09.01.1945
Neðri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (3879)

235. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrn. (Áki Jakobsson):

... [Upphaf ræðunnar vantar í hndr. þingskr.] ... og þá með það fyrir augum, að hægt væri að hagnýta þetta, ef skyndilega kæmu ný tilboð, sem sérstaklega er verið að vænta, að komi frá Svíþjóð. Það liggja fyrir fyrirspurnir þar og beiðnir um tilboð, sem nú hefur verið vænzt, að við fáum þá og þegar. Það liggja a.m.k. tilboð í yfir 50 báta, sem enn er ekki komið svar við. Þess vegna er ekki ástæða til þess að binda l. við neinn sérstakan stað. Hins vegar er ákveðin upphæðin, 15 millj. kr. Upphæðin er miðuð við kaup á 45 bátum. En 5 millj. kr. ar áætlað, að fari að mestu leyti til [eyða í hndr.] eftir ákvæðum n., sem Alþ. ákvað á s.l. ári, nema það verði tekið til ráðstafana, sem ekki eru endanlega ákveðnar. En það verður væntanlega að mestu leyti notað þannig, að fiskveiðasjóður ætlar að lána út á báta ákveðna upphæð, þannig að hann lánar ríkissjóði það beint, og svo verður því skipt niður, þegar búið er að ganga frá samningum um bátana. Það er ekki rétt, að það sé búið að selja neinn bát, en það er búið að gefa ákveðin loforð. Fyrst hafa ákveðnir menn fengið loforð um að fá bát, og til staðfestingar þessu loforði hafa menn verið látnir borga inn ákveðna upphæð og hafa þá bátinn fastsettan. Hins vegar er ekki hægt að koma því við öðruvísi en ríkisstj. sé milliliður og hún kaupi bátana, vegna þess að það var gert að skilyrði í Svíþjóð, að ríkið keypti þá. Það er því óhjákvæmilegt, að ríkisstj. sé raunverulegur kaupandi þeirra. Þess vegna þarf að leita þess samþykkis. Eins og kunnugt er, var orðið fyllsta samkomulag í þessu máli, að þessar ráðstafanir yrðu gerðar, með samstarfi fyrrv. ríkisstj. við þingfl., og þetta er ekki annað en staðfesting á því, sem verið er að framkvæma.