20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (4159)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. er flutt af fjhn. eftir beiðni hæstv. fjmrh., og þarf ekki af n. hálfu að fylgja því úr hlaði með mörgum orðum.

Það er alkunnugt, að stjórnarráðið er í ákaflega miklu hraki með húsnæði, svo að þar er ekki við hlítandi. Skrifstofur stjórnarráðsins eru dreifðar viða um bæ, og fylgir því vinnutap og óþarfa bögglaburður milli skrifstofanna og annað slíkt, sem veldur miklum óþægindum við störf. Auk þess er þetta dreifða húsnæði algerlega ófullnægjandi. Það kom fram m.a. fyrir nokkrum dögum í sambandi við umr. um annað mál, ríkisreikninginn, að endurskoðun á honum hafði beinlínis dregizt vegna þess, að svo miklir erfiðleikar voru um húsakost, sem þurfti við þessa endurskoðun, sem nú er mikil og flókin, með þeim mannafla, sem þarf, til þess að ríkisreikningurinn geti verið til í tæka tíð. Úr þessu er hugsað að bæta með því, að ríkið reisi ákaflega mikla byggingu á þeim lóðum, sem það hefur eignazt við Lækjargötu. En á hinn bóginn eru bæði af skipulagsástæðum og ýmsum öðrum ástæðum engar líkur til, að sú bygging komi upp í skyndi eða svo fljótt sem nauðsynlegt er til að bæta úr húsnæðisvandræðum stjórnarráðsins, af því að hér er um svo mikla og veglega höll að ræða, að ekkert vit er í öðru en að taka mjög rúman tíma til að ákveða gerð hennar og reisa hana. Á hinn bóginn hagar mjög vel til um viðbót við Arnarhvol, þar sem margar skrifstofur stjórnarráðsins eru. Mætti sjálfsagt setja þar upp viðunandi byggingu til bráðabirgða, sem engin hætta er að reisa, vegna þess að hún stendur á svo hentugum stað og yrði svo hentugt hús. að engin hætta er á, að það yrði ekki alltaf í gildi til ýmiss konar starfsemi, hvort sem það væri ríkið sjálft eða aðrir, sem þyrftu að nota það.

Það er annað, sem hefur blandazt inn í þetta. Ein af virðulegustu stofnunum landsins, sem er nú að halda 25 ára afmæli sitt, er mjög illa sett með húsnæði og hefur verið frá upphafi, sem sé Hæstiréttur, og hefur verið hugsað til, að hann gæti fengið þarna viðunandi bráðabirgðahúsnæði. Hér gæti ekki verið um annað en mjög stóra byggingu að ræða, sem mundi kosta mikið, svo að stj. fer fram á heimild til lántöku í þessu skyni.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en mæli með, að hv. d. samþ. þetta mál. Það þarf sennilega að afgr. það nokkuð hratt, ef það á að fá fullnaðarafgr. á þessu þingi, þar sem nú munu ekki vera nema fáir dagar eftir af þingtímanum.