13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Eftir því, sem fram kemur í nál. viðvíkjandi þessu frv., var ég ekki fylgjandi þessu frv., og það er af þeim ástæðum, að ég sé ekki, að það sé hægt að leysa þetta mál, hvorki með þessu frv. né till. n. Ég hefði kannske látið þetta mál fara fram hjá mér, ef mjólkurmálin væru ekki allt annars eðlis en á undanförnum þingum. Að undanförnu hefur deilan staðið milli neytenda og mjólkurskipulagsins. Nú stendur deilan um verðjöfnunarsvæðin, þ. e. a. s. á milli bænda um það að fá hagsmuni af því að selja nýmjólk hingað til Reykjavíkur, og það hlýtur alltaf að verða deila um það, vegna þess að hún er verðmætari óunnin en unnin. Sé unnið úr mjólkinni, hver verður þá útkoman? Hún er sú, að varan fellur í verði um 1/3 og neytendur hér í Reykjavík, sem kaupa nýja mjólk, verða að borga viss prósent af smjöri, ost og skyri, sem einhverjir aðrir borða. Út af þessu er deilan nú. Hv. þm. V.-Sk. hefur sagt, að það væri engin óánægja með mjólkurskipulagið frá neytendanna hálfu. Þetta getur verið rétt, en ég vil benda á það, að í mjólkursölun. hafa neytendur engan fulltrúa skipað eða kosið hin síðari ár. Af hverju? Af því að undanfarin ár var ekkert tillit tekið til tillagna þeirra þar og þeir sáu, að með því að sitja í n. báru þeir sameiginlega ábyrgð, en hins vegar var ekkert tillit tekið til þeirra. Með till. mþn. er látið undan þessum kröfum um að stækka verðjöfnunarsvæðin. Það er það sama sem verið er að fara fram á nú eins og þegar Árnesingar voru að ryðjast inn á mjólkurmarkaðinn, sem Mjólkurfélagið hafði. Þá var talið ómögulegt að flytja mjólk svona langa leið. Nú eru þeir komnir í sömu aðstöðuna sem Mjólkurfélagið var þá í, og þeir verða að skilja það, að þessir menn hafa nú sömu rökin og þeir höfðu þá. Og ég er viss um, að í framtíðinni verður sameiginlegt verðjöfnunarsvæði yfir allt landið, en þá verður það byggt á þeim forsendum að lækka nýmjólkina, því að það verður ekki hægt að láta nokkurn mann framleiða mjólkurvörur, ef mjólkin verður því verðminni sem hún er unnin meira.

Viðvíkjandi verðjöfnun á fiski vil ég segja það, að ég veit ekki betur en að fiskurinn sé keyptur fyrir sama verð á öllum höfnum á landinu. En verðlagið á íslenzku afurðunum er eingöngu bundið við það, hvað hægt er að selja þær fyrir hátt verð hér í Reykjavík, og það er ekki aðeins samið um það, heldur er það í l. Þannig er það með kjötið, það hefði þurft að kosta 18 kr. kg. í Rvík í haust, ef útflutningsuppbætur hefðu verið reiknaðar með, en það er ekki af því að kjötið sé svo verðmætt, heldur áttu Reykvíkingar að borga það verð, þó að aðrir fengju það fyrir lægra verð. Þetta sér hver maður, að getur ekki gengið. Og svo eru heimtaðar uppbætur til þeirra bænda, sem ekki komast inn á markaðinn í Reykjavík, og það er ekki eingöngu að Reykvíkingar verði að borga uppbætur á allt kjöt, sem selt er innanlands, heldur verða þeir einnig að borga 2/3 af því, sem flutt er út úr landinu. Ég mun ekki fylgja þessu frv., vegna þess að ég sé, að það er ekki sú lausn, sem þarf að verða á málinu. En ég er ekki í neinum vafa um það, að neytendur í Reykjavík þurfa ekki að rífast um þetta mál, en það verður hins vegar hagsmunatogstreita milli bænda um það. Ég vil líka segja hv. þm. V.-Sk. það, að þeir hefðu aldrei komið mjólkurl. á gagnvart Mjólkurfélagi Reykjavíkur, hefðu ekki Reykvíkingar hjálpað þeim. Hefðu mjólkurl. verið komin í framkvæmd 2–3 árum áður, þá býst ég við, að neytendur hefðu ekki fengizt til að hjálpa þeim, því að mjólkurl. hafa orðið neytendum til svo mikilla vonbrigða, að ég býst við, að þeir fáist ekki til að veita aðstoð við að framkvæma þetta, sem hér liggur fyrir.