20.01.1944
Sameinað þing: 8. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (4058)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir og flutt er af hæstv. ríkisstj., fer fram á:

1. að lýsa yfir því, að niður sé fallinn sambandslagasamningurinn milli Dana og Íslendinga.

2. að allir danskir ríkisborgarar, sem þegar hafa öðlazt heimilisfesti á Íslandi, skuli, þar til öðruvísi verður ákveðið með lögum, halda jafnrétti við íslenzka ríkisborgara.

3. að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um þessa tillögu, og þurfi einfaldan meiri hluta til þeirrar samþykktar, og eru engin skilyrði sett um lágmark þátttöku.

4. að samþykki tveggja þinga þurfi til þess, að tillagan öðlist gildi.

Till. fjallar eingöngu um sambandsl. sjálf, en ekki um konungssambandið eða stofnun lýðveldis. Það er tekið til meðferðar í stjskrfrv. því, sern liggur fyrir neðri deild. Mun ég því ekki ræða hér þau atriði, heldur aðeins sambandsslitin sjálf og þessa þáltill.

Þessar umr., sem hafa staðið yfir í nokkra daga, hafa farið um of í annan farveg en ákjósanlegast hefði verið. Þær hafa að miklu leyti orðið uppgjör og ádeilur milli einstakra þm., og stjórnmálaflokka um fortíð þeirra og fyrri yfirlýsingar, stefnuhvörf o. fl. Ég hefði kosið fremur, að umr. hefðu snúizt um meginefni málsins: Hvort till. þessi um sambandsslit er byggð á öruggum réttargrundvelli.

Hv. 4. þm. Reykv., Stefán Jóh. Stefánsson, hefur ekki aðeins dregið í efa, heldur jafnvel mótmælt því ákveðið, að sambandsslit samkv. till. væru lögleg. Hann virðist telja, að þau séu lögleysa. Alþ. og íslenzka þjóðin væru að fremja réttarbrot að alþjóðal., ef þessi þáltill. yrði samþykkt. Hinu sama hefur verið haldið fram af mörgum greinarhöfundum í ritlingi þeim, er út kom fyrir skömmu og nefnist: „Ástandið í sjálfstæðismálinu“, enn fremur í ávarpi fjórtánmenninganna og í blaðinu „Varðbergi“.

Meginrökin í máli þessu hafa komið fram í blöðum og tímaritum, og má sérstaklega varðandi riftingarréttinn nefna grein hv. 6. þm. Reykv. í „Andvara“ 1941. En þessi rök hafa ekki verið dregin fram ýtarlega í þessum umr. Ég tel því rétt að rekja þau nokkuð frá mínu sjónarmiði og ræða nánar þá leið, sem 18. gr. sambandsl. gerði ráð fyrir.

Sú réttarregla, sem hæstv. Alþ. — og ríkisstj. að mínum skilningi — byggja hin fyrirhuguðu sambandsslit á, er regla þjóðaréttarins um, að samningsaðili megi rifta samningi, segja sig lausan frá honum, ef gagnaðili fullnægir ekki fyrirmælum samningsins. Þessi regla gildir ekki aðeins í þjóðarétti, heldur einnig landsrétti um samninga manna í milli. Hún er nefnd reglan um samningsrof eða vanefndir.

Í umr. um sambandsl. hefur heitið „vanefndir“ aðallega verið notað um þetta tilvik, „vanefndakenning“ og „vanefndaréttur“.

En af hálfu þeirra, sem fylgja frestun í máli þessu, hefur orðið „vanefnd“ verið gersamlega misskilið og rangtúlkað. Vanefnd að l. er algerlega hlutlaust orð og hugtak að því leyti, að það á jafnt við, hvort sem aðili fullnægir ekki samningi af ráðnum hug eða honum að ósekju, t. d. vegna þess, að hann getur ekki fullnægt honum fyrir þá sök, að annar hefur gert honum það ómögulegt. Vanefnd tekur yfir þetta hvort tveggja, bæði að landsl. og þjóðarétti.

Þessi misskilningur hefur einkum komið fram hjá mönnum, sem hafa ekki numið lögfræði og er því e. t. v. ókunnugt um þetta réttarhugtak. Þess vegna segir einn greinarhöfundur í „Ástandinu í sjálfstæðismálinu“, bls. 47, að vanefndatalið sé smekklaust, því að Danir hafi gætt þess að halda sambandsl. í öllum þeim greinum, er þeir gátu.

Annar frestunarmaður segir í „Andvara“ í fyrra, bls. 32: „Hefur þó að sjálfsögðu orðið að viðurkenna, að hér er ekki um neina sök af Dana hálfu að ræða, eins og legið gæti í orðinu“.

Þessi mistúlkun er mjög skaðleg, því að hún hefur afvegaleitt hugi sumra á þá lund, að Alþ. væri að ásaka Dani fyrir samningsrof. Vitanlega er enginn svo fávís, að honum detti í hug að saka Dani um það, að sambandsl. hafi orðið óframkvæmanleg.

Vanefnd á jafnt við sjálfráð sem ósjálfráð atvik. Ef A gerir vinnusamning við B um að koma í vinnu til hans ákveðinn dag, en svo líður mánuður og hann kemur ekki, er það vanefnd á samningnum af hendi A, þó að ástæðan sé sú, að hann hefur lagzt veikur eða er hafður í haldi af stigamönnum. B. getur rift þeim samningi, þó að A eigi vitaskuld enga sök á því, að hann kom ekki til vinnu á tilskildum degi. Eins er um þjóðaréttinn.

Ég tel nú rétt að rekja hér nokkru nánar reglurnar um áhrif vanefnda og rétt til riftingar samnings af þeim sökum.

Ekki skapar hvers konar vanefnd rétt til riftingar, hvorki í landsrétti né þjóðarétti. Þar hefur tvennt áhrif. Í fyrsta lagi: er vanefndin veruleg eða óveruleg, þ. e. snertir hún mikilvæg atriði samningsins eða smávægileg eingöngu. Í öðru lagi: á gagnaðili sök á vanefndinni, var tilgangur hans að rjúfa samninginn, eða var honum það ósjálfrátt. Síðara atriðið, sök eða sakleysi, hefur að l. minni þýðingu af eðlilegum ástæðum. Þeim, sem fyrir vanefndinni verður, er hún oftast jafntilfinnanleg og getur valdið sama tjóni, hvort sem hún var gagnaðila að kenna eða ekki.

En fyrra atriðið skiptir meira máli. Í landsrétti allra Norðurlandaþjóða og flestra annarra veitir veruleg vanefnd samnings riftingarrétt, án tillits til sakar eða sakleysis, en óveruleg vanefnd yfirleitt ekki.

Í þjóðarétti er það viðurkennt af öllum þjóðréttarfræðingum, sem ég þekki til, að veruleg vanefnd veiti þeim, er fyrir verður, riftunarrétt, hvort sem hún er sjálfráð eða ósjálfráð. En riftingarréttur í þjóðrétti er að því leyti víðtækari en að landslögum, að jafnvel óveruleg vanefnd getur skapað riftingarrétt. Um nánari skilyrði hans eru þjóðréttarfræðingar ekki sammála. Sumir telja hann alltaf heimilan, en aðrir aðeins ef aðili á sök á vanefnd.

Það, sem hér liggur fyrir, er því að athuga, hvort um verulega vanefnd er að ræða á sambandsl. Ef svo er, tel ég, að allir þjóðréttarfræðingar séu samdóma um riftingarréttinn. Til þess að gera því efni skil þarf að athuga sambandsl. og einstakar gr. þeirra.

1. gr. samningsins er yfirlýsing um, að Ísland og Danmörk séu frjáls og fullvalda ríki. 2.–5. gr. fjalla um konungserfðir o. fl. Engin þessara gr. snertir þetta mál. Nokkrar aðrar gr. samningsins hafa ýmist enga þýðingu lengur eða skipta ekki máli um þetta atriði. 9. gr. fjallar um myntskipun landanna, 10. gr. um hæstarétt, 11. gr. um skipting kostnaðar milli landanna af meðferð mála, 12. gr. um samninga um ýmis mál, er snerta báða aðila, svo sem samgöngumál, verzlunarmál o. fl., 13. gr. segir, að þær 60 þúsundir, sem ríkissjóður Danmerkur hefur greitt til Íslands, og Garðsstyrkur, falli niður, 14. gr. um sáttmálasjóð, 15. gr. um að hvort land fyrir sig ákveði, hvernig hagsmuna þess skuli gætt í hinu landinu, 16. gr. um dansk-íslenzka ráðgjafarn. og 19. gr. um að Danmörk tilkynni erlendum ríkjum, að hún hafi viðurkennt Ísland fullvalda, og að Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi og hafi engan gunnfána. Þessar gr. virðast ekki skipta máli í þessu sambandi. 17. gr. fjallar um gerðardóm, ef ágreiningur verður um skilning á ákvæðum sambandsl., og 18. gr. um form og aðferð við uppsögn samningsins.

Það eru aðeins þrjár gr. samningsins, sem fjalla um þýðingarmikil efnisatriði, er hér koma til athugunar. Fyrst er 6. gr., um jafnréttisákvæðið. Það er framkvæmt af báðum aðilum, að því er bezt er vitað. Næst er 7. gr., en upphaf hennar er á þessa lund: „Danmörk fer með utanríkismál Íslands í umboði þess“. Hér er komið að einu allra veigamesta ákvæði sambandsl., ef ekki því veigamesta. Utanríkismálin eru ein þýðingarmestu og viðkvæmustu mál hverrar þjóðar. Það er tvímælalaust, að Íslendingar hafa jafnan litið á 6. og 7. gr. samningsins, jafnréttisákvæðið og meðferð utanríkismálanna, sem meginatriði þessa samnings. Danir hafa ekki getað rækt í tæp fjögur ár þá meðferð utanríkismála Íslands, sem þeim er falin samkv. 7. gr. Á þessu tímabili hefur ekki verið unnt að ná til utanrrh. eða utanrrn: Dana. Danskir sendiherrar og ræðismenn hafa ekki getað sinnt þessum störfum. Vér höfum sjálfir orðið, síðan 1940, að byggja upp vora eigin utanríkisþjónustu, sendisveitir, sendiherra og ræðismenn.

Í 8. gr. segir, að Danmörk hafi á hendi gæzlu fiskveiða í landhelgi undir dönskum fána, þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur að öllu eða nokkru leyti á sinn kostnað. Að því leyti sem Danir höfðu þessa gæzlu enn á hendi í ársbyrjun 1940, hafa þeir ekki getað framkvæmt sinn hluta af henni.

Af þessum þrem efnisatriðum sambandsl., 6., 7. og 8. gr., hefur því tveim ekki verið fullnægt síðan er Danmörk var hernumin, og er annað þeirra sjálf utanríkismálin. Enginn mun geta véfengt, að hér er um veruleg atriði samningsins að ræða, að vanefnd þeirra er veruleg og jafnvel alger, og riftingarréttur því tvímælalaus. En ofan á þetta bætist, að konungur, sem var grundvöllur undir sjálfum sambandsl., gat ekki, síðan Danmörk var hernumin, rækt störf sín sem þjóðhöfðingi Íslands. Það gerir rétt og rök Íslendinga til riftingar að meiri.

Að vísu mætti orða, að jafnvel þótt vanefnd snerti veruleg atriði samnings, væri einhliða rifting ekki heimil, ef vanefndin stæði mjög stuttan tíma. Því er ekki til að dreifa hér. Hún hefur staðið yfir nærfellt fjögur ár, og í fullkominni óvissu nú, hvenær henni lýkur.

Samkv. hinni svonefndu vanefndakenningu tel ég því, að Íslendingar hafi öruggan réttargrundvöll til að segja upp sambandssamningnum.

Eini lögfræðingur íslenzkur, sem til skamms tíma hefur véfengt þennan rétt, hefur numið fræði sín í Danmörku undir handleiðslu prófessors Knud Berlin, sem lengst af hefur beitt sinni miklu þekkingu gegn íslenzkum málstað, enda gerir þessi lögfræðingur í ritsmíðum sínum yfirleitt allar lögskýringar Berlins að sínum.

Nú hefur bætzt við hv. 4. þm. Reykv. Það er nýtt fyrirbæri. Hann hefur áður viðurkennt riftingarréttinn með afstöðu sinni 17. maí 1941 og einnig með undirskrift sinni undir nál. stjskrn. 7. apríl 1943. Mér virðast eiga við orð Benedikts Sveinssonar um Halldór Kr. Friðriksson í lagaskólamálinu forðum, þegar Halldór Kr. Friðriksson, sem ár eftir ár hafði flutt það mál, lagði á gamals aldri á móti því. „Hann er búinn að greiða svo oft atkvæði með, að það er lítt takandi mark á því, þótt hann greiði nú einu sinni atkvæði á móti“. Hv. 4. þm. Reykv. er svo oft búinn að greiða atkv. með riftingarréttinum, að það verður að taka því með varúð, þó hann fari nú að véfengja hann.

Gagnvart riftingarréttinum eru engin rök færð nema þau, að hann sé vafasamur og umdeildur. Ég tel mig hafa leitt rök að því, að hann er ekki vafasamur.

Því er haldið fram, að ríkisstj. hafi ekki treyst sér til að byrgja á vanefndakenningunni. Hún hafi byggt afstöðu sína á öðru en riftingarréttinum. Á það get ég ekki fallizt. Í yfirlýsingu sinni frá 1. nóv. 1943 leggur hún áherzlu á, að það ástand, sem ríkt hefur undanfarin tæp fjögur ár, skapi oss rétt til sambandsslita. Þetta getur ekki þýtt annað en að samningurinn hafi þennan tíma verið óframkvæmanlegur og því vanefndur. Ég get ekki skilið afstöðu og yfirlýsingu ríkisstj. á annan veg en þann, að hún byggi á nákvæmlega sömu hugsun og réttarafstöðu eins og ég hef verið að gera tilraun til að skýra. Það er sama hugsunin, að við höfum orðið að taka málin í okkar hendur, sem Danmörk átti samkvæmt samningnum að sjá um.

Loks vil ég til viðbótar geta þess, að Danir hafa viðurkennt, að vér höfum haft rétt til ákvarðana vorra 1940. Í því felst viðurkenning þeirra á því, að þeir hafi ekki getað fullnægt sambandssamningnum að því er þessi mál varðar.

Næsta atriði, sem ég vildi ræða, er sú kenning hv. 4. þm. Reykv., að jafnvel þótt við hefðum rétt til riftingar, yrði sambandslagasamningurinn ekki heldur samkv. þeim rétti felldur úr gildi með öðrum hætti en samkv. 18. gr. samningsins, þ. e. að samþykki 2/3 hl. þm. þyrfti, og enn fremur 3/4 kjósenda, bæði um þátttöku og jáyrði. Hv. þm. rökstuddi þetta þannig: Sambandslögin eru enn í gildi. Þau eru ekki niður fallin, eins og sumir virðast álíta. Þess vegna verðum við að fara eftir 18. gr. þeirra, ef við viljum afnema samninginn, þó að það afnám sé byggt á riftingu eða vanefndarétti. Þess vegna telur hann, að þáltill. fullnægi ekki gildandi ákvæðum sambandsl., þar sem í henni sé aðeins áskilinn einfaldur meiri hl. á þingi og með þjóðinni, í stað hins aukna meiri hl. samkv. 18. gr.

Það atriði er rétt, að samningurinn er enn formlega í gildi. Til þess að fella hann niður nægir ekki vanefndin ein, heldur þarf til að koma yfirlýsing um, að ríkið ætli að segja upp samningnum hennar vegna. En að öðru leyti er þessi kenning ekki rétt. Hún er byggð á þeim misskilningi, að með riftingu vegna vanefnda riftum við aðeins vissum hlutum sambandslagasamningsins, þá líklega helzt 7. og 8. gr., um utanríkismál og landhelgisgæzlu. En hið rétta er, að vegna vanefnda á verulegum, jafnvel mikilvægustu ákvæðum samningsins, riftum við samningnum í heild, 1.–19. gr., að báðum meðtöldum, og öllu, sem þar er á milli. Á því er ekki snefill af vafa, að veruleg vanefnd á mikilvægum atriðum heimilar riftingu samningsins í heild og þar með 18. greinar. Það þýðir, að Íslendingar hafa sjálfdæmi um aðferð uppsagnarinnar. Þeir geta áskilið einfaldan meiri hl. eða aukinn meiri hl. eftir vild, alveg án tillits til 18. gr., sem með riftingu samningsins er úr gildi fallin eins og aðrar greinar hans.

Þetta má skýra nánar með einföldu dæmi: Maður gerir húsaleigusamning eða vinnusamning með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Annar aðili efnir ekki samninginn í mikilvægum atriðum. Þá er hinum heimilt að lýsa samninginn úr gildi fyrirvaralaust. Með öðrum orðum: honum er ekki aðeins heimilt að segja upp samningnum með þessum þriggja mánaða fyrirvara, heldur gerir vanefndin og riftingarrétturinn það að verkum, að hann getur rift samningnum í heild, þ. á m. ákvæðinu um þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Ég hef gert riftingarréttinn allýtarlega að umræðuefni, vegna þess að mér þykir sem þessi fyrri umr. megi ekki hjá líða án þess að fram komi sem gleggst þau rök, sem hin fyrirhuguðu sambandsslit byggjast á, og til þess að uppræta þann misskilning, sem mjög hefur verið ríkjandi um riftingarrétt og vanefndakenningu.

Ég vænti, að af þessu sé ljóst, að ég tel till. hæstv. ríkisstj. reista á fullum rökum og rétti. Nú má vera engu að síður, að einhverjir séu tortryggnir gagnvart þessum riftingarrétti. Vér skulum því taka til athugunar, hvort ekki muni einnig vera til annar réttargrundvöllur, er heimili oss einhliða uppsögn, til viðbótar þeim rétti, sem ég nú hef lýst, og gæti hann þá orðið okkur styrkur, ef einhverjir kynnu að vera í vafa um vanefndaréttinn.

Ein leiðin, sem orða mætti um uppsögn sambandsl., er þessi: að fylgja strangasta bókstafsskilningi þeirra: Þar sem endurskoðunar hafi enn ekki verið krafizt, og hennar sé í rauninni ekki hægt að krefjast fyrr en í stríðslok, verði að líða þrjú ár frá því, er sú krafa kemur fram, til einhliða uppsagnar. Þessi leið er svo ósanngjörn og skilningurinn svo óeðlilegur, að enginn getur ætlazt til, að hún sé farin. Þess vegna eru frestunarmenn einnig fallnir frá því að halda þessu fram. En þeir benda nú á annan skilning og aðra leið. Hún er þessi: Ályktun Alþ. 17. maí 1941, um að sáttmálinn verði ekki endurnýjaður, megi skoða sem kröfu um endurskoðun, og því megi slíta sambandinu einhliða þrem árum eftir að sú krafa kom fram, sbr. 18. gr., eða með öðrum orðum 19.–20. maí 1944, og er þá miðað við það, hvenær Danastjórn varð kunnugt um þá ályktun.

Þessi skilningur er að vísu véfengdur af ýmsum, enda hefur ályktunin tæplega verið hugsuð þannig af Alþ. Þannig virðist þó hafa verið litið á af dönsku stjórninni, og það hefur sína þýðingu, því að Danir ættu þá ekki að geta véfengt, ef eftir þessari leið er farið.

En jafnvel þótt gengið væri inn á þennan skilning, eru allar líkur til, að ályktunartill., sem fyrir liggur, fullnægi henni. Gangur málsins verður vafalaust þessi:

Till. verður samþ. nú. Síðan fer fram þjóðaratkv., sem tæplega getur orðið fyrr en í vor. Alþ. samþ. till. síðan endanlega, vafalaust eftir 17.–20. maí.

Þriðja leiðin, þriðji skilningurinn sýnist mér þó langeðlilegastur og sanngjarnastur.

Hann er í stuttu máli á þessa leið:

Fyrir 1940 hafði því verið skýlaust yfir lýst af Alþ., sbr. ótvíræðar yfirlýsingar allra flokka 1928 og ályktun Alþ. 1937, að vér mundum neita uppsagnarákvæðis sambandsl. svo fljótt sem lög leyfðu. Þ. e. krefjast endurskoðunar strax í ársbyrjun 1941, endurnýja ekki samninginn, segja honum svo upp í ársbyrjun 1944.

Þessi ákvörðun, þessi stefna var bæði Dönum og Íslendingum kunn. Ef ekkert óvænt hefði fyrir komið, værum vér því nú að ganga frá sambandsslitum samkv. 18. gr. sambandsl.

Í ársbyrjun 1941 var hins vegar orðið ómögulegt, að endurskoðun færi fram. Þess vegna var tilgangslaust að krefjast hennar. Þessi ómöguleiki stafaði af hertöku Danmerkur. Ég get ekki fallizt á, að sú staðreynd, að Danmörk var hernumin og henni ómögulegt að semja, geti svipt oss nokkrum rétti eða frestað möguleikum vorum til fullrar uppsagnar. Þetta þýðir, að vér eigum að njóta sömu kjara og ef allt hefði verið með felldu. Ómöguleikinn á því að semja kom þannig í stað kröfunnar um endurskoðun. Ég trúi því ekki, að neinn alþjóðadómstóll mundi líta svo á, að vér ættum að verða fyrir þeim réttarspjöllum að þurfa að bíða sambandsslita, af þeirri ástæðu, að Danir gátu ekki samið. Mér finnst þessi skilningur eðlilegastur, og samkv. honum höfum vér því nú, í janúar 1944, ótvíræðan rétt til einhliða uppsagnar samkv. 18. gr. sambandsl. Og vissulega væri það kaldhæðni, ef samningurinn, sem átti að tryggja oss yfirráð allra íslenzkra mála eftir 25 ár frá 1918, yrði til þess að hindra, að vér fengjum þessi yfirráð nú.

Þessum skilningi, þessum réttargrundvelli fyrir einhliða uppsögn vil ég bæta við vanefndaréttinn, ef þau ólíkindi yrðu, að hann yrði véfengdur að lokum af Dönum eða alþjóðadómstóli.

Því má að vísu varpa fram eftir þessum skilningi, hvort ætti að heimta 2/3 og 3/4 atkv. samkv. 18. gr. Ég er sannfærður um, að hvor tveggja meiri hl. náist, og það er fjarstæða að láta sér detta annað í hug. Ég tel, að það væri til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, hvort rétt væri að setja í till. ákvæði um hinn aukna meiri hl. Ef það mætti áorka því að ná samkomulagi milli allra flokka í Alþ. og allra hv. þm., tel ég það mjög mikils virði. Fullt samkomulag um þetta mikla mál mundi verða okkur Íslendingum styrkur og sómi inn á við og út á við.

Þeirri skoðun, að endurskoðun hafi verið óframkvæmanleg og krafa um hana því þýðingarlaus, hefur verið mótmælt af einum manni, en það er í hinni fyrrnefndu gr. í Andvara frá 1943. Þar segir greinarhöfundur, á bls. 38, að það sé hrein fjarstæða, að ekki hafi verið hægt að koma á framfæri kröfu Íslendinga um endurskoðun. A. m. k. hafi ekkert verið hægara en að koma henni til danska sendiherrans í Reykjavík. En jafnvel þótt það hefði verið gert, varð sendiherrann annaðhvort að fara eftir fyrirmælum dönsku stj. í Kaupmannahöfn, sem var undir þýzku áhrifavaldi og því ekki sjálfráð gerða sinna, eða hann varð að fara eftir eigin höfði, og þá var viðbúið, að gerðir hans yrðu véfengdar og að engu hafðar af stj. Danmerkur.

Þetta var því jafnómögulegt og hitt hefði verið, að láta utanríkismál okkar vera áfram í höndum dönsku utanríkisþjónustunnar, eftir að hún var komin undir þýzk áhrif.

Nú hefur danska stj. litið á ályktun Alþ. frá 17. maí 1941 sem kröfu um endurskoðun sambandslagasamningsins, án þess að hún hafi gert neitt til þess, þá eða síðar, að endurskoðun færi fram, t. d. með því að tilnefna samningamenn. Það sýnir, að danska stj. hefur talið viðræður um endurskoðun óframkvæmanlegar. Kenning Andvarahöfundarins hefur því hvorki stoð í íslenzkum skilningi né í skilningi danskra stjórnarvalda.

Af því, sem nú hefur verið rakið, er ljóst, að ég tel, að till. sú, sem fyrir liggur, sé í samræmi við alþjóðal., hvort sem vér byggjum á riftingar- og vanefndaréttinum eða á hinum eðlilegasta skilningi á 18. gr. sáttmálans, miðað við þau atvik, sem skapazt hafa. Ég tel því till. byggða á öruggum og ótvíræðum réttargrundvelli.

Ég hef vikið hér að hinum lagalega rétti. Í umr. hafa verið rakin hin sögulegu rök Íslendinga til þess að ráða einir öllum sínum málum. Það hefur verið lýst sjálfsákvörðunarrétti þjóðanna, og þarf ég engu við þær umr. að bæta.

En athugum þá næst hin siðferðislegu viðhorf. Hv. 4. þm. Reykv. hafði það eftir Knud Berlin, að hvað sem liði hinum lagalega rétti, væri siðferðislegur réttur Íslendinga til sambandsslitanna neðan við allar hellur.

Einn þeirra, sem skrifað hefur í ritið „Ástandið í sjálfstæðismálinu“, segir á bls. 89, að sér fyndist það viðbjóðslegur endir sjálfstæðisbaráttu vorrar, að vér þægjum í rauninni hina síðustu frelsisskrá vora úr föðurhöndum böðla Norðurálfunnar.

Að vísu sýnir veraldarsagan, að margar þjóðir hafa fengið sjálfstæði sitt upp úr styrjöldum, og má jafnvel segja, að margar þeirra eigi styrjöldum fullveldi sitt að þakka. Vér þurfum ekki að fara lengra aftur en til stríðsins 1914–1918 til að minnast þess, hver áhrif sú styrjöld hafði á sjálfstæði margra þjóða. Og hún átti vissulega mikinn þátt í því, að Íslendingar fengu fullveldi. Það er því lítt skiljanlegt, hvað greinarhöfundur sér viðbjóðslegt í því, að rás viðburða færi þjóðum sjálfstæði. En sleppum því.

Það, sem vér Íslendingar erum að gera, er það eitt að taka þann rétt, sem sambandslagasamningurinn gerði ráð fyrir, að vér fengjum þegar eftir árslok 1943. Vér erum að festa það ástand, sem verið hefur um fjögurra ára skeið. Hvað er viðbjóðslegt í því? Hvað gerum vér Dönum til miska, þótt vér losum þá við sáttmálaskyldur, sem vafasamt er, hvort þeir óska framar að standa undir? Er það árás á Danmörku, að vér tökum utanríkismál vor í eigin hendur eða landhelgisgæzlu? Er það ósiðlegt eða móðgun að slíta sambandsl. eftir 25 ár, eins og Danir sjálfir samþ. 1918 — og hafa alltaf vitað, að vér mundum gera?

Eftir slíkum ummælum og orðum fleiri frestunarmanna mætti ætla, að vér Íslendingar værum að leggja undir okkur Dani, kúga þá með einokun, til að auðga íslenzka kaupsýslumenn, selja þeim maðkað mjöl og fúinn við.

Ég efa ekki, að ýmsum þeirra, er vilja frestun málsins, gengur gott eitt til. En hvatir frestunarmanna eru svo ólíkar, að varla er hægt að tala um þá í sömu andránni. Fyrir sumum mun vaka samúð með Dönum í þrengingum þeirra, fyrir öðrum kann það að vera virðing fyrir lögum, rétti og samningum. Og mér er kunnugt um, að þannig litu margir af hinum 270 undirskrifendum á. Fyrir enn öðrum kann að vaka, að betra sé að bíða, unz unnt sé að semja við Dani um endurheimt skinnbóka og forngripa, sem vér eigum hjá þeim í geymslu. En loks eru þeir, sem í raun og veru eru að villa á sér heimildir. Þeir heimta frest, en eru í reynd andvígir skilnaði. Það, sem þeir vilja, er að halda við konungssambandinu og sambandslagasamningnum, lítt eða ekki breyttum.

Ég þekki að vísu enga slíka menn innan þings, en mér er kunnugt um þá utan þings. Enda hafa sumir þeirra lýst þeim vilja sínum skýrt og skorinort áður fyrr, þótt nú sé dregin fjöður yfir, til þess að hylja hinn raunverulega tilgang. Þessir menn segja ekki nú: Við viljum halda sambandinu vegna þess, að það er gagnlegt fyrir Íslendinga. Nei, þeir segja: Við viljum ekki ráðast á bræðraþjóð í sárum. Þá samúð með bræðraþjóðinni, sem er svo rík í hugum Íslendinga, vilja sumir þessara frestunarmanna nota til að hylja sinn innri hug: að koma í veg fyrir skilnað. Einn frestunarmanna talaði um viðbjóðsleg endalok sjálfstæðisbaráttunnar. Ef eitthvað í þessu mikla máli er viðbjóðslegt, þá er það framkoma þessara manna.

Samvinna vor við aðrar Norðurlandaþjóðir mun engan hnekki bíða, þótt sambandslagasamningurinn sé úr gildi felldur, heldur hverfa með honum ýmsar hindranir úr vegi.

Grundvallarskilyrði norrænnar samvinnu er fullkomið jafnrétti hinna norrænu þjóða. Oft hefur gætt tortryggni og misskilnings milli Dana og Íslendinga. Einnig á hinum síðari árum. Danir hafa oft reynt að koma fram sem yfirþjóð. Þá sögu má segja t. d. frá ýmsum mótum, þar sem mætt hafa fulltrúar Norðurlandanna allra. Við Finna, Norðmenn og Svía hefur oss fallið ágætlega og farið vel á. En hvað eftir annað hefur misklíð og misskilningur komið upp milli Íslendinga og Dana. Ég er sannfærður um, að eins og sambúð Norðmanna og Svía batnaði stórum, eftir að þeir slitu ríkistengsl sín, muni fljótt batna milli okkar og Dana, eftir að skilnaður er alger.

Frá nokkrum blöðum á Norðurlöndum hafa komið aðvaranir. Þar virðist talið hættulegt, ef vér tökum öll vor mál í eigin hendur.

Ég átti þess kost á einu norrænu móti, fyrir 9 árum, að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að Íslendingar mundu, strax og lög leyfðu, segja upp sambandslagasamningnum og taka sjálfir öll sín mál í eigin hendur, og að þetta mundi ekki spilla norrænni samvinnu, heldur greiða fyrir henni. Eftir kynnum mínum af norrænum stúdentum á því móti, verður riftun sambandsl. og stofnun lýðveldis á Íslandi innan skamms tekið með skilningi á öllum Norðurlöndum, þótt fram kunni að koma misskilningur í bili. En ef það er skilyrði fyrir samvinnu Norðurlanda, að Danir hafi yfirráð yfir málum Íslendinga, þá vil ég ekki kaupa norræna samvinnu því verði.

Að lokum vil ég biðja þá n., er fær málið til meðferðar, að taka eftirfarandi atriði til athugunar: Í fyrsta lagi, hvort 2. liður till. er ekki of þröngur, þar sem jafnréttið er bundið við þá, sem þegar hafa öðlazt heimilisfesti á Íslandi, og á ég þar fyrst og fremst við fiskveiðar Færeyinga hér við land.

Í öðru lagi, hvort ekki væri rétt að setja í till. ákvæði um, að ¾ hl. atkv. þyrfti við þjóðaratkvgr. Og í þriðja lagi, hvort þetta form, þingsályktun, er fullnægjandi til að tryggja fyrst um sinn, þangað til endanlega er gengið frá samningum, jafnrétti danskra ríkisborgara, sem hér eru nú búsettir; hvort ekki þarf að setja bráðabirgðaákvæði í stjskrfrv. Ég geri ekki ákveðnar till. um þessi atriði, en varpa þeim fram til athugunar.