09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

27. mál, skipun læknishéraða

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð.

Ég vil taka fram, í tilefni af ræðu hv. 2. þm. S.–M. og þeim aths., sem hann gerði við ræðu mína, að þó að hann láti sér nægja að gera sér aðeins vonir um, að brbl. verði sett af ríkisstj. um sameiningu læknishéraðanna austur á Héraði, þá sætti ég mig ekki við það, eins og málið liggur hér fyrir. Ég kýs miklu heldur, að málið verði afgr. á eðlilegan hátt með lagasamþykkt, svo að ekki sé hægt að bera við neinum aukaatriðum, þegar til framkvæmda á að taka.

Þá vil ég einnig taka fram, út af þeim ummælum sama hv. þm., að hann furði á því hirðuleysi, sem ég sýni með því, að ég vilji ekki ásamt honum standa gegn öðrum breyt. á læknaskipuninni, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, — ég vil taka fram, að þessi ummæli hans féllu auðvitað dauð, um leið og hann sagði þau, vegna þess að hann hafði varla lokið þessum ummælum sínum, þegar hann tók fram, að hann vildi ekki leggja neinn dóm á það, hvort réttmætt væri að gera þessar breyt., sem hér er um að ræða, eða ekki. Hann vildi aðeins láta það bíða. Það, sem ég hafði sagt í þessu efni, var aðeins þetta: Ég er ekki nógu kunnugur staðháttum í öllum tilfellum, sem þarna koma til greina, til þess að vita gerla um, hversu réttmætar þessar breyt. eru, og blanda mér ekki í deilu um réttmæti þessara till. Mér sýnist þó, að sumar þeirra séu til bóta, en get ekki fundið, að nein þeirra sé svo saknæm, að þeirra vegna eigi að fella frv., sem felur í sér mjög mikilvæga breyt., er þarf að komast í l. nú þegar. Afstaða mín er því mjög svipuð því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði fyrir sitt leyti, að væri afstaða sín gagnvart stofnun nýrra héraða, að því er kemur til að dæma um réttmæti þess að stofna þau. Ef því um hirðuleysi er að ræða í því efni hjá mér, þá er það sömuleiðis hjá honum.

En þessu frv. er ekki ætlað að taka gildi fyrr en í ársbyrjun 1945, skilst mér. Hins vegar má búast við, að samþ. verði þáltill. hér um athugun á læknaskipun í landinu í framtíðinni. Eru allar líkur til þess, að þeirri athugun verði lokið, þegar þetta frv. raunverulega tekur gildi, svo að jafnvel þótt eitthvað væri til í þeim draugasögum, sem hér hafa verið sagðar um, að hætta væri á ferðum, ef brtt. við frv. væru samþ., þá yrðu ákvæði þeirra ekki komin til framkvæmda, þegar þessari heildarathugun á læknishéraðaskipun og heilbrigðismálunum í landinu væri lokið. En ef þetta frv. verður samþ. nú, þá tel ég komið fram nauðsynjamáli með lögfestingu á samfærslu tveggja læknishéraða á Austurlandi og lögfestingu á stað fyrir læknisbústað í væntanlegu einu héraði þar, sem óhjákvæmilega þarf að reisa á næsta sumri. Og það er ekki hægt að efna til þeirra , framkvæmda, fyrr en búið er að setja þar l. um. — Þess vegna mun ég greiða atkv. með frv. nú, en gegn öllum brtt., sem ég álít, að geti stefnt því í hættu, ef samþ. yrðu.