, en viðkomandi hérað ¼. Hins vegar ákveða húsmæðraskólal. skólunum ákveðnar rekstrartekjur frá ríkinu eftir nemendafjölda. Það mun láta nærri núna, að húsmæðraskóli, sem hefur 30 nemendur, — og það eru margir skólanna, og hefur 7 mánaða skólavist svo og 6 vikna námskeið að vorinu, hann fái með öllum uppbótum nálægt 40 þús. kr. frá ríkinu. Það, sem á vantar, þarf hann að fá á annan hátt. Það hafa skólarnir reynt að gera með því að knýja á sýslufélögin, sumir með því að hafa eitthvað upp úr húsakosti sínum til gistihúsahalds á sumrin og máske einhverjir með skólagjaldi frá nemendum.

Nú vil ég vekja athygli á því hér, að ég tel alveg víst, að eftir því sem skilningur landsmanna vex á þýðingu þessara skóla, hljóti að koma fram krafa um, að ríkið reki þessa skóla. Og hvers vegna ætti ríkið ekki að reka þessa skóla eins og bændaskólana? Er starf húsmóðurinnar þeim mun þýðingarminna? Mér þykir ekki ólíklegt, að héruðin sýni vilja til verksins með því að greiða einhvern hluta stofnkostnaðar, svo sem verið hefur, en hins vegar má búast við, að ríkið verði að reka skólana sjálft, ekki sízt þegar þeim fjölgar, því að það gæti orðið þungbært fyrir sum héruðin að bera skólana uppi, þegar svæðið verður minna, sem að skólunum stendur. Menn verða að gera sér ljóst, að kennslukraftarnir við svona skóla verða alltaf að vera miklir vegna þess, hve verkleg kennsla er mikil.

Það er gert ráð fyrir 13 skólum samkv. frv. og brtt. Ég vil benda á, að t. d. í Múlasýslunum báðum, og þar við mætti bæta A.-Skaftafellssýslu, er aðeins einn skóli. Ég veit ekki, hvað verður ofan á í framtíðinni. Ég hef orðið var við, að heppilegt væri talið að hafa skólana heldur stærri og færri. Sú skoðun hefur m. a. gert vart við sig vegna þess, að menn hafa fundið, að það þarf meira en húsakost og peninga til þess að reka skólana vel, það þarf líka hæfa skólastjóra og kennara. Þetta má náttúrlega kenna mönnum. Þó er nokkuð af þeim hæfileika meðfætt, og það er vandfenginn forstöðumaður og forstöðukona fyrir skóla.

Þetta eru nú svona hugleiðingar um málið, en ég mun fyrir mitt leyti styðja að því, að frv. verði samþykkt tafarlaust, og það geri ég sérstaklega vegna þess, að mér finnst t. d. skólinn í N.-Þingeyjarsýslu svo vel undirbúinn, að vegna hans megi ekki draga lengur að samþykkja þetta frv. Og vel getur staðið svo á um fleiri.