11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Þær umr., sem hér fara fram, fjalla um frv. það til dýrtíðarráðstafana, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. Sökum þess, að dýrtíðarmálin varða miklu alla afkomu þjóðarinnar og lausn þeirra getur mótað til góðs eða ills lífið í landinu næstu árin, er líklegt, að umr. þessar komi víða við. Aðeins róleg og hleypidómalaus athugun á málinu frá ýmsum hliðum getur gert mönnum fyllilega ljóst, í hvert öngþveiti stefnir og hversu óvenjuleg nauðsyn er á því, að snúið verði við á þeirri braut, sem nú er haldið.

Sum blöðin hafa látið í ljós undrun yfir því, að stj. hafi óskað eftir útvarpsumr. um mál þetta, áður en flokkarnir hafi tekið ákveðna afstöðu til málsins eða það hafi verið gerathugað í þingnefnd. Stj. fór fram á það við flokkana fyrir nærri tveim vikum, að þeir létu uppi afstöðu sína til frv. fyrir 10. þ. m. Ekkert svar hefur komið. Flokkarnir hafa haft dýrtíðarmálin til athugunar nú í nærri tvö ár. Engar till. hafa frá þeim komið. Nú finnst stj. tími til kominn, að flokkarnir geri hreint fyrir dyrum sínum í þessu máli og skýri þjóðinni frá, hvernig þeir ætli sér að leysa það.

Hver dagur, sem nú líður, færir nýjar sannanir fyrir því, að lok styrjaldarinnar í Norðurálfu séu í nánd. Hvort um vopnahlé verður samið eftir viku eða mánuð, getur líklega enginn sagt, en þeir, sem bezt þekkja til þessara mála og sjálfir hafa þræðina í hendi sér, munu vera þeirrar skoðunar, að um næstu jól muni styrjöldinni lokið í álfunni.

Hér á landi getur fáum dulizt, að allt atvinnulíf landsmanna hefur undanfarin fjögur ár mótazt og vaxið vegna beinna áhrifa styrjaldarinnar. Þensla atvinnuveganna hefur orsakazt af óvenjulegri eftirspurn, sem styrjaldir jafnan skapa, um vörur og vinnukraft. Þegar ófriðurinn hættir, fellur niður hin óvenjulega eftirspurn, vegna þess að þörfin minnkar, en um leið hlýtur ofþenslan að fjara út.

Þjóðin er eins og skipverjar á litlum seglbáti. Meðan stormurinn varir, eru seglin þanin, og báturinn þýtur áfram, en þegar aftur lygnir, fer vindurinn úr seglunum og skipverjar verða að fara að róa, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Ef svo er, að allt atvinnulíf vort hefur undanfarið verið mótað af áhrifum ófriðarins, þá er það bein og eðlileg afleiðing, að miklar breyt. hljóta því að verða, þegar þessara áhrifa hættir að gæta. Lok ófriðarins hljóta því að marka mjög ákveðin og áhrifarík þáttaskipti í atvinnumálum landsmanna, og þjóðin þekkir ekki sinn vitjunartíma, ef hún áttar sig ekki á þessari staðreynd nógu snemma.

Til þess að fá heildarmynd af því, hvernig dýrtíðarmálin standa nú og hvernig aðstaða atvinnuveganna er í því sambandi, er nauðsynlegt að fara nokkuð aftur í tímann. — Í ársbyrjun 1940 stóð vísitalan í 112, en á því ári hækkaði hún um 30 stig. Árið 1941 hækkar vísitalan enn um 35 stig. Er því hækkunin þessi tvö ár mjög svipuð hvort árið og frekar hægfara. Í árslok 1941 er vísitalan 177 stig. Hefði á þessum tímamótum verið tekið rösklega og af einbeitni í taumana, eins og flestum var þá ljóst, að þörf krafði, hefði að líkindum verið hægt að forðast þá miklu verðbólgu, er síðar varð. Á árinu 1942 tók skriðan hins vegar að renna fyrir alvöru, og er lítill vafi á, að hin pólitísku átök og áhrif tveggja kosninga, sem urðu á því ári, áttu ekki óverulegan þátt í því, að svo varð. Á árinu hækkaði vísitalan um 95 stig, en 50 stig af þeirri hækkun koma fram af verðhækkunum, sem fram fóru í mánuðunum sept.—nóv., aðallega á kjöti og mjólk. Í des. 1942 var vísitalan komin upp í 272 stig.

Enginn vafi er á því, að verð landbúnaðarvara, sérstaklega á kjöti og kartöflum, hefur verið sett of hátt um haustið 1942. Þá hækkaði kjöt úr kr. 4,10 upp í kr. 7,75, mjólk úr kr. 1,21 í 1,57 og kartöflur úr kr. 60,00 upp í kr. 85,00 í heildsölu. Hagstofan hefur reiknað út, að samkvæmt grundvelli sex manna n. hefði verð á kjöti haustið 1942 átt að vera 3,59 til bænda, en þeir fengu kr. 5,21, sem meðalverð á Suðurlandi. Kartöfluverðið hefði átt að vera kr. 64,50, en varð um kr. 85,00. Samkv. þessu hefur Hagstofan enn fremur reiknað út, að hefðu landbúnaðarafurðir 1941 og 1942 verið verðlagðar samkv. nefndum grundvelli, þá hefði vísitalan í des. 1942 átt að vera 242 í stað 272 stig. — Þau mistök, sem hér virðast hafa orðið, stafa af því, að við verðlagningu afurðanna var enginn mælikvarði að fara eftir í því skyni að halda réttu hlutfalli milli afurðaverðs og vinnulauna. Þess vegna var verðsetningin matsatriði hverju sinni með þeim árangri, sem nú var getið. Út af þessu hafði raunverulega myndazt kapphlaup milli afurðaverðs og vinnulauna, sem enginn gat séð fyrir, hvernig enda mundi, ef ekki yrðu settar skorður við slíku kapphlaupi með frjálsum samningum eða lagaboði.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum 16. des. 1942, var vísitalan 272 stig, eins og áður er sagt. Verðlagið innanlands var að miklu leyti að fara úr reipunum, og viðbúið var, að hver hækkunin mundi reka aðra. Með sérstökum bráðabirgðaráðstöfunum var verðlagið stöðvað, og í byrjun ársins 1943 lækkaði vísitalan nokkuð vegna fjárframlaga úr ríkissjóði til verðlækkunar. Ríkisstj. lagði þá fram í þ. frv. um dýrtíðarráðstafanir. Flestum er enn í fersku minni, hvernig þingið fór með það frv., og hirði ég ekki um að rekja þá sögu hér. Þingið vék sér undan því að gera nokkrar raunhæfar aðgerðir gegn verðbólgunni. En upp úr þessu spratt starf sex manna n. og sá grundvöllur, sem hún setti um verðlag landbúnaðarafurða. Þessi grundvöllur, þótt gallaður sé, kom að vísu festu í verðlagningu afurðanna, en hann orsakaði jafnframt hækkun á verðinu og gerði stórum erfiðari en áður baráttuna við dýrtíðina. Grundvöllur sex manna n. styrkti mjög aðstöðu framleiðenda landbúnaðarvara, en eins og hann er lagður, hindrar hann það, að verðlagið geti breytzt nema á tiltölulega löngum tíma. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa það hugfast, að grundvöllurinn stendur ekki lengur en ófriðarástandið varir. — Á miðju ári 1943 hafði vísitalan komizt niður í 245 stig. En vegna verðhækkunar, sem stafaði af samkomulagi sex manna n., og öðrum ástæðum, hækkaði vísitalan í lok ársins upp í 266 stig. Síðan hefur hún haldizt nokkuð stöðug með fjárframlögum úr ríkissjóði.

Þetta er í fáum dráttum gangur málsins. Enn þá hefur ekkert verið gert af hendi þingsins til þess að stöðva vöxt dýrtíðarinnar varanlega. Ríkisstj. hefur haldið verðbólgunni í skefjum í nærri tvö ár, aðallega með verðlagsráðstöfunum og fjárframlögum. Þingið hefur ekki treyst sér til að svipta stj. heimild til slíkra ráðstafana, en sumir flokkar þess hafa gert stj. allan þann óleik, er þeir hafa mátt. Mundu þó margir ætla, að það væri sameiginlegt áhugamál allra þjóðhollra manna að koma í veg fyrir hinar örlagaríku afleiðingar verðbólgunnar.

Nú stendur þjóðin á nýjum vegamótum í þessu máli. Ný verðhækkun á landbúnaðarvörum stendur fyrir dyrum, og nú verður að fara að hugsa fyrir því að létta af ríkissjóði þeim miklu útgjöldum, sem hann notar nú til að standa á móti flóðbylgju dýrtíðarinnar. Samkv. útreikningi Hagstofunnar hækkar vísitala landbúnaðarins um 9,4 stig.

Samkv. hinu nýja verði landbúnaðarvara er talið, að útsöluverð á kjöti, mjólk og kartöflum ætti að vera sem hér segir:

Kjöt ………. kr. 9,90 kg, er nú kr. 6,50

Mjólk …...... kr. 1,76 l, - - - 1,45

Kartöflur …. kr. 1,54 kg, - - - 0,80

Af þeim mismun, sem er á kjöti og mjólk, greiðir ríkissjóður nú til verðlækkunar kr. 1,90 fyrir kg af kjöti og 16–18 aura fyrir lítra af mjólk. Hinn mikli verðmunur, sem er á kartöflum, stafar af því, að undanfarið misseri hafa erlendar kartöflur verið seldar á 80 aura kg. Er það nær helmingi lægra verð en innlendu kartöflurnar eiga að kosta.

Fjárframlag ríkissjóðs til verðlækkunar er áætlað, að muni nema nú um einni millj. kr. á mánuði fyrir kjöt og mjólk. Þetta fjárframlag lækkar vísitöluna kringum 14 stig. Ef engum fjárframlögum væri beitt, ætti vísitalan raunverulega að vera nú 280 stig í stað 266. Hækkunin, sem kemur 15. sept. á kjöti og mjólk og kartöflum, má ætla, að hækki vísitöluna um allt að 17 stig. Af þessu er hækkunin á kartöflunum einum rúmlega 7 stig. Um 5 stig af þessari hækkun munu koma fram í vísitölunni fyrir september. — Ef hætt verður greiðslum úr ríkissjóði 15. sept. og þessar afurðir verða seldar samkv. framangreindri verðlagningu, mun vísitalan verða um 297 stig. Við það mundi svo bætast eftir einn til tvo mánuði frekari hækkun, er mundi sækja á með miklum þunga. Það er ekki auðvelt að áætla, hversu mikið mundi kosta ríkissjóð að greiða niður alla þessa hækkun á vísitölunni, en ég gæti trúað, að til þess þyrfti yfir tvo tugi millj. yfir árið eða allt að 2 millj. kr. á mánuði. Engum getur dulizt, að slíkt mundi ríkissjóði gersamlega ofviða til lengdar.

Landbúnaðarvísitalan nýja kemur til framkvæmda 15. sept., ef ekkert er gert fyrir þann tíma, sem hindrar verðhækkunina á einn eða annan hátt.

Ríkisstj. er ljóst, að hún hefur skyldu til að leggja til málanna það, sem hún telur nauðsynlegt til þess að forðast öngþveiti í þjóðfélaginu, en hins vegar er það á valdi Alþ., hvort till. hennar ná fram að ganga eða hvað gert verður í málinu. Verði ekkert gert, er það ekki hennar sök.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er hvorki stórt skref né miklar aðgerðir. En það er stöðvun. Það ætti að geta stöðvað frekari vöxt verðbólgunnar og hindrað, að sú þróun, sem nú virðist ætla að sprengja öll bönd og liða sundur fjármála- og atvinnukerfi landsins, geti haldið áfram.

Ég skal með fáum orðum geta helztu atriða frv. Uppistaðan í því er þreföld: í fyrsta lagi lækkun á verði landbúnaðarafurða um 10%; í öðru lagi lækkun á dýrtíðaruppbót allra, sem laun taka í landinu, í hlutfalli við lækkun á verði afurðanna; í þriðja lagi skattur á þá, sem eignazt hafa mikið fé á ófriðarárunum.

Til þess að setja sem sterkastar skorður við aukningu verðbólgunnar, er ákvæði um það, að dýrtíðaruppbót megi aldrei reikna með hærri vísitölu en 270. Ef framfærsluvísitalan fer hærra, greiðist engin dýrtíðaruppbót með því, sem fram yfir er. En til þess að hindra það, að vísitalan fari langt upp fyrir 270, er svo ákveðið, að verð landbúnaðarvara skuli lækka í réttu hlutfalli við þá skerðingu, sem launþegar verða fyrir vegna hámarksbindingar vísitölu í sambandi við kaupgreiðslu.

Heimilað er, að ríkissjóður haldi áfram greiðslum til verðlækkunar til áramóta. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir, að þær falli alveg niður. Við það mun vísitalan hækka, en þá kemur til framkvæmda ákvæðið um, að verðlag afurðanna lækki í hlutfalli við þá skerðingu, sem launþegar verða fyrir. Eftir því, sem næst verður komizt, mundi vísitalan að líkindum hækka um áramótin um allt að 20 stig eða upp í 286, en lækkun á afurðaverðinu, sem næmi um 6%, mundi lækka vísitöluna ofan í 279, og í námunda við það mundi hún að líkindum stöðvast.

Samkv. 5. gr. frv. skal engin dýrtíðaruppbót greidd af kauphækkunum, sem fara fram á tímabilinu 1. sept. 1944 til 1. júlí 1945. Er þetta ákvæði sett til að hindra nýjar kauphækkanir, því að þær stefna að aukinni verðbólgu og vinna því öfugt við tilgang frv.

Þá er eftir að minnast á þann hluta frv., sem fjallar um eignaraukaskattinn. Þetta er skattur, sem allir flokkar hafa tjáð sig fúsa að samþykkja. Þess vegna er hann nú hér borinn fram í því skyni að jafna metin í sambandi við þær byrðar, sem mönnum eru lagðar á herðar með frv. Ég skal fúslega játa það, að hér er um mjög óvenjulega skattlagningu að ræða, sem ekki getur komið til mála að framkvæma nema undir mjög óvenjulegum kringumstæðum. Ef bændur og launþegar verða að taka á sig nokkra byrði til þess að stöðva rýrnun krónunnar, þá virðist ekki ósanngjarnt, að þeir, sem grætt hafa mikið fé vegna ófriðarástandsins, fé, sem nú er í hættu vegna verðbólgunnar, leggi nokkuð af mörkum til tryggingar afkomu almennings eftir stríðið. Skatturinn verður engum ofviða og snertir ekki nýbyggingarsjóði fiskiflotans. Hversu miklu hann nemur, er ekki auðvelt að segja um nákvæmlega, en eftir því, sem næst verður komizt, mun hann nema um 11–12 millj. kr. Lagt er til, að skatturinn verði allur notaður til tryggingar afkomu almennings eftir stríðið með því, að stofnaður verði með honum sjóður, er nefnist atvinnutryggingarsjóður og ráðstafa má aðeins af Alþ. með sérstökum l. um atvinnutryggingar í landinu. Sjóðurinn yrði því hin fyrsta undirstaða slíkra trygginga, sem ættu að verða einn þátturinn í skipulagningu vinnunnar og baráttunni gegn atvinnuleysi eftir stríðið. Það hlýtur að verða eitt af höfuðverkefnum þjóðfélagsins á næstu árum að útrýma óttanum við skort og örbirgð með því að veita einstaklingunum öryggi fyrir sæmilegri lífsafkomu.

Þessu frv. verður vafalaust fundið margt til foráttu og um það deilt, hver af þeim aðilum, er frv. snertir, beri verstan hlut frá borði. Það er hin smáborgaralega hlið málsins. Ef menn vildu líta á það, hvað þjóðinni í heild er fyrir beztu, þá mundu flokkssjónarmiðin hverfa. Ég hef ekki gert ráð fyrir því, að ekki væri hægt að benda á galla eða annmarka á frv. Það gengur að ýmsu leyti skemmra en ríkisstj. hefði kosið. En engum mun það ljósara en hv. þm. sjálfum, hversu miklum erfiðleikum er bundið að leggja fram dýrtíðartill., sem enginn flokkur hefði nokkuð út á að setja. Þess vegna geng ég þess ekki dulinn, að till. verða harðlega gagnrýndar af talsmönnum flokkanna á þann hátt, að hver mun verja hagsmuni þess, er hann telur sinn umbjóðanda, og benda á veilur frv. í því ljósi. Ég vænti þess, að einhver þeirra taki málstað þess aðilans, sem mest á í húfi, þjóðarheildarinnar.

Ég býst við, að bent verði á það sem megingalla frv., að ekki séu settar öruggar skorður gegn hækkun grunnkaups og að launþegum sé innan handar að knýja fram hækkun á grunnkaupi sínu til þess að gera að engu skerðingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Ef svo færi, mundi byrðin lenda eingöngu á framleiðendum. Þessu er því til að svara, að stj. mun fús til að breyta 5. gr. frv. á þá leið, að öll kauphækkun sé bönnuð frá 1. sept. 1944 til 1. júlí 1945 og að verkföll, sem hafin eru í því skyni að gera að engu þetta ákvæði, séu ólögleg. Ef þingið vill setja þetta inn í frv. til þess að bæta úr göllum þess, þá mun það ekki gert að deiluefni af hendi stj. Ef þingið hikar við að setja inn þetta ákvæði, þá virðist lítil ástæða til að ásaka stj. fyrir að hafa látið það undir höfuð leggjast.

Annars vil ég benda á það, að þótt launþegar vildu bregðast sinni þegnlegu skyldu um þátttöku í aðgerðum gegn dýrtíðinni, þá eru talsverðir örðugleikar á því, er til framkvæmdanna kemur. Í fyrsta lagi mundi slíkur skortur á félagsþroska og þegnskap verða fordæmdur af almenningsálitinu og skapa stórkostlega mótstöðu gegn slíkum kauphækkunum. Í öðru lagi þyrftu launþegar nálega að þrefalda kröfur sínar á við það, sem nú er framborið, vegna þess að hin nýja grunnkaupshækkun tæki ekki dýrtíðaruppbót. Slík hækkun á grunnlaunum yrði ekki auðfengin undir þessum kringumstæðum, nema menn geri ráð fyrir, að verkalýðsfélögin hafi þessi mál svo í hendi sér, að þau geti einhliða ákveðið allt kaupgjald í landinu. Slíkt vill víst enginn viðurkenna, enda væri þá allt unnið fyrir gýg, er stefnir að lækkun framleiðslukostnaðar.

Þótt ég hafi orðið nokkur fjölorður um þetta atriði, er það ekki af því, að ég hafi nokkurn tíma efazt um, að verkamenn og aðrir launþegar sýni ekki jafnmikinn þegnskap og aðrir í baráttunni við dýrtíðina, ef þeir eru sjálfráðir og geta látið skoðun sína í ljós. Slíkt vantraust væri óverðskuldað, því að það gæfi til kynna, að þeir stæðu öðrum mönnum að baki um þjóðhollustu. Slíkt væri mjög fjarri sanni.

Sumir halda því fram, að frv. sé kúgunarlög á hendur verkalýðnum, gerð í þeim tilgangi einum að skerða laun hans. Það er venjulega auðvelt að þyrla moldviðri upp í kringum alvarleg málefni, svo að sumir menn missi alveg sjónar á kjarna málsins. Sú kaupskerðing, sem hér er um að ræða, er engin kúgunartilraun, enda mundi hún ekki miklu valda í þá átt. Hún er aðeins liður í ráðstöfunum til að stöðva hina hættulegu þróun dýrtíðarinnar, sem aðeins getur endað í langvarandi atvinnuleysi, ef ekkert er að gert og hún er látin halda áfram. Þetta er framlag verkamannsins til þess að tryggja það, að atvinnan geti haldizt, til þess að tryggja afkomuna fyrir sig og sína, í stað þess að láta upplausnarástand vaxandi dýrtíðar stöðva atvinnutækin. Hið raunverulega kaup verkamannsins byggist ekki á tölu krónanna, sem hann fær, heldur á gildi þeirrar krónu, sem honum er greidd. Framlag verkamannsins, sem áður er greint, hindrar verðlækkun krónunnar, þeirrar krónu, sem honum er greidd í laun. Í þessu sambandi tala sumir um fórn. Hver mundi kalla það fórn af manni, sem hefur ofhlaðið skip sitt, að kasta út litlu broti af farminum til þess að ná landi heilu og höldnu með það, sem eftir er, í stað þess að láta allt fara í kaf.

Það má snúast á tvennan hátt gegn vandamáli verðbólgunnar. Það má gera það á þann hátt, sem stj. stefnir að, með því að minnka verðbólguna og þannig hækka gildi krónunnar, auka kaupmátt hennar og gildi hins sparaða fjár í landinu. Það er einnig hægt að gera það með því að fella gengi krónunnar og þannig lögfesta verðbólguna og þá rýrnun sparifjár, sjóða og trygginga, sem nú er orðin. Slíkt væri að kippa stoðunum undan þeim fjárhagsgrundvelli, sem þjóðin byggir nú á. Hin síðari leiðin er auðveldari í framkvæmdinni eins og jafnan, þegar slegið er undan og gefizt upp. Það er hægara að fljóta undan straumnum en synda á móti honum. Að fella gengi krónunnar væri ekkert annað en uppgjöf, uppgjöf þreyttra og ráðlausra manna. Gengisfelling til þess að gera framleiðsluna samkeppnisfæra yrði skammgóður vermir. Með einu pennastriki væri kaupgjaldið í landinu lækkað um þriðjung, ekki í krónutölu, heldur að verðmæti. Allar innfluttar nauðsynjar mundu hækka að sama skapi í verði. Verkamaðurinn mundi fá sömu krónutölu og áður, en maturinn, fatnaðurinn, eldiviðurinn mundi kosta miklu fleiri krónur en áður. Sparifé almennings mundi verða lítils virði, — opinberir sjóðir sömuleiðis. Tryggingarfé, sem fjöldi manna hefur lagt til hliðar á langri ævi, mundi fara sömu leiðina. Ef um er að ræða þær tvær leiðir, sem ég nú hef nefnt, þá getur engum skynsömum manni við nánari athugun dulizt, að vér eigum að synda á móti straumnum í þessu efni og sigra erfiðleikana. Gengisfall í stórum stíl, eins og nú standa sakir, væri þjóðarógæfa, það væri uppgjöf og vonleysi, vesallegur flótti frá ábyrgðinni og gæfi frið, meðan gengið væri frá öskunni til eldsins.

Þetta frv. er aðeins stöðvun, eins og áður er fram tekið. Og þjóðinni er brýn nauðsyn, að stöðvun geti nú orðið. Rekstrarkostnaður framleiðslunnar og allt verðlag í landinu er að komast út í öfgar. Vér seljum í dag fiskafurðir vorar fyrir hátt verð, en um næstu áramót, eftir aðeins hundrað daga, getum vér búizt við, að samningar falli niður og verð afurðanna fari stórum lækkandi. Um leið og verðið lækkar, verður rekstrarkostnaður útgerðarinnar að lækka í réttu hlutfalli, til þess að atvinnuvegurinn geti haldið í horfinu. Ef söluverð aflans er ekki nægilegt til þess að standa straum af kostnaðinum við framleiðsluna, stöðvast reksturinn mjög fljótlega, þangað til jafnvægi er náð milli framleiðslukostnaðar og söluverðs. Það er vonlaust til lengdar fyrir einstaklinga eða þjóð að afneita þessum staðreyndum Menn geta alveg eins afneitað flóði og fjöru og sagt, að aldrei fjari út.

Vér verðum einnig að gera oss grein fyrir því, að samkeppni á fiskmarkaðinum getur komið, fyrr en nokkurn varir. Hugsanlegt er, að eftir 1–2 mánuði fari að berast fiskur á markaðinn í stórum stíl frá löndum, sem nú eru lokuð. Einnig er ástæða til að ætla, að vegna breyttrar hernaðarafstöðu sé nú verið að útbúa skip til fiskveiða í stórum stíl, sem til þessa hafa verið bundin við hernaðinn. Fullyrt er, að nokkrar gerðir hinna smærri varðskipa séu þannig útbúin, að hægt sé að breyta þeim í fiskiskip með stuttum fyrirvara. Það verður því að hafa það hugfast, að afkoma útgerðarinnar getur breytzt mjög skyndilega og áður en langt um líður. Ef rekstrarkostnaðurinn í landinu verður enn látinn vaxa stórum og verðlagið hækka mikið með því að gefa verðbólgunni lausan tauminn, þá fjarlægjumst vér stöðugt það mark að geta haft atvinnu fyrir alla þjóðina eftir stríð. En vér nálgumst með óhugnanlegum hraða það ástand, að atvinnugreinarnar geti ekki staðið undir kostnaðinum, með því að enginn vilji greiða það verð, sem þær þurfa að fá.

Verkfall er nú í iðnaðinum, vegna þess að krafizt er hærri launa, sem enn mundi hækka verð iðnaðarvaranna. Þó eru þær flestar í miklu hærra verði en sams konar erlendar vörur. Smjörlíki er hægt að flytja inn frá Ameríku, greiða af því 30% toll og selja það á sama verði og hið íslenzka er selt nú. Íslenzk veiðarfæri eru allt að því 25–30% dýrari en erlend. Dúkar og skófatnaður stenzt ekki samkeppni við sams konar erlendar vörur þrátt fyrir háan verðtoll. Húsgögn eru hér allt að helmingi dýrari en innflutt þrátt fyrir hátt flutningsgjald og 50% verðtoll.

Í járniðnaðinum er einnig verkfall, og skipaviðgerðir hafa stöðvazt. Ástæðan er krafa um hærri laun. Þó er vafasamt, að skipaviðgerðir séu nokkurs staðar í heiminum jafndýrar og hér.

Undanfarið hefur íslenzkum járnskipum gengið betur en áður að fá viðgerðir í Bretlandi, og viðgerðarkostnaðurinn er þar aðeins lítill hluti af því, sem hann er hér. Eitt skip fékk þar nýlega viðgerð, er kostaði um 10 þús. kr., en mundi að líkindum hafa kostað hér 40 þús. kr. Þegar stríðinu er lokið, má búast við, að hvert skip, sem þess óskar, geti fengið viðgerð í brezkum skipaverkstæðum. Á sömu stundu hlýtur mestöll viðgerð járnskipa að hverfa úr höndum íslenzkra járniðnaðarmanna, vegna þess að kostnaðurinn er kominn úr hófi fram. Þó er enn farið fram á að hækka hann. Það mun sannast hér hið fornkveðna, að skamma stund verður hönd höggi fegin.

Hvert tonn í tréskipum, sem hér eru smíðuð, kostar nú um 10–11 þús. kr. Það er líklega helmingi hærra en það, sem hæst er annars staðar. Ef Íslendingar yrðu að kaupa fiskiskip slíku verði eftir stríðið, þá mundi vélbátaútvegurinn fljótlega verða að leggja árar í bát.

Það, sem ég hef nú talið, eru aðeins fá dæmi um það, hvernig íslenzk iðja og framleiðsla er komin vegna hins mikla framleiðslukostnaðar, sem er bein afleiðing dýrtíðarinnar. En þótt þetta sé napur sannleikur, þarf enginn að undrast, að svona er komið. Ef vér berum saman aðstöðu nágrannaþjóðanna, þeirra sem Íslendingar hafa mest skipti við eftir stríðið, er ljóst, að framleiðslukostnaður þeirra kemst hvergi í námunda við kostnaðinn hér á landi. Síðan í ófriðarbyrjun hefur verðlag hækkað í Bretlandi um 29 stig, í Bandaríkjunum um 25 stig og í Svíþjóð um 54 stig. En hér á landi er hækkunin 166 stig. Getur nokkrum dulizt, hvaða erfiðleika Íslendingar eiga fyrir höndum, ef þeir fá ekki skilið í tíma, að atvinnuvegir þeirra eru háðir viðskiptalögmáli umheimsins?

Þessar þjóðir, sem ég nefndi og haldið hafa verðbólgunni í skefjum, hafa gert það á svipaðan hátt og núv. ríkisstj. hefur framkvæmt eða lagt til. En það, sem hér skilur á milli feigs og ófeigs, er, að þessar þjóðir hófu aðgerðir sínar strax í byrjun verðbólgunnar, í stað þess, að hér var það ekki gert að nokkru ráði, fyrr en ástandið var orðið lítt viðráðanlegt. — Í Bretlandi var þegar í byrjun ófriðarins sett á strangt verðlagseftirlit, og jafnframt var verð lækkað með framlagi úr ríkissjóði. Framlag ríkissjóðs í þessu skyni er talið nema nú um 200 millj. £ árlega, en það eru um 113 kr. á hvern íbúa á ári. Það samsvarar, að hér á landi væri varið rúmlega 14 millj. kr. til verðlækkunar á ári. — Í Bandaríkjunum hefur verið beitt líkum aðferðum. Hámarksverð hefur verið sett á landbúnaðarafurðir sem aðrar vörur, og talsvert fé hefur verið greitt úr ríkissjóði til verðlækkunar, þótt ekki liggi fyrir tölur í því efni.

Í Svíþjóð hafa verklýðsfélögin og samband atvinnurekenda gert samninga um, að ekki skuli greidd full dýrtíðaruppbót á laun. Vegna vísitöluhækkunar, sem nú er 54 stig, fá verkamenn nú aðeins 21% hækkun á laun sín í stað 54%, ef full uppbót væri greidd. Fer þetta eftir föstum en nokkuð margbrotnum reglum. — Hér á landi má slíkt ekki heyrast nefnt og er talið kúgun, ef fram er fært. Svíarnir hafa þó sýnt öllum heiminum, að þeir kunna að stýra búi sínu. Hér veltur í rauninni allt á því; að verkamenn og launþegar á Íslandi sýni sama skilning og félagsþroska og verkamenn Svíþjóðar. Auk þessa voru í Svíþjóð settar mjög strangar reglur um vöruverð og sett bann við ýmiss konar hækkun, þótt kostnaður hækkaði.

Verkföllin, sem nú dynja yfir, eru pólitískir beinverkir í fjármálasjúku þjóðfélagi. Allir vita, að núverandi ástand í atvinnumálunum getur ekki staðið til lengdar, en þrátt fyrir það er haldið áfram að spenna bogann, meðan hann brestur ekki. Þetta er einn þátturinn í kapphlaupinu um skiptingu gæðanna, kapphlaup, sem þreytt er án fyrirhyggju. Sanngjörn og eðlileg skipting afrakstrar atvinnuveganna er sjálfsögð, en hún getur aðeins byggzt á því, hvað atvinnuvegirnir gefa af sér. Þeir eru háðir sama lögmáli og hænan, sem verpti gulleggjunum. Ef þeir fá að starfa í friði og með eðlilegum hætti, flýtur gullið frá þeim út til þjóðarinnar. En sé þeim slátrað, er hætt við, að fljótlega verði þröngt í búi.

Sumir munu nú ef til vill segja, að óþarfi sé að vera með þennan barlóm, því að þrátt fyrir aðvaranir og hrakspár undanfarin tvö ár hafi allt gengið vel og velgengnin hafi aldrei verið meiri en nú. Er því nokkur ástæða til að ætla, að farsældin geti ekki enn haldið áfram að vaxa, þótt dýrtíðinni séu engar skorður settar?

Eftir síðasta ófrið var ástandið í Bandaríkjunum ekki ósvipað því, sem hér er nú. Af völdum ófriðarins streymdi gullið þangað, og verðbólga magnaðist. Hin falska velgengni var meiri en nokkurn tíma hafði áður þekkzt. Þjóðin var farin að trúa, að velsældinni væru engin takmörk sett, og menn hlógu að þeim, sem vöruðu við ástandinu. Á nokkrum dögum hrundi spilaborgin, og þá hófst fjárhags- og atvinnukreppa hin mesta, sem heimurinn hefur séð til þessa. Í Ameríku varð eitthvert hið mesta fjárhagshrun, sem komið hefur þar, og leiddi af sér almennar þrengingar og atvinnuleysi.

Það verður sama lögmálið, sem endurtekur sig hér með nokkrum öðrum hætti vegna ólíkra staðhátta, en með svipuðum árangri, ef ekki verður tekið í taumana nógu snemma.

Verðfall á íslenzkum afurðum og framleiðsluvörum hlýtur að koma, þegar friður er fenginn og viðskiptin leita í eðlilegan farveg. Þess vegna eru þau átök, sem nú eru gerð um hækkun launa og þar með alls framleiðslukostnaðar, eins og glíma við skuggann sinn. Þessi átök geta ekki fært nokkrum aukinn hagnað raunverulega, vegna þess að sjálft ástandið, hin óumflýjanlega rás viðburðanna, hlýtur að þurrka slíkt burtu. Vér getum að sjálfsögðu sett hvaða verð, sem oss sýnist, á eigin afurðir og vinnu, en vér höfum ekkert vald til þess að skipa nokkrum að greiða þetta verð. Þess vegna er streitan til einskis. Hún fer í bága við lögmál viðskipta og atvinnu. Atvinnugreinarnar geta ekki borið kostnaðinn. Þeim, sem nú herða róðurinn í þessu efni, fer eins og manni, sem sáir vorkorni sínu að hausti. Sáðkornið þolir ekki breytingu árstíðanna, og það gefur enga uppskeru. Svo verður um allar kauphækkanir, sem nú kunna að bætast við kostnað vorrar ósamkeppnishæfu framleiðslu. Þær gefa enga uppskeru, bera engan ávöxt vegna þeirrar breytingar á ástandinu í heiminum, sem nú stendur fyrir dyrum og ekki verður umflúin, en vér fáum ekki við ráðið.

Það gengur því brjálæði næst og væri fjörráð við framtíðarheill þjóðarinnar, ef nú ætti að láta allan framleiðslukostnað í landinu stórhækka, nokkrum vikum áður en rás viðburðanna gefur merki um lækkandi verð á öllum sviðum. Viðvörunin hefur verið rituð á vegginn nú þegar. Straumbreytingin er fram undan. Hvernig mundum vér líta á hyggindi þess manns, sem klifrað hefði hátt, en reyndi þó að klifra enn hærra vitandi það, að fallið væri óumflýjanlegt og yrði því þyngra og átakanlegra sem hann færi hærra. Vér mundum álíta, að honum væri ekki ljóst, hvað hann væri að gera.

Núv. ríkisstj. hefur jafnan talið það aðalhlutverk sitt að halda dýrtíðinni í skefjum. Þá tuttugu mánuði, sem hún hefur starfað, hefur dýrtíðin staðið í stað. Nú er svo komið, að nýr þungi bætist við, og í dag verður ekki séð, að stj. verði mögulegt að halda verðbólgunni í skefjum, nema Alþ. fái henni þau vopn í hendurnar, sem henni eru nauðsynleg í baráttunni. Ef Alþ. synjar um þetta eða hefst ekkert að, er ekki útlit fyrir, að ríkisstj. hafi tök á að sporna móti flóðbylgjunni. Flóðið verður þá að skella yfir. Alþ. eitt hefur valdið til að hindra þetta, og það ber því eitt ábyrgðina á afleiðingunum.

Ef hætt verður öllum aðgerðum í dýrtíðarmálunum 15. sept., hækkar vísitalan eftir næstu mánaðamót upp í 297–300 stig, — næstu tvo mánuði á eftir líklega um 10–15 stig í viðbót. Þegar svo er komið, að vísitalan er orðin yfir 300 stig, er mestallur iðnaðurinn í landinu dauðadæmdur, enda væri þá bein skylda að heimila innflutning hvers konar erlendra iðnaðarvara til þess að útvega landsmönnum ódýrari vörur. Í byrjun næstu vertíðar mundu frystihúsin að líkindum stöðvast. Bátaútvegurinn mundi bera svo skarðan hlut frá borði, að mjög vafasamt er um reksturinn. Síldarafurðirnar mundu ekki seljast á næsta ári fyrir það verð, er næmi framleiðslukostnaðinum, enda þyrfti verð á mjöli og lýsi að hækka mikið frá því, sem nú er. Síldarútgerðin gæti því stöðvazt alveg næsta sumar með sama áframhaldi. Þetta eru ekki glæsilegar horfur. En hér stoðar ekkert annað en gera sér grein fyrir, hvað fram undan er.

Ríkisstj. leggur fram þessar till. vegna þess, að hún telur skyldu sína að benda á leiðir, sem geta stöðvað dýrtíðina. Hún er reiðubúin að ræða aðrar till., að ræða aðra lausn á málinu. Aðalatriðið er ekki formið eða það, hver till. ber fram, heldur árangurinn, sem næst, hvaða leið sem farin verður. Ríkisstj. heldur því ekki fram, að till. hennar séu eina rétta leiðin. En hún heldur því fram, að Alþ. beri skylda til, ef það vill ekki aðhyllast þessar till., að bera fram og samþ. aðrar, sem tryggi ekki lakari árangur. Alþ. getur ekki lengur látið undir höfuð leggjast að stöðva verðbólguna með einhverjum ráðum, ef það vill ekki algerlega bregðast skyldum sínum og trausti þjóðarinnar. Ef það vegna innbyrðis sundrungar treystist ekki til að koma í veg fyrir það öngþveiti í þjóðfélaginu, sem er að skapast, þá er það ekki hlutverki sínu vaxið, og öngþveitið heldur áfram að vaxa, meðan svo stendur.

Á engu er nú hinu unga lýðveldi meiri þörf en að hin elzta og virðulegasta stofnun þess, Alþingi, skipi þann sess í lífi þjóðarinnar, sem til er ætlazt og framkvæmd hennar, frelsi og framtíðarheill er undir komin.