02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. — Ég vil taka fram í tilefni af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að ég er prinsipielt algerlega á móti afturverkandi l. um skattaálagningar. En það verður að vera á valdi hæstv. Alþ. á hverjum tíma að ákveða, hvort það treystir sér til þess að búa út þess konar l. eða ekki. Ég hef ekki treyst mér til þess.

En hitt finnst mér enn meiru skipta, að menn hafi eitthvert öryggi undir gildandi l., þannig að ekki séu viss lagaákvæði skýrð í dag á einn veg og á morgun á annan veg. Ef á að skýra þau ákvæði, sem þegar gilda í skattal., skattgreiðendum í óhag frá því, sem verið hefur, þá finnst mér það ekki til of mikils mælzt heldur, að gefinn sé fyrirvari um það af þeim skattyfirvöldum, sem ætla að beita þessum ákvörðunum, þannig að breyt. á framkvæmd skattal. skattgreiðendum í óhag nái eingöngu til þeirra tekna, sem aflað er eftir þann tíma þegar tilkynning kemur út um breyt. á framkvæmd skattalaganna.

Mér finnst þessi brtt. svo sjálfsögð, að ég sé ekki ástæðu til að taka hana aftur.