22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Það er hér upp risin afturganga, sem ég, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, þegar þetta frv. lá fyrir síðasta þingi, hafði búizt við, að ekki mundi koma fram aftur. A. m. k. hafði ég ekki búizt við, að þetta frv. kæmi aftur fram, jafnvanhugsað og mér virðist það vera. Hér er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir að eftir l. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o. fl. hefur mjólkursölunefnd, sem sett er til þess að hafa á hendi skipulagningu á mjólkursölunní, ákveðið verðjöfnunarsvæðið í hvert sinn, þá skuli með l. ákveða, að nokkur hluti af landinu verði í vissu verðjöfnunarsvæði. Og, eftir því, sem hv. 1. flm. þessa frv. upplýsir, á þetta að vera gert til þess að hægt sé að tryggja það fyrir fram, að fyrir framleiðendur á þessum svæðum, sem eftir frv. á að bæta inn á verðlagssvæðið hér syðra, fáist full verðjöfnun á við þá, sem nú eru á verðjöfnunarsvæðinu, og þar af leiðandi sé hægt að undirbúa framkvæmdir á meiri mjólkurframleiðslu í þessum héruðum, sem lagt er til með frv., að bætt verði inn á verðjöfnunarsvæðið. Ég verð að segja það, að ef það er sérstaklega tilgangurinn með þessu frv. að tryggja það, að framleiðendur mjólkur, hvar sem þeir eru á landinu og hvernig sem aðstaða þeirra er, skuli fyrir fram fá tryggt verð fyrir vöru sína, þá sé ég ekki, hvernig löggjafinn getur fallizt á það, að hér sé aðeins að ræða um Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu, Húnavatnssýslur, Bæjarhrepp í Strandasýslu og Skaftafellssýslu vestan Mýrdalssands, sem eigi að bæta inn á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og að verðjöfnunarsvæði Akureyrar skuli vera eins og í frv. greinir. Hvers vegna er hér sleppt Austfjörðum og Vestfjörðum og Skaftafellssýslu að nokkru leyti og tekin aðeins að hálfu leyti Vestur-Skaftafellssýsla? Ef það eru einhver réttindi, sem með l. á að tryggja vissum mönnum í þessu efni, hvernig sem afstaða þeirra er, með greiðslum úr ríkissjóði, þannig að menn fái sama verð fyrir framleiðslu sína þar eins og þeir, sem nú eru á verðjöfnunarsvæðinu, þá er óhugsandi annað en að slík löggjöf nái til allra mjólkurframleiðenda á landinu. Ef á að fara út af þeirri braut að fara í þessu efni eftir aðstöðu manna eins og mjólkurl. gera ráð fyrir, þá liggur í hlutarins eðli, að allir aðrir mjólkurframleiðendur en þeir, sem nefndir eru í frv., fái sömu réttindi og hinir, sem frv. tekur til. Þess vegna er hér um ekkert annað að ræða en það, hvort á að gera allt landið að einu verðjöfnunarsvæði viðkomandi sölu mjólkur og mjólkurafurða eða hins vegar að fara að eins og mjólkurl. gera ráð fyrir, — og þótti þó langt gengið með þeim l., þegar þau voru sett, — að fela framkvæmdastjórn þessara mála að ákveða á hverjum tíma viss verðjöfnunarsvæði.

Mjólkursölunefnd hefur tvisvar breytt nokkuð verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar til þess að menn hafi aðstöðu af stærra svæði til þess að selja mjólk til þessara bæja. Fyrst var tekinn einn hreppur í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og tveir hreppar í Skaftafellssýslu inn á verðjöfnunarsvæðið og nú nýlega Miklaholtshreppur. Hins vegar á að bæta hér inn á verðjöfnunarsvæðið 4½ sýslu eftir þessu frv. og veita framleiðendum þar réttindi til sölu mjólkur til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, framleiðendum á þeim stöðum, sem ekki hafa hin minnstu skilyrði til þess að uppfylla það, sem er undirstaða laganna, að þeir, sem framleiða mjólk á verðjöfnunarsvæðinu, hafi aðgang að mjólkurbúi til þess að hreinsa mjólkina og vinna úr henni. Það er ekki vitað, að þeir framleiðendur, sem hér er um að ræða, hafi gert nokkurn undirbúning til þess að koma sér upp mjólkurbúum og skapa sér þannig aðstöðu til þess að geta gert mjólk sína að seljanlegri vöru. Nú er hins vegar vitað, að mjólkurbú, sem eru á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eru orðin of lítil. Og ég hygg, að þau öll, nema kannske Hafnarfjarðarbúið, séu í undirbúningi með að stækka stórlega stöðvarnar hjá sér til þess að geta tekið á móti meiri mjólk á sínum eigin svæðum. Það er einnig vitað, að mjólkurbú er til á Norðurlandi rétt þar við, er hv. flm. þessa frv. vilja setja takmörk verðjöfnunarsvæðis Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, sem sé á Sauðárkróki, sem er nokkrum km. fyrir austan þau takmörk og nokkrum km. lengra frá Reykjavík en Húnavatnssýsla. Og ef tilgangur hv. flm. er sá að koma á sama verði á mjólk á öllu landinu, þá dettur náttúrlega engum manni í hug að flytja mjólk til vinnslu yfir 300 km. veg, þegar bú er tiltölulega stutt frá, sem gæti unnið úr mjólkinni, ef sama verð fengist fyrir mjólkina hvort heldur sem farin væri þarna lengri eða skemmri leiðin til mjólkurbús. En það skilst mér vera tilgangurinn með flutningi þessa frv., að verðið yrði það sama í báðum tilfellum. — Vitanlega eiga ekki allir mjólkurframleiðendur landsins eftir texta þessa frv. að hafa sama rétt til verðjöfnunar mjólkur. En ef nokkur heil hugsun liggur til grundvallar þessu frv., þá yrði að vera eitt verðjöfnunarsvæði yfir allt landið í þessu efni. En þá hlyti það óhjákvæmilega að hafa það í för með sér, að mjólkin yrði dýrari til neytendanna, ef framleiðslukostnaðurinn bærist uppi af verði mjólkurinnar, sem mér skilst, að hv. 1. flm. frv. vilji vera láta, — ef mjög mikil vinnslumjólk kæmi í viðbót. Því að vinnsluvörur úr mjólk seljast aldrei við því verði, að með því að vinna úr mjólkinni fáist eins mikið fyrir hvern lítra eins og fyrir neyzlumjólk, ef ekki kemur verðjöfnun til greina. Menn verða því að hafa það hugfast, að með aukinni mjólkurvinnslu fylgja aukin útgjöld fyrir bændur á þessu fyrirhugaða verðjöfnunarsvæði eftir frv., þar sem verðjafna þyrfti þá mjólkina til uppbótar á enn meiri vinnslumjólk en verið hefur, ef verðlagssvæðið yrði stækkað stórkostlega. Og ef Alþ. ætlar að ákveða verðjöfnun á mjólk, en þó ekki eftir aðstöðu til sölu og vinnslu á mjólk, þá verður þingið að stíga skrefið fullt og gera allt landið að einu verðjöfnunarsvæði, það liggur í augum uppi. En því mundi auðvitað óhjákvæmilega fylgja mikill aukinn kostnaður, bæði fyrir neytendur mjólkurinnar og bændur.