22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3454)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir því, að það hafi ekki mikla þýðingu, að ég haldi áfram að þræta við hv. þm. V.-Sk., enda er hann farinn af fundi. Hann vildi jafna saman einkarétti, sem mjólkursölun. hefur á ákveðnu svæði og við í nýbýlastjórn höfum til að úthluta styrkjum til nýbýla. En þetta tvennt er ósambærilegt, enda hafa engar aths. komið til okkar og við alltaf verið sammála. Að ekki sé hægt að flytja mjólk frá Húnavatnssýslu er fjarstæða, því að það er fjögurra tíma ferð frá Blönduósi til Borgarness.

Hv. 1. þm. Árn. (JörB) flutti langa ræðu, sem ég var hissa á. Þessi þm., sem við vitum, að er gáfaður og rökviss, fór í kringum sjálfan sig. Í fyrri hluta ræðu sinnar sýndi hann fram á, að eðlilegur væri skortur á mjólk og smjöri, og stafaði hann af því, hvernig kaupgjaldi væri háttað o. s. frv. Hæstv. ráðh. tók undir þetta, og það er allt rétt. En öll þessi rök beinast að því að vera meðmæli með frv., því að af hverju er ekki fleiri mönnum gefinn kostur á að selja, ef skortur er? Í þessum langa kafla ræðu hv. 1. þm. Árn. var ég honum sammála, en í seinni hluta ræðu sinnar snýr hann við blaðinu og vildi láta eins og skortur á mjólk væri lítill og stafaði af því, að menn væru hræddir um að fá ekki nóg og birgðu sig því upp. Hvernig geta menn birgt sig upp af mjólk? En ef menn eru hræddir um að fá ekki mjólk, er ofur eðlilegt, að kapp sé lagt á að fá hana.

Hin mikla notkun smjörlíkis og innflutningnr amerísks smjörs sýnir, að eitthvað er bogið við þessi mál hjá okkur og að það verður að gefa fleiri mönnum tækifæri til framleiðslu og sölu. Það er undarleg aðferð að flytja inn amerískt smjör, sem framleitt er við aðstæður, sem hv. sessunautur minn mundi kalla þrælahald. Það skapar óánægju hjá neytendum að þurfa að kaupa það sama verði og okkar ágæta smjör, sem framleitt er með háu kaupgjaldi. Smjörlíki ætti helzt að útrýma. Þess vegna verður líka að vinna að því, að fleiri héruð fái tækifæri til að komast inn á verðjöfnunarsvæðið.