29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Flm. (Sigurður Hlíðar):

Ég má án efa vera þakklátur hæstv. forsrh. fyrir upphaf ræðunnar, þar sem hann taldi fulla þörf eða brýna þörf á, að það yrði sem allra fullkomnast sjúkrahús á Akureyri og ríkisstj. mundi að sjálfsögðu mæla mjög með því. Það er ákaflega gott að hafa svona yfirlýsingu, ef seinni partur ræðunnar hefði ekki spillt skrambi mikið fyrir fyrri hlutanum. Mér fannst seinni hlutinn vera hrakning á öllu því, sem gat orðið þessu máli til stuðnings.

Við getum auðvitað dregið málið á langinn í 1 til 2 ár, en það hjálpar Akureyrarspítala eða þeirri nauðsyn, sem nú er fyrir dyrum, ekkert. Það er rétt, eins og ég tók fram, að hér er um nýmæli að ræða, og segir hæstv. forsrh., að við séum að brjóta princip, sem Landsspítalinn einn eigi að hafa. Gerir hann ráð fyrir, að af því muni leiða kröfur um aðra fjórðungsspítala. Það ætti kannske að safna undirskriftum, eins og hæstv. forsrh. tók fram. Það er enginn vafi á, að það mundi takast.

Annars er meiningin að koma upp fjórðungsspítölum. Það hefur legið fyrir Alþ. 2–3 síðustu árin, og var sérstök afstaða tekin til þess í hv. fjvn. og gengið inn á að heita fjórðungsspítölum styrk, og er það enn á fjárl. Sjálfur landlæknir var með þessari till. um að koma sem fyrst upp fjórðungsspítölum með árlegum rekstrarstyrk miðað við sjúkradagatölu. Hann lofaði enn að auka þennan styrk, bara til að hafa okkur góða, bara ef við kæmum ekki með þessa rækallans hugmynd að koma upp spítala reknum af ríkinu.

Reykjavík þarf ekki að reka spítala upp á eigin kostnað. Hún er svo heppin, eins og hv. forsrh. tók fram, að katólskir menn hafa komið upp spítala hér á landi, Landakotsspítalanum. Hann hefur meira að segja verið endurnýjaður, því að nógir peningar eru þar til. Reykjavíkurbær lifði lengi á því, þangað til Landsspítalinn kom.

Landsspítalinn var jafnnauðsynlegur fyrir það, ekki aðeins byggður kennslunnar vegna. Ég get fullyrt, að læknastúdentar lærðu eins mikið áður hér á landi og nú á Landsspítalanum, þegar þeir höfðu slíka afburða kennara eins og t. d. Guðmund heitinn Magnússon. Ég geri ráð fyrir, að spítalar okkar stingi ekki Guðmund Magnússon út og fleiri framúrskarandi læknaskólakennara hér á landi.

Hæstv. forsrh. tók fram, að Landsspítalinn væri eini spítalinn með ríkisrekstri fyrir utan þessa spítala, eins og t. d. berkla- og geðveikrahæli. Það voru nógu miklir kraftar á Norðurlandi til að koma upp hæli á Kristnesi, og þegar það var komið upp, kom ríkisreksturinn nokkuð af sjálfu sér. Enginn mundi vilja leggja það hæli niður. Það er talið alveg jafnþarflegt, jafnvel þótt það sé í Norðlendingafjórðungi, eins og sunnanlands.

Sumir segja, að það þurfi ekki að vera nema einn landsspítali, því að svo sé komið, að flugvélar geti sótt sjúklinga hvert sem er og samgöngurnar séu ekki lengur trafali fyrir sjúklinga. Þetta er ákaflega hæpið. Samgöngurnar eru aldrei svo góðar, að það sé sama, hvort maðurinn fer frá Langanesi til Reykjavíkur eða til Akureyrar. Þessu er því algerlega slegið út í loftið. Samgöngurnar eru að vísu betri en þær voru, en ég vil halda fram, að það sé jafnnauðsynlegt að hafa fullkominn spítala í hverjum fjórðungi eins og að hafa einn spítala hér syðra. Það nær ekki nokkurri átt að hafa aðeins spítala hér syðra, og læknastúdentar geta líka lært úti á landi, t. d. á sumrin, þegar þeir eru frá Háskólanum, ef virkilega góðir spítalar eru fyrir hendi.

Berklasjúkrahús eru 2 í landinu, og þau eru jafnþörf á báðum stöðum. Ég er fullviss um, ef aðeins ætti að vera eitt berklahæli, þannig að það fengi alla berklasjúklinga, þá mundu menn ekki vera ánægðir með það.

Svo er Kleppur. Það er ekki svo lítill vandi með geðveikisjúklinga úti um land, og það merkilega er, að Akureyrarspítali fær ekki eyri fyrir þessa sjúklinga frá ríkinu. Þetta er óhæft ástand, og svo að maður fari lengra: Hvernig stendur á því, að sjúkrasamlagið hefur ekki sömu aðstöðu þar og hér? Sjúklingar á Akureyri borga fjórum krónum sextíu og fjórum aurum meira á sjúkradag en í Reykjavík.

Hérna eru dagpeningar 15 kr., en á Akureyri 20 kr., en mismuninn borgar ríkið. Það er sennilega milljón kr. „undirbalance“ á ári á Landsspítalanum, en Akureyri baslar við sitt með þessum aðbúnaði. Nei, ef út í það væri farið, mætti segja mikið um samanburð á styrkfé til spítalanna. Það er því nauðsynlegt að róta til og koma samræmi á í þessu efni.

Það er ekkert á móti því, að mþn. komi og athugi sjúkraframkvæmdir í landinu, en hún má ekki tefja fyrir framgangi þessa máls. Akureyrarkaupstaður, höfuðborg Norðurlands, er nógu sterkur til að koma upp spítala fyrir sig, en það má gera ráð fyrir, að heilbrigðisyfirvöldin í landinu geri sig ekki ánægð með það. Ef Akureyri reisti spítala, ekki eins og verið hefur undanfarið, sem allir hafa aðgang að, heldur spítala fyrir bæinn sjálfan og bannaði öðrum sjúklingum að koma nema fyrir okurverð, mundi það nokkuð laga ástandið í landinu? Það getur vel farið svo, að Akureyrarkaupstaður neyðist til að reisa spítala fyrst og fremst fyrir sig, en mér finnst ætti að fylgja mannúðarreglum og byggja ekki aðeins fyrir Akureyri, heldur Norðlendingafjórðung.

Þess vegna fer ég fram á, að byggður sé nýtízku spítali, sem nægi fjórðungnum, og mælist til, að Alþ. hlutist til um, að tekin verði upp sú stefna, að ríkið reisi og reki þennan spítala fyrir Norðlendingafjórðung.