19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (3963)

279. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég flyt á þskj. 1128, ásamt hv. 7. landsk. þm., brtt. við 6. gr. frv., og skal ég víkja að henni nokkuð. En við það, sem hv. form. fjhn. sagði um málið almennt, hef ég engu að bæta. — Ástæðan til þess, að við flytjum þessa brtt., er sú, að að okkar dómi er sú lánsupphæð, sem veðdeild Landsbankans nú veitir út á nýbyggð og vel byggð hús, svo lág, að það skorti mikið á, að þessi lánastarfsemi komi að tilætluðum notum. Eftir því, sem mér er sagt, þá mun meðalbyggingarkostnaður hér í bænum vera talinn eitthvað um 250–300 kr. á rúmmetra. Samkv. þessu frv. og eldri l. um veðdeildina, þá miðar bankinn lánsupphæðir úr veðdeild við mat, sem trúnaðarmenn bankans framkvæma, og þá væntanlega eftir reglum, sem þeim eru settar af yfirstjórn bankans. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hefur nú fyrir nokkru verið hækkað þetta mat í 75 kr. almennt á rúmmetrann. En út á þetta lánar veðdeildin ekki 3/5, heldur helming, þannig að veðdeildin lánar út á hvern rúmmetra í þessum húsum venjulega um 37 kr. og 50 au., eða rétt um 14% af því, sem nú er talinn byggingarkostnaður. Það liggur í augum uppi, að þessi lán eru svo lítill hluti byggingarkostnaðar, að þau eru í flestum tilfellum algerlega ófullnægjandi, og þetta hlýtur þess vegna að draga mjög úr útlánastarfsemi veðdeildarinnar, því að mönnum þykir mörgum hverjum tæpast borga sig að binda veðréttinn fyrir svo lítinn hluta þess, sem byggingarkostnaðurinn raunverulega er. Hagstofan gefur út eins konar vísitölu fyrir byggingarkostnað, sem er byggð á útreikningum húsameistara ríkisins og e.t.v. fleiri aðila. Þessi vísitala um byggingarkostnað mun nú vera 356 á móti 100 fyrir stríð, 1939, sem mundi svara til þess að vera per teningsmetra í nýbyggðum húsum 237 kr. á móti 66 kr. fyrir stríð. En þessi vísitala Hagstofunnar er nokkru lægri heldur en mér er sagt, að byggingarkostnaður sé almennt, eitthvað um 10–20% lægri.

Ég vil fullkomlega taka undir það, sem hv. form. n. sagði áðan, að það er að sjálfsögðu skylt að gæta þess að hvetja veðdeildina ekki til þess að lána hærri upphæðir en svo að veðdeildarbréfin séu í framtíðinni skoðuð jafntrygg bréf og þau eru nú. En ég fæ ekki séð, að öryggi bréfanna sé stefnt í nokkra hættu, þó að okkar brtt. væri samþ. 30% samkv. vísitölu Hagstofunnar ættu að nema 60–70 kr. á teningsmetra í húsum, eða rétt nálægt sömu upphæð og byggingarkostnaður mun hafa verið fyrir stríð. Og ég vil undirstrika það í þessu sambandi, að hér er ekki um að ræða fyrirmæli til bankans um, að hann skuli haga lánveitingum veðdeildarinnar svo, heldur til tekið, að lánin megi nema þessu. Svo að það er á valdi bankastjórnarinnar, ef hún telur ekki fært að hafa lán svo há, að halda sig á neðri þrepunum. Þessi brtt. er borin fram í þeim tilgangi, að vakin sé athygli á því, og heldur árétting þingsins í þá átt, að þeirri óeðlilegu varfærni, sem mér virðist koma fram í að lána úr veðdeildinni gegn 1. veðrétti, sé ekki haldið lengur, heldur höfð hæfileg varfærni, eins og ég hefði viljað orða það. Ég get ekki séð, að ástæða sé til að ætla, að öryggi bréfanna sé í nokkra hættu stefnt, þó að þessi brtt.samþ., þegar hún er þannig sniðin, að í henni er gengið svo skammt. sem skemmst er hægt að ganga.

Þá ætla ég að nefna annað í þessu sambandi, sem eru vextirnir, sem veðdeildinni er ætlað að taka. Um það atriði flyt ég ekki brtt., en mér þykir rétt. að láta það koma fram hér, að ég hygg, að fyllsta ástæða sé til að taka til athugunar í sambandi við væntanlegar auknar framkvæmdir hér í landinu og fjárfestingu í sambandi við nýsköpun og slíkt, hvort ekki sé hægt að fá breyt. á þeim vaxtataxta, sem nú er. Þegar svo er ástatt, að langmestur hluti af innstæðum manna í bönkum liggur þar sem geymslufé án nokkurra vaxta, og þegar einnig er vitað, hve óeðlilegrar varfærni gætir í útlánastarfsemi veðdeildarinnar, sem veldur því, að mjög mikill hluti þeirra lána, sem nú eru tekin til bygginga út á veð, eru tekin hjá einstaklingum og án milligöngu bankanna, þegar allt þetta er athugað, þá finnst mér tími til þess kominn að athuga, hve hátt skuli fara með vexti af lánum á 1. veðrétti, lánum, sem gulltrygg eiga að vera, eins og þessi lán, en þó er ætlazt til, að komi að einhverju haldi. Ég get ekki séð, að frá sjónarmiði bankans geti verið. æskilegt, að meiri hl. lánveitinga til húsabygginga hverfi frá bankanum og á hendur einstakra manna, sem veita mjög mismunandi lánakjör, fyrir utan annað, sem því fylgir. En einmitt það að hafa vextina svo háa eins og hér er ráð fyrir gert stuðlar mjög að því, að svo verði, sem að minni hyggju er mjög óheppilegt.