22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Meiri hl. menntmn. þessarar d. hefur komizt að þeirri niðurstöðu að vilja mæla með því, að þetta frv. verði samþ.

Mál þetta er nú kunnugt orðið hv. þdm., og ég hygg, að ekki vanti á það. að öll þau skjöl liggi fyrir í málinu, sem yfirleitt þarf fram að leggja, vegna þess að málið er mjög einfalt í eðli sínu. — Án þess að ég ætli nokkuð að fara út í forsögu málsins, er það kunnugt, að Háskóli Íslands hefur tvisvar sinnum óskað eftir því, að þessi maður yrði einn af starfsmönnum þar. Hann mun hafa starfað þar einn vetur. Og án þess að hans tilverknaði væri um að kenna, varð ekki framhald á því. En guðfræðideildin hefur nú óskað eftir því, að í viðbót við þá krafta, sem þar eru nú, verði þessum manni bætt við. Enn fremur hafa um 70 prestar sent Alþ. áskoranir um og mælt með því, að þetta yrði gert. — Ég hygg, að þau rök, sem ég hef tilfært, nægi til að sanna, að þessi viðbót við starfskrafta guðfræðideildarinnar yrði til þess að efla þjóðkirkjuna í landinu og guðfræðideildina og þar með kristnina í landinu. Og enn fremur er bent á það, að þessi stofnun hefur starfað með mismunandi kjörum um það bil eina öld, og hefur ekki verið fjölgað þar mönnum fyrr en nú. — En náttúrlega geta menn sagt, að við þessa deild Háskólans sé meira en nóg af starfskröftum. En það eru þá þeir menn, sem yfirleitt óska ekki eftir, að þjóðkirkja starfi hér. En meðan þjóðin hefur þjóðkirkju og yfir 100 starfandi presta og vill ekki þessu breyta. — og það hefur komið fram hjá miklum hluta þjóðarinnar. að hún vill, að kirkjan sé höfð í heiðri —, þá virðist rétt að gera það, sem hér er stefnt að. Og t.d. um álit manna um að hafa þjóðkirkju má nefna, að nú er verið að koma upp kirkju hér í þessum bæ, og það er verið að undirbúa byggingu annarrar kirkju hér í bænum. Og það er verið með eins konar dómkirkju í smíðum líka eða undirbúning fyrir hana. Og í kaupstöðum úti um land og í byggðum landsins er áhugi mikill hjá fólki um þessa hluti, og menn leggja á sig mjög verulegar fórnir til þess að reisa hús fyrir sínar guðsþjónustur. Og ríkið hefur styrkt kirkjubyggingar og hefur byggt upp á nokkrum prestsetrum. Það er því ekki hægt að segja annað en þjóðin og þingið séu sammála um það að hér eigi að vera þjóðkirkja og til hennar eigi að vanda. Og nú hefur þjóðkirkjan, gegnum ákveðin meðmæli starfsmanna sinna, óskað eftir því, að þessi ákveðni guðfræðingur yrði starfsmaður við Háskólann. Ég held því, að frá því sjónarmiði sé óhætt að styðja þetta mál, ef menn á annað borð vilja halda við þjóðkirkju í landinu. Og þegar litið er á embættakerfi landsins, hygg ég, að prestastéttin og guðfræðideild Háskólans fari hér ekki fram á neina hófleysu.