02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

145. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég hef nú hlustað á hæstv. ráðh. og verð ég að segja það, að að því leyti, er snertir þá ágalla, sem eru á ýmsum stöðum í iðnaðinum, þá er ég ekki sammála með sams konar niðurstöður og hæstv. ráðh.

Við skulum gæta að því, að það, sem hér er nú komið betur í dagsljósið, er ekki búið til í gær og ekki heldur á þessu ári. Það er afleiðing af stefnu í þessum málum, sem hefur verið tekin í öfuga átt við eðlilega þróun.

Og mér er næst að minnast, hve erfitt hefur verið að koma hér unglingum að iðnnámi á undanförnum árum, fyrir 1930. Þá átti ég hlutdeild í því að koma ungum mönnum úr Vestmannaeyjum í iðnnám hér í Reykjavík einmitt í járnsmíðaiðn. Og hvað annan þeirra snerti, þá var ég að glíma við það í fjögur ár að koma honum á verkstæði. En forstjórar Héðins og Hamars voru reiðubúnir að taka við þeim piltum, en það voru sveinafélögin, sem settu þrepskjöld fyrir, að það dugði til að bægja honum frá. Hann er nú fyrir löngu orðinn sveinn. En í þessu einstaka tilfelli tók það fjögur ár.

Í öðru tilfelli, sem ég hef haft líka með að gera, lukkaðist mér á þremur árum að koma pilti í járnsmíðanám. Ég drep á þetta sem dæmi um það, hvað meinsemdin er gömul. Verkanir hennar eru að koma alvarlega í ljós í þjóðfélaginu og sýna sig í þeim skorti á faglærðum mönnum.

Nú hef ég alls ekki sagt, að það út af fyrir sig, að samþ. frv., sem hér liggur fyrir, sé allra meina bót í þessu efni. Það er miklu frekar borið fram til þess að vekja athygli hæstv. Alþ. á því ástandi, sem nú er í þessum efnum. Og við flm. teljum það mikla bót á þeim mikla galla á ríkjandi ástandi, sem nú er í þessum efnum, ef frv. næði samþykki þingsins. En ég vil engan veginn leggja á móti því, að iðnlöggjöfin verði endurskoðuð, og get að því leyti tekið undir með hæstv. ráðh., að það sé gert hið fyrsta. En ég vil þá benda á það, að nú ranka menn fyrst við sér og fara að tala um, að það þurfi að fara að endurskoða iðnlöggjöfina, þegar þetta frv. er borið fram, og þá halda þeir, að það sé borið fram til þess að hlynna að atvinnurekendum, sem er bláber vitleysa, og ég mótmæli því algerlega. Þetta frv. er ekki borið fram fyrir neinn annan aðila en unglingana, sem langar til að komast að í iðngrein, en er meinað það af sveinafélögunum. Og í nýafstöðnum verkföllum munu sveinafélögin hafa komið með kröfu um að þrengja enn þá meir aðgang að iðngreinum. Ég hef sannorðan mann fyrir því. En þær kröfur náðu ekki fram að ganga það sinn. Og ekki sízt er þetta frv. fram komið til þess að útiloka þessa útilokun unglinga frá námi af nokkrum mönnum, sem eru af tilviljun innan þessara sveinafélaga.

Svo hlaupa þessir menn til og bera það á þm., sem halda fram rétti þeirra, sem til þeirra hafa leitað, vegna þess að þeim er meinað að undirbúa sig undir lífið á heiðarlegan hátt, að þeir séu að vinna aðeins fyrir atvinnurekendur. Ég veit ekki, hvar er meiri þörf á að rýmkað sé eitthvað til en einmitt fyrir hinni uppvaxandi kynslóð.

Ég býst við, að þeir, sem nú eru búnir að koma fótum undir sig í atvinnurekstri, rjúki ekki um koll, þó að rýmkað sé til eins og frv. þetta fer fram á.

Það sýnir bezt, hvernig l. eru um iðnaðarnám og hvernig menn yfirleitt líta á þau, að yfirvöldin hafa ekki séð sér fært að framfylgja þeim, þar sem allt of margir nemar munu vera í Reykjavík miðað við núgildandi löggjöf.

Ég vísa algerlega á bug þeim aðdróttunum, að þetta frv. sé fram komið af nokkrum öðrum hvötum en þeim að greiða úr því ófremdarástandi, að því er snertir aðgang að iðnaði í landinu fyrir þá ungu menn, sem hann vilja læra.

Í einstaka iðnaði er það svo, að bili eitthvað á heimilum, þá vita menn, að ekki eru nokkur tök á að fá það lagfært nema með löngum tíma. Það mætti nefna margar iðngreinar, t. d. rafmagn, þar sem slíkt ástand ríkir; bili eitthvert rafmagnstækið, þurfa menn að bíða mjög lengi, þangað til rafvirkinn má vera að því að líta á það. Það kemur fram í því ástandi, sem ég hef lýst.

Hæstv. ráðh. gerði hér talsverða bragarbót á því a. n. l., sem hér er um að ræða, að því leyti, að hann lofaði því, að endurskoðun á þessari löggjöf skyldi fara fram. Það er í sjálfu sér gott og blessað, að hæstv. ráðh. lofaði því. En ég fyrir mitt leyti vildi óska þess, að hæstv. ráðh. vildi þá lýsa yfir því, að ef fallizt væri á, að niður félli nú barátta um þetta mál hér í hv. þd, þá yrði framkvæmd endurskoðun á löggjöfinni svo tímanlega, að frv. um þetta yrði lagt fyrir næsta þing. Og málið er ekki stærra en svo, að með góðum vilja ætti hæstv. ríkisstj. að geta komið fram endurskoðun á l. fyrir næsta þing og lagt fram slíkt frv. á næsta þingi. Það mundi horfa öðruvísi við fyrir mínum augum, ef þessu væri lofað af hæstv. ríkisstj., en ég get ekki svarað í þessu efni fyrir meðnm. mína. Því að, eins og ég áður sagði, vil ég alls ekki mæla á móti því, að það sé fleira í þessari iðnlöggjöf, sem lagfæringar þurfi við, heldur en þetta atriði, sem ég hef talað um. En í hinu atriðinu læt ég ekki undan síga um, að útilokunin og ófrelsið í þessum efnum verður að hverfa. Hvort það hins vegar verður á þessu þingi eða á næsta ári, er ekki aðalatriðið fyrir mér. Og mér þætti vænt um að heyra álit hæstv. samgmrh. um það, hversu fljótt þetta mætti verða.