13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

129. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Það er nú þegar áliðið kvölds og menn því eigi eins upplagðir til ræðuhalda og ella. Það má segja, að landbn. hafi verið nokkuð sein á sér með þetta mál, og mun ástæðan til þess að nokkru leyti vera sú, að reynt var til hins ýtrasta innan n. að , fá sameiginlegt álit um málið, en það tókst eigi og kom í ljós, að afstaða nefndarmanna var mjög á reiki.

Í frv. um jarðræktarframkvæmdir er reynt að koma skipun á um jarðræktun eða nýræktir og að koma þar á sem fullkomnastri tækni, svo að vinnan verði eins ódýr og hægt er. Og ætti frv. þessu að vera borgið, eftir undirtektunum í hv. Nd. að dæma. — Þetta frv. fer fram á, að þeir bændur, sem eigi hafa ræktað land, sem nemi 600 hesta heyskap, fái styrk til þess að ná því takmarki. Það er oft rætt um það hér, að mikið fé sé veitt til ræktunar. Það má til sanns vegar færa, en þó ber að athuga, að aðrar þjóðir, sem hafa betri aðstæður en við, hafa undanfarið varið miklu fé til nýræktunar og nýbyggingar, t. d. á Norðurlöndum, Englandi og í Bandaríkjunum. Það er og réttmætt, að frumræktunin komi ekki eingöngu á þá einstaklinga, sem að henni starfa, og verður ríkið því að hjálpa, þegar um slíkt er að ræða. Nú hefur landbn. falið Pálma Einarssyni að gera samanburð á vinnukostnaði þeim, sem við þetta verður, og styrk þeim, sem er veittur með jarðræktarlögunum. Hann hefur lagt til grundvallar annars vegar þau tæki, sem nota þarf, og svo kauptaxta þann, sem gildir í Árnes- og Rangárvallasýslum. Nýræktunin í þeim styrktarflokki, sem hæstur er, nemur um 1/4 hluta ræktunarkostnaðarins, en svo fer styrkurinn lækkandi, því nær sem dregur að því takmarki, sem keppt er að. Nú fer frv. fram á að hækka þetta um 100% eða þannig, að styrkurinn verði rösklega helmingur kostnaðarins. Það eru ýmsar orsakir til þess, að menn hafa dregizt aftur úr með ræktun, t. d. þar, sem góð engjalönd eru, en þar þarf að hefjast fyrst handa með sléttun þeirra engja, en hjá hinum þarf mikið átak til þess að koma búskapnum í það horf, að fullkomin vélanotkun komi til greina, því að það er nú vitað, að án fullkominnar vélanotkunar í þágu landbúnaóarins stenzt framleiðslan ekki samkeppni við aðrar þjóðir. Það er því grundvöllur landbúnaðarins að gera landið fært beztu vinnuvélum, sem völ er á. Það er margra manna mál, að eigi megi dragast að gera verulegt átak til að koma landbúnaðinum í það horf, að hann verði rekinn með vélum eftir því sem frekast er unnt.

Og að því er stefnt í þessu frv., að þetta geti náðst á næstu 10 árum.

Ég vil ekki ræða hér um mismunandi trú manna á landbúnaðinum sem atvinnuvegi samanborið við sjávarútveginn.

Ég get ekki kvartað um undirtektir samnefndarmanna minna í landbn., þótt ég hefði heldur kosið að málið væri afgreitt í því formi, sem það nú er í. Ég tel það eðlilegra, þótt ég telji það hins vegar ekki frágangssök að fylgja þeim tillögum, sem fram hafa komið.

Ég held, að bezt fari á að láta ríkið framkvæma alla ræktunina. Ég álit miður heppilegt að láta einstaklingana framkvæma hana, en láta ríkið borga kostnaðinn. Menn athuga betur kostnaðinn, ef menn eiga sjálfir að standa undir honum en ef aðrir eiga að greiða reikninginn.

Þótt ég teldi eðlilegra og kysi heldur, að frv. yrði samþ. óbreytt, eins og það var lagt fram, mundi ég samt hiklaust fara inn á þá leið, sem brtt. bendir á, heldur en að hætta á, að málið dagaði uppi. Annars held ég, að ekki sé mikill hagur að því fyrir ríkissjóð, ef brtt. verður samþykkt, en yfirleitt er heldur lítið farið inn á kostnaðarhliðina bæði í frv. og brtt.

Ég vildi óska eftir þeim upplýsingum frá hæstv. landbrh., hvort formið hefði meira fylgi meðal þeirra, sem hér ráða úrslitum, og er ég þá fús að fylgja þeim till., sem brtt. fela í sér, ef þær hafa meira fylgi.

Um 6. lið frv. vil ég taka það fram, að það segir sig sjálft, hvað felst í greininni. En til að taka af öll tvímæli ætti að athuga þetta, ef frv. verður lagt til grundvallar fyrir afgreiðslu málsins. Ég býst við, að brtt. taki nokkurn veginn út yfir það, sem fyrir tillögumönnunum vakir. Þar er veitt svipað til ræktunar túna, og ætlazt mun til, að bráðabirgðaákvæðin standi óbreytt.

Ég held, að erfitt geti verið að ákveða, hvað sé nýrækt og hvað sé gamalt tún, þegar svo hagar til, sem oft vill verða, að nokkur hluti sléttunnar er í túnjaðri og nokkur hluti út frá túninu. En vel getur verið, að takast megi að finna leið til þess.

Ég vil endurtaka þá ósk, að hæstv. ráðh. láti mér í té vitneskju um, hvor tillagan, sem ég áður drap á, muni hafa meira fylgi almennt, og mun ég þá haga mér eftir því.

Ég skal þá minnast á till. hv. þm. A-Húnv. um að fella niður 17. grein jarðræktarlaganna. Það vill nú svo til, að sams konar till. hefur legið fyrir hv. Ed. og hefur fengið afgreiðslu þar. Vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkuð upp úr nál. Þar segir svo:

„Á Alþingi 1942–1943 var borið fram í Ed. frumvarp nákvæmlega samhljóða því, er hér liggur fyrir. Var það afgreitt frá deildinni með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem telja verður eðlilegt og rétt, að ákvæði um styrk úr ríkissjóði til stofnunar nýbýla, til endurbygginga sveitabýla og ákvæði 17. gr. jarðræktarlaganna verði öll athuguð og umbætt samtímis, svo fljótt sem verða má, til þess að tryggja betur en nú er gert, að nefnd ákvæði nái tilgangi sínum, og þar sem jafnframt verður að telja eðlilegt, að búnaðarþingi gefist kostur á að láta Alþingi í té álit sitt og tillögur um slíkar breytingar, telur deildin ekki ástæðu til frekari afgreiðslu málsins á þessu þingi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Á búnaðarþingi 1943 var mál þetta til meðferðar, og samþykkti þingið með 23 samhljóða atkvæðum tillögu þá, sem frá er greint í bréfi milliþingan. búnaðarþingsins, er prentað er sem fylgiskjal hér á eftir. En bréf þetta er svar við bréfi landbúnaðarn., þar sem beðið var um álit milliþinganefndarinnar á frv.

Með tilliti til þess, sem áður hefur gerzt í málinu, og með tilvísun til samþykkta Alþingis og búnaðarþings legg ég til, að frv. verði afgreitt með svolátandi“ (rökst. dagskrá).

Síðar í sama þingskjali stendur:

„Þar sem búnaðarþingið er þeirrar skoðunar, að leið sú, sem farin var með ákvæðum 17. gr. jarðræktarlaganna og ákvæðum byggingar- og landnámssjóðslaganna um fylgifé jarða, muni ekki ná upphaflega fyrirhuguðu marki, að halda niðri söluverði jarða, ályktar búnaðarþingið að fela milliþinganefnd þess í landbúnaðarmálum að athuga jarðasölumálið og leggja fram tillögur um, hvernig hægt sé að halda jarðaverði við hóf í náinni framtíð.“

Hvað sem segja má um gagnsemi eða skaða 17. gr. jarðræktarlaganna, vil ég, þar sem mþn. hefur málið til athugunar, að búnaðarþinginu gefist kostur á að taka ákvörðun sína í því efni.

Ég, sem er einn í n., tel mig ekki geta tekið afstöðu fyrr en búnaðarþingið hefur látið uppi álit sitt. Ég mun ekki fara að karpa um málið, og mun hvorki greiða atkv. með né móti till.