22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (3445)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Í annarri ræðu sinni sagði hv. þm. V-Sk., að ég hefði farið rangt með sumt það, sem hann hefði sagt í sinni fyrstu ræðu. Í fyrsta lagi sagði hann, að ég hefði ranghermt það, að hann legði kapp á það, að mjólkurverðlagsnefnd ein ákvæði verðjöfnunarsvæðin. Ég verð að segja það, að hér í d. hefur ekki verið hægt að verða annars var en að þessi hv. þm. hafi lagt allt kapp á það, að mjólkurverðlagsn. hefði einkarétt til slíkrar ákvörðunar. Það væri gott, ef hann væri nú búinn að breyta um skoðun í því efni, en hann sagði síðar í ræðu sinni, að ákvörðun verðjöfnunarsvæðanna ætti að vera framkvæmdaratriði. En það er einmitt það, sem við flm. álítum, að hún eigi ekki að vera, hún á að vera lagaatriði.

Þá talaði hv. þm. um, að ég hefði talað um einkasölu á smjöri innan verðjöfnunarsvæðanna. Þetta er rangfært hjá honum. Ég talaði ekki um það, að einkasöluaðstaða sú, sem ríkir á verðjöfnunarsvæðunum, næði til smjörs, því að sala á því er frjáls, heldur talaði ég um það, að landsmönnum utan verðjöfnunarsvæðisins væri ekki heimilt að selja mjólk inn á það, og það er orsökin til þess mjólkurskorts, sem ríkir hér í Reykjavík og Hafnarfirði.

Ef Húnavatnssýslur, Dalasýsla og Snæfellsnessýsla væru ekki útilokaðar frá því að selja mjólk hingað, þá mundu þessi héruð hafa aukið mjólkurframleiðslu sína, en vegna þess að þau hafa ekki fengið tækifæri til þess að koma mjólk sinni á markað, þá hafa þau ekki aukið framleiðslu sína.

Þá hélt þessi hv. þm. því fram, að samgöngurnar væru ekkert atriði lengur. Þarna kemur hann einmitt að helzta ágreiningsefninu, því að við flm. lítum svo á, að þeir, sem hafa tækifæri til þess að selja mjólk sína hingað, þeir eigi að fá það. Það er hart, að þegar skortur er á mjólk og smjöri hér í Reykjavík og Hafnarfirði, þá skuli sum þau héruð, sem geta flutt hingað mjólk, ekki fá að gera það, og í því liggur einmitt líka ástæðan til þess, sem hv. þm. Vestm. drap á hérna áðan um smjörskortinn. Þegar svo er komið sem nú er, að við verðum að flytja út ákveðið magn af kjöti fyrir lítið verð og borga úr ríkissjóði háar upphæðir til að fá þann framleiðslukostnað, sem bændur þurfa að fá, þá er það hart fyrir þá, sem geta stundað þá framleiðslu landbúnaðarins, sem nú er hér arðvænlegust, en það er mjólkurframleiðslan, að þeir skuli þá vera útilokaðir frá markaðinum vegna lagafyrirmæla. Þetta er meginástæðan til þess, að við flm. þessa frv. leggjum kapp á það að fá þessu breytt þegar í stað. Þegar hv. þm. V-Sk. var að tala um, að þetta væri gagnslaust, vegna þess að ekkert mjólkurbú gæti tekið á móti þessari viðbót, þá var það þegar hrakið af hv. þm. Snæf., sem upplýsti, að mjólkurbúið í Borgarnesi gæti tekið á móti miklu meiri mjólk en það gerði nú. Það er því nauðsynlegt að gera þeim landshlutum, sem hafa aðstöðu til þess að koma mjólk sinni á markað, fært að gera það vegna lagafyrirmæla og afnema þannig þá einkasöluaðstöðu, sem Suðurland hefur til mjólkursölu hér í Reykjavík og Hafnarfirði.