25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

153. mál, hafnarbótasjóður

Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að kasta mér út í stórskotahríðina út af þessu máli, en af því að margt hefur blandazt inn í, vildi ég gjarnan gera grein fyrir því með örfáum orðum, hvers vegna ég hef leyft mér að skrifa undir nál. meiri hl. og vera meðflm. að brtt., sem fylgja því á þskj. 842. Það, sem mér virðist í raun og veru bera á milli, er það, hvort valdið yfir fjárveitingunum skuli vera hjá Alþ. eða ráðherra. Þegar um fjárveitingar er að ræða, held ég, að ekki geti verið nokkur ágreiningur meðal þm., að valdið eigi að vera hjá Alþingi. Ég man ekki til, að nokkurn tíma hafi komið fram till. um að veita til hafnargerða, brúargerða, vegagerða eða neinna slíkra framkvæmda ákveðna heildarfjárhæð, sem ráðh. úthluti til ákveðinna staða. (Samgmrh.: Þetta var áður gert til hafnarbygginga.) Jú, en eins stórfellt eins og þetta er nú, held ég, að slíkt komi ekki til. Það hefur verið úthlutað eftir áliti samgmn. til flóabáta, það er alveg satt. En hér er um svo stórfelldar fjárhæðir að ræða, að ég er ekki með, að Alþ. afsali sér valdi yfir þeim. Það er um það að ræða, hvort raunverulega sé um lánsstofnun að ræða, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á. Og mér fannst hann snerta aðalatriðið. Er verið að gera hafnarbótasjóð að lánsstofnun til staða, sem vilja flýta sínum hafnarframkvæmdum, eða er ekki verið að því? Ég get ekki komið auga á annað en að hér sé a.m.k. ákaflega óvenjuleg lánsstofnun, þar sem lánveitandi, en ekki lántakandi, á að borga lánin, a.m.k. að forminu til. Annars held ég, að naumast sé hægt að segja, að þessi stofnun sé lánsstofnun. Ég gæti hugsað mér að fela ráðh. eins konar bankastjóravald yfir lánsstofnun. En ég get ekki kallað lánsstofnun, þar sem lánveitandi borgar lánin, en ekki lántakandi, en svo er það hér. Hann borgar sjálfur á þremur árum.

Þá er eftir það í þessu frv., sem gæti réttlætt að kalla sjóðinn lánsstofnun, að samanlögð upphæð til ákveðinna hafnarbóta megi ekki fara fram úr hlutfalli, sem ákveðið er í hafnarlögum hvers staðar. Hversu mikið sem ráðh. nú kynni að veita úr hafnarbótasjóði til einhvers hafnarvirkis, verður framlag ríkisins ekki hlutfallslega hærra en vera ætti. Líta því sumir svo á, að hér sé ekki um annað að ræða en það, að ráðh. færi valdið til og flýti hafnarbótum á ákveðnum stöðum fram yfir aðra staði. En við að velta þessu máli fyrir mér get ég ekki annað séð en fjárveitingarvaldið lendi í höndum ráðherra. Því að þegar Alþ. veitir fé til hafnarbóta, gerir það ekki annað en það að velja úr staði, sem það vill flýta fyrir. Verkefnin eru svo stórkostleg fram undan og kalla að. Ég álít, að Alþ. eigi að hafa þetta hlutverk. Og það er praktiskara að vinna meira verk á einum stað í einu en að píra smáfjárhæðum til margra staða. Og það ber einmitt að nota hafnarbótasjóðinn í þessu skyni. En það álit mitt, að Alþ. eigi að úthluta þessu, hefur ráðið atkv. mínu í n. og um brtt. Hins vegar má búa um þetta í fremur frjálsu formi, eins og líka brtt. gengur út frá, og megi ákveða með hvaða greiðslumála hver einstök fjárveiting sé veitt. Ég held þess vegna, að ef brtt. verður samþ., verði málið að vísu að sumu leyti bundið, en að sumu leyti talsvert frjálsara en eftir frv. eins og það er nú.